01.11.1971
Efri deild: 8. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

11. mál, stöðugt verðlag

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. forsrh. gat um, þá fjallar þetta frv. að meginefni um það, að framlengdar skuli ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis, þ.e. verðstöðvunin, sem samþ. var af Alþ. alllöngu fyrir síðustu áramót eða nokkru eftir að þing kom saman haustið 1970. Málið hefur því efnislega verið rætt áður hvað meginkjarna þess snertir og það var því eðlilegt, að hæstv. forsrh. teldi ekki ástæðu til að ræða það ítarlega, enda e.t.v. skiljanlegt með hliðsjón af forsögu málsins, en ég vona, að hv. þdm. afsaki það, þó að ég geri frv. nokkuð að umtalsefni. Ég tek það skýrt fram, að það er ekki vegna þess, að það feli í sér andstöðu við frv. sem slíkt, — ég tel, að það eigi fullkominn rétt á sér og þessi ráðstöfun hafi verið eðlileg og sjálfsögð, — heldur vegna þess, sem áður hefur fram komið um þetta mál, vegna þess að það voru á s.l. hausti mjög í sviðsljósinu og einnig í síðustu kosningum gerðir mjög að umtalsefni og árásarefni á þáverandi ríkisstj. nánast þeir bakþankar, sem lægju að baki verðstöðvuninni. Ég skal reyna að orðlengja þetta ekki meira en ástæða er til, en aðeins draga upp nokkra mynd af forsögu málsins til þess að skýra málið og afstöðu mína og Sjálfstfl. til þess.

Það er öllum hv. þm. í fersku minni, að eftir erfiðleikaárin 1967–1969, þar sem vissulega varð að leggja ýmsar kvaðir á almenning, — og skal ég ekki um það hefja neinar umr., og tel enda ekki, þó að ég reki þetta mál í höfuðatriðum, ástæðu til að fara að efna hér til almennra efnahagsumræðna, heldur mun ég aðeins draga upp mynd af forsögu málsins — þá þótti sýnt á árinu 1970, að hagur atvinnuveganna hefði batnað það verulega, sérstaklega útflutningsframleiðslunnar, að hægt væri að bæta almenningi verulega upp kjaraskerðinguna, sem hafði verið óumflýjanleg á erfiðleikaárunum. Þessu lýsti ríkisstj. þá yfir og það var í samræmi við hennar skoðun, að kjarabætur yrðu allverulegar við kjarasamningana 1970. Hins vegar var á það lögð rík áherzla af hálfu þáverandi ríkisstj., að nauðsyn bæri til, að kjarabæturnar yrðu með þeim hætti, að ekki yrði hleypt af stað nýrri verðbólguskriðu og þær væru innan þeirra marka, sem gjaldþol atvinnuveganna þyldi. Það var ljóst, að gjaldþol atvinnuveganna var mjög mismunandi. Það var fyrst og fremst útflutningsframleiðslan og sérstaklega sjávarútvegurinn, sem hafði bætt verulega stöðu sína. Hins vegar höfðu innlendar framleiðslugreinar, hæði innlendur iðnaður, landbúnaður og þjónustugreinar, svo og að sjálfsögðu opinber starfsemi, ekki það aukna gjaldþol, að hægt væri að taka við verulegum hækkunum kaups, án þess að það kæmi fram í hækkuðu verðlagi og hækkuðum tilkostnaði. En það var talið auðið að framkvæma einmitt raunhæfa kjarabót með þeim hætti að fara tvær leiðir sameiginlega að markinu, fyrst og fremst að hækka nokkuð stofngengi íslenzkrar krónu, sem leiddi af sér, að kauphækkunin kæmi fyrst og fremst fram hjá útflutningsframleiðslunni, og í annan stað mundi verða auðið að framkvæma nokkra allsherjar kauphækkun. Það var reiknað út af Efnahagsstofnuninni, að með þeim aðferðum sameinuðum væri hægt að bæta verulega kjörin, án þess að þyrfti að koma til nýrrar verðbólguöldu. Ríkisstj. vakti athygli samningsaðila á þessum staðreyndum og lagði áherzlu á, að slík leið yrði farin. Það var vitanlega á valdi ríkisstj. að hækka gengið, en hins vegar ljóst, að ef það yrði ekki neins metið, þá væri verr af stað farið en heima setið, og eftir að ljóst var, að það átti engan hljómgrunn hjá hvorugum samningsaðilanum að fara þá leið, þá varð niðurstaðan sú, að veruleg kauphækkun, mjög veruleg kauphækkun var samþ. á s.l. vori, og það var ljóst, þegar tók að líða á sumar, að þessi kauphækkun mundi leiða af sér miklar víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags, þannig að nú á þessu sumri gæti svo farið, að kauphækkanirnar gætu hafa náð allt að 40%, ef ekkert yrði aðhafzt. Það var því ljóst, að ný verðbólguskriða var fram undan og að atvinnuvegunum var stefnt stórlega í hættu, ef þróunin yrði með þessum hætti, og því var gripið til verðstöðvunarinnar s.l. haust, til þess að reyna að tryggja raungildi þeirra launa, sem samið hafði verið um, svo sem verða mátti, og ákveðið, að verðstöðvunin skyldi gilda til 1. sept. 1971, og var það þá haft í huga, að svigrúm gæti unnizt að afloknum alþingiskosningum til þess að kauna málin til hlítar og hvaða leiðir væru færar til þess að koma í veg fyrir nýja verðbólguöldu og leggja grundvöll að raunhæfum kjarabótum.

