25.10.1971
Efri deild: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

19. mál, mat á sláturafurðum

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til 1. umr., er til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 19. maí s.l. Í lögum nr. 30 frá 1966 er veitt heimild til handa landbrh. að veita þeim sláturhúsum, sem ekki hafa hlotið löggildingu, undanþágu til eins árs í senn. Þessi heimild var fallin úr gildi á s.l. ári, og þess vegna voru þessi brbl. gefin út. Gert er ráð fyrir því í þessum lögum að framlengja heimildina til ársins 1973 með því þó að gefa leyfi fyrir eitt ár í senn, og er það háð samþykki héraðsdýralæknis hverju sinni, hvort hægt sé að gefa þetta leyfi út.

Það munu nú vera um 60 sláturhús á landinu, sem slátrað er í, án þess að þau séu löggild, svo að mikið átak þarf til þess að koma þessum málum í það horf, sem stefnt er að og ætlast er til. Nú eru aðeins um fimm sláturhús á landinu, sem eru fullgild sláturhús, þ.e. í Borgarnesi, Selfossi, Búðardal, Blönduósi og Húsavík. Þetta frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr., er ekki á neinn hátt til þess að leysa þennan vanda, sem þarna er við að fást, heldur til þess, að bjarga málunum, á meðan ekki er hægt að fá slátrað í löggildum sláturhúsum.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.