Það var vitanlegt, að samningar verkalýðsfélaga væru fram undan á haustinu, 1. sept. 1971, þá áttu samningar að falla úr gildi, og var á það lögð áherzla, að þeir samningar yrðu að sjálfsögðu að markast af því ástandi, sem þá væri ríkjandi, eftir að verðstöðvunin hefði verið við lýði þetta tímabil. Það var haldið uppi allverulegri gagnrýni á þessa ráðstöfun þáverandi ríkisstj. Því var haldið fram af hv. stjórnarandstöðu hér í Alþ., að þetta væri sýndarmennska, það væri verið að eyðileggja gildandi kjarasamninga. Þetta voru nú höfuðrökin, sem fram voru flutt. Annað atriðið, að verið væri að eyðileggja gildandi kjarasamninga, byggðist á því, að gert var ráð fyrir, að nokkur skerðing yrði á vísitölugreiðslum, annars vegar að frestað yrði til 1. sept. 1971 greiðslum allt að 2 vísitölustiga, ef vísitala hækkaði á tímabilinu að því marki, og jafnframt var ákveðið, að 1.3 vísitölustig, sem stöfuðu annars vegar af áhrifum hækkana á tóbaki og áfengi og hins vegar af hækkun almannatryggingagjalda, skyldu ekki koma fram í vísitölunni. Það var harðlega deilt á ríkisstj. fyrir að framkvæma málið með þessum hætti, en það var á

það lögð áherzla af ríkisstj., að hér væri í rauninni ekki verið að framkvæma neina raunverulega kjaraskerðingu hvað snerti tvö vísitölustig, þar sem ljóst var, að ef verðbólguþróunin héldi áfram með þeim hætti, sem allar horfur virtust á miðað við þá útreikninga, sem fyrir lágu, þá mundu verkalýðssamtökin ekki fá kjarabætur fyrr en eftir á, þannig að það væri alltaf á annað stig, sem þau væru í raun og veru á eftir varðandi kaupgjaldsvísitölu, auk þess sem það væri að sjálfsögðu grundvallarnauðsyn fyrir verkalýðshreyfinguna, að hægt væri að koma í veg fyrir öngþveiti í atvinnulífinu, jafnvel stöðvun einstakra atvinnuþátta. Varðandi hitt atriðið, að taka áfengi og tóbak út úr vísitölunni og almannatryggingagjöld, þá hefur það nú lengi verið svo, að það hefur verið álitamál, hverju ætti að reikna með í vísitölu. Ég verð að segja það sem mína skoðun og það var skoðun ríkisstj., að sérstaklega almannatryggingagjöld væri fráleitt að reikna inn í vísitölu, þar sem um er að ræða beinar kjarabætur, sem verið var að veita stórum hópi þjóðfélagsborgara, almannatryggingarnar, og þess vegna ekki möguleiki og ekki á neinn hátt eðlilegt, að það væri hægt að bæta upp í hækkuðu kaupi. Um áfengi og tóbak er líka nokkuð sérstakt að segja, því að telja verður, að það vegi óeðlilega þungt í vísitölunni, og með þessu kerfi, sem búið er að setja upp miðað við núgildandi vísitölu, að taka alla slíka liði með, þá erum við í rauninni komnir inn í lítt viðráðanlega blindgötu, ef svo má segja, þar sem ekki eru neinir möguleikar til þess að afla fjár til þess að koma í veg fyrir verðlagshækkanir, eins og gert hefur verið um áratugabil í ýmsum og mismunandi mæli, að vörur hafa verið greiddar niður, en það er ekki hægt að gera þetta með þessu kerfi, nema að mjög takmörkuðu leyti, vegna þess að vísitalan hækkar mikið á móti. Það var einnig á það bent, að þessum byrðum hefði verið skipt, vegna þess að lagt var á atvinnureksturinn s.l. haust að taka á sig allverulega kauphækkun algerlega bótalaust. Samtímis þessu var svo gripið til stórhækkaðra niðurgreiðslna á vöruverði, og með þessu móti var að því stefnt og það hefur tekizt að halda verðlaginu stöðugu, eins og gert var ráð fyrir í umræddum lögum.

Því var mjög haldið fram, að með þessu móti væri aðeins verið að safna í sarpinn vandræðum, og þó að verðstöðvunin út af fyrir sig væri lofsverð, þá væri hún aðeins sýndarmennska, þetta mundi allt springa þegar með haustdögum og þá mundi skella yfir mikill ófögnuður, sem sumir orðuðu sem hrollvekju. Og því var mjög haldið fram í síðustu kosningum, að þessi ráðstöfun væri algerlega óraunhæf og fengi ekki staðizt, vegna þess að því var haldið fram af okkur og stjórnarflokkunum báðum í þeim kosningum, þáverandi stjórnarflokkum, að auðið væri að halda verðstöðvuninni áfram, að einhverju verulegu leyti a.m.k., og miðað við þær aðstæður, sem ríkjandi væru sérstaklega í útflutningsframleiðslunni, batnandi verðlagi og góðum horfum á því sviði, þá væri margt, sem benti til þess, að það ætti að vera hægt að ná, ef samningsaðilar á vinnumarkaðnum vildu horfa á það raunsæjum augum, þótt kauphækkanir yrðu ekki úr hófi fram, slíkum kjarasamningum í haust, að verðstöðvunin yrði raunhæfur þáttur í því að skapa framhaldandi jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Nú hefur það komið í ljós með þeirri löggjöf, sem sett var sem brbl. og var eitt af fyrstu verkum vinstri stjórnarinnar, hæstv. núverandi ríkisstj., að hún mat það svo, að auðið væri að halda verðstöðvuninni áfram til áramóta, eins og við Sjálfstæðismenn höfðum haldið fram í umr. í kosningunum í vor, er þessi mál voru mjög í sviðsljósinu. Og ekki aðeins hefur ríkisstj. gert þetta, heldur er í fjárlagafrv. að finna till., sem gera ráð fyrir því, að verðstöðvuninni verði að verulegu leyti haldið áfram út næsta ár, þar sem gert er ráð fyrir, að þær niðurgreiðslur, sem ákveðnar höfðu verið fyrir 1. sept. í haust, haldi gildi sínu út allt næsta ár. Að því var mjög fundið hjá okkur, að þetta væri sýndarmennska varðandi verðstöðvunina, að tala um að hægt væri að framlengja hana til næstu áramóta, vegna þess að ekkert fé væri til ráðstöfunar og ekki séð fyrir neinu fé til þess að halda verðstöðvuninni áfram. Nú hefur hæstv. núverandi ríkisstj. framlengt verðstöðvunina, án þess að sjá fyrir nokkru nýju fé, og ekki aðeins gert það heldur gert ýmsar aðrar ráðstafanir, sem aukið hafa stórlega útgjöld ríkissjóðs. Varðandi verðstöðvunina og raunar báðar þessar ráðstafanir er það fjarri mér að vera að deila á hæstv. ríkisstj. fyrir það, ef það er svo, að fjárhagsaðstaða ríkissjóðs leyfir jafnstórfelld útgjöld og hér er um að ræða eða um 650 millj. kr., en ég deili hins vegar á það, ef það leiðir til þess, að það stofnar greiðslustöðu ríkissjóðs í hættu og veldur greiðsluhalla á hinum mestu góðæristímum. Það kann þó að vera, að þetta sé réttlætanlegt, ef það næst fram, sem hæstv. ríkisstj. hefur lýst yfir að sé höfuðstefnumið sitt og vissulega var höfuðstefnumið fyrrverandi ríkisstj. einnig, ef hún hefði setið áfram eða þeir flokkar farið með völd, sem að henni stóðu, að leggja áherzlu á það við kjarasamninga nú á þessu hausti, að þeir yrðu það raunsæir, að ekki yrði lengra gengið en svo, að atvinnulífið gæti borið þá kauphækkun, án þess að til nýs verðbólguflóðs kæmi. Um þau atriði, sem fram hafa komið í því efni, og um þau vinnubrögð, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft í sambandi við þá samninga, skal ég ekki neitt segja á þessu stigi málsins. Það kemur vafalaust til umr. hér síðar. Og vissulega er það góðra gjalda vert, að ríkisstj. reyni að stefna að því, að þessir kjarasamningar verði raunsæir og ekki verði lengra stefnt en greiðslugeta atvinnuveganna þolir. Þó er það hins vegar mín skoðun, að ýmis önnur vinnubrögð í því sambandi hefðu e.t.v. verið hentugri til að ná jákvæðari árangri, en það kann vel að vera, að það náist engu að síður, og ég skal ekki vera með neinar hrakspár í sambandi við það. En ég legg aðeins áherzlu á þann kjarna málsins, að í rauninni hefur hér verið tekin upp nákvæmlega sú stefna í meginefnum, sem lýst var yfir af fyrrverandi ríkisstj. og stjórnarflokkum að þeir vildu vinna að, annars vegar að setja á verðstöðvunina, framlengja hana, ef þörf krefði, eitthvað fram í tímann.

Það var aldrei deilumál,að verðstöðvun gæti ekki verið endalaust við lýði, það var aldrei ágreiningur á milli okkar um það, en að hún yrði framlengd að einhverju eða öllu leyti til þess að vinna svigrúm, og í sambandi við endanlega lausn efnahagsvandans yrði reynt að kanna það til hlítar og fá fram gagnkvæman og raunhæfan skilning samningsaðila vinnumarkaðarins á þessu hausti á því, að kaupkröfum yrði haldið innan þeirra marka, að atvinnulífinu og efnahagskerfinu yrði ekki stefnt í voða. Mér sýnist, að í meginefnum hafi hæstv. ríkisstj. gengið inn á þessar skoðanir, og tel ég o það á engan hátt fjarstæðu, að þetta sé hægt að gera, það sé jafnvel hægt að veita mjög umtalsverðar kjarabætur, auk þess sem verðstöðvunaraðgerðum verði haldið áfram nú á þessu hausti. Og ég tel, að það eina, sem geti hér skapað hættu, sé sú staðreynd eða sú aðstaða, skulum við segja, sem kynni að skapast, ef kaupkröfum yrði haldið það háum, að ekki yrði við vandamálið ráðið.

Það eina, sem hefur gerzt og er breytt varðandi verðstöðvunarlögin, er annars vegar það, að ákveðið er, að tveggja stiga frestun vísitölunnar taki gildi einum mánuði fyrr en hún hefði ella tekið gildi, sem auðvitað skiptir ekki nokkru máli, og hitt atriðið, sem má segja að sé veigameira, er það, að taka skuli aftur inn í vísitöluna þau 1.3 vísitölustig, sem leiddi af því, að áfengi og tóbak og almannatryggingaiðgjald var tekið út úr vísitölunni. Ég skal ekki fara út í þá sálma að ræða hér, nema tilefni gefist til, þær kenningar, að með þeim ráðstöfunum hafi á sínum tíma verið vegið að kjarasamningarétti og eyðilagðir gildandi kjarasamningar. Það er mín skoðun, að svo hafi alls ekki verið, vegna þess að það er reginmunur á samningum um grunnkaup eða samningum um verðlagsuppbót, sem fyrst og fremst er hugsuð til þess að tryggja kaupmátt launanna, og það var óvefengjanlega sannað, að kaupmætti launanna var stefnt í stórfellda hættu, ef ekki hefðu verið gerðar þær ráðstafanir, sem verðstöðvunarlögin gerðu ráð fyrir, þannig að kaupmátturinn hefði vissulega minnkað mun meira en sem svaraði þeirri skerðingu, sem hér er um að ræða í þessum tveimur atriðum. Þetta tel ég rétt, að komi fram, til þess að tengja saman forsögu og nútíð þessa máls.

Varðandi framtíðina verður auðvitað ekkert sagt á þessu stigi. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki gert enn þá neina grein fyrir því, hver sé hennar meginstefna í efnahagsmálum. Hún hefur mjög góða aðstöðu vegna hins mikla bata, sem er í efnahagskerfinu á öllum sviðum, þannig að ef rétt er á málum haldið, þá ætti að vera auðið að bæta enn kjör alls almennings allverulega, án þess að teflt sé í hættu nauðsynlegu efnahagsjafnvægi, enda hafa yfirlýsingar ríkisstj. hnigið í þá átt, að næstu tvö ár eigi að bæta raunkjör launþega um 20%, sem er alls ekki lítið, eða 10% á ári, sem er vissulega mikil kaupmáttaraukning, þannig að það virðist svo sem hæstv. ríkisstj. sé verulega bjartsýn á ástandið nú og á næstunni, enda sýna þeir útreikningar, sem Efnahagsstofnunin hefur gert, að til þess virðist vera full ástæða, þannig að ekki eigi að þurfa að skapast neitt sérstakt öngþveiti í efnahagskerfinu, ef, eins og ég segi, rétt er á málum haldið og ef tekst að fá fram nauðsynlegan skilning samningsaðila vinnumarkaðarins á nauðsyn þess að halda kaupkröfum innan hóflegra marka.

Ég veit ekki, hvort hægt er að fara fram á það nú og ég ætlast alls ekki til þess, að hæstv. forsrh. gefi í sambandi við þessar umr. neinar yfirlýsingar um efnahagsstefnu ríkisstj. umfram það, sem gert var í stjórnarsáttmálanum, ég geri ráð fyrir, að það sé mjög miklum erfiðleikum bundið, þar sem kjarasamningum er enn ekki lokið, og það hlýtur auðvitað að hafa mjög veruleg áhrif á ráðstafanir, sem gerðar kunna að verða, hvernig endanlega fer með þá kjarasamninga. En það er annað atriði, sem ég mætti e.t.v. spyrja hæstv. forsrh. um og hann gæti e.t.v. upplýst, og það er ekki sízt fróðlegt vegna þeirra ádeilna, sem haldið var uppi á fyrrverandi ríkisstj., að hún hefði með því að fella niður 1.3 vísitölustig í vísitölunni falsað vísitöluna, eins og það var nú orðað, eða fengið þar lægri niðurstöðu en ella hefði verið. Mig langar að spyrjast fyrir um það, hvað það merkir í grg. frv. til fjárlaga fyrir árið 1972, að talað er um, að nauðsynlegt sé að taka niðurgreiðslukerfið til endurskoðunar. Það er sagt, að það sé uggvænlegt, hvað niðurgreiðslur hækki, og ég er vissulega sammála því, að þær eru uggvænlegar, þær voru bæði uggvænlegar á þessu ári, í þeim fjárlögum, sem nú gilda, og verða enn þá uggvænlegri á næsta ári, miðað við þá hækkun, sem þar er, en það er komizt mjög einkennilega að orði í grg. fjárlagafrv., að það sé nauðsynlegt að endurskoða þetta, þannig að ekki sé víst, hvort þurfi á öllum þessum upphæðum að halda, sem gert er ráð fyrir í frv. Er það e.t.v. hugsanlegt, að ríkisstj. hafi í hyggju að hagræða eitthvað vísitölu á þann hátt, að ekki verði eins kostnaðarsamt að greiða hana niður og ella mundi vera? Það var deilt mjög á launaskattinn, sem hér er nú lagt til að framlengja til ársloka, þegar hann var til umr. hér á síðasta þingi að með honum væri verið í rauninni að komast á ódýrari hátt út úr vandanum heldur en ef það kæmi fram sem bein kaupgreiðsla frá vinnuveitendum, vegna þess að það mundi vera ódýrara að greiða niður vísitölustigin með þessum hætti, að taka peningana fyrst í ríkissjóð og greiða síðan niður vissar vörur, heldur en ef það kæmi fram sem bein launagreiðsla frá atvinnuvegunum. Vel kann þetta að vera, ekki skal ég um þetta segja, en er hugsanlegt, að það vaki eitthvað fyrir hæstv. ríkisstj. að endurskoða niðurgreiðslukerfið með þessum hætti? Ég er fyrir fram ekkert að deila á þær ráðstafanir, alls ekki. Þetta er öngþveitisvandamál, þetta vísitölukerfi okkar, og við sjáum að sjálfsögðu, að miðað við þær geysilegu fjárhæðir, sem hér er um að ræða, þá er þetta orðið stórt og mikið vandamál. Það er hins vegar áreiðanlega öllum ljóst, bæði í stjórnarflokkum og stjórnarandstöðu, að hér er við mikla erfiðleika að fást. Það hefur aldrei tekizt að komast út úr þessum niðurgreiðslum. Á vissu árabili hefur verið reynt að lækka þær, skera þær niður. Það var gert fyrir nokkrum árum. Það mætti líka harðvítugri andspyrnu, enda ekki auðvelt um vik, ef þær lækkanir leiða til þess, að verðlagsvísitala og kaupgjald hækkar sem því nemur og veldur atvinnuvegunum þar með nýjum erfiðleikum, sem verður þá að mæta með uppbótum eða einhverjum öðrum hætti, því að ég tel það mikið vafamál, að uppbætur til atvinnuveganna séu nokkuð farsælli leið heldur en að greiða niður vöruverðið. Ég veit ekki, hvort hæstv. forsrh. hefur aðstöðu til að upplýsa nokkuð nánar um þetta heldur en þær óljósu hugleiðingar, sem eru í frv.

Herra forseti. Ég hef ekki með þessum orðum mínum verið að ætlast til þess, að hér hæfust almennar umr. um efnahagsmál með því að deila á neinn hátt á stefnu hæstv. ríkisstj. almennt í þeim efnum. Um hana er ekkert vitað, og því ekki hægt að deila á hana á þessu stigi. En ég taldi alveg nauðsynlegt, að þessi orð, sem ég hef hér sagt, kæmu fram við þessa umr., vegna þess að með þessum ráðstöfunum, sem hér er verið að gera, er verið að gera nákvæmlega það sama og við sjálfstæðismenn héldum fram fyrir kosningar, að eðlilegt gæti verið að gera með haustdögum til þess að vinna frekari frest einmitt í sambandi við kjarasamningana og að það gæti verið jafnvel eðlilegt að halda áfram einhverri verðstöðvun að vissu marki á næsta ári með hliðsjón af þeim kjarasamningum, sem þá yrðu gerðir. Þetta hvort tveggja virðist vera ætlun hæstv. ríkisstj. að gera, því að hún hefur þegar framlengt verðstöðvunina til áramóta og þegar lagt fram till. um áframhaldandi verðstöðvun að verulegu leyti næsta ár. Þau atriði, sem hér ber á milli, hvort tvö vísitölustig skuli taka gildi mánuði fyrr eða seinna og hvort áfengi og tóhak og almannatryggingagjöld skuli tekin inn í vísitöluna eða ekki, tel ég alger aukaatriði í þessu máli. Efnahagsmálin munu vafalaust koma síðar á dagskrá, þannig að um þau tel ég ekki ástæðu til þess að fara að ræða, en vildi aðeins láta þessi orð koma hér fram við 1. umr. þessa máls og jafnframt, að þau fela að sjálfsögðu í sér það, að við sjálfstæðismenn erum ekki andvígir þessum málum.