03.05.1972
Neðri deild: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

261. mál, veðtrygging iðnrekstrarlána

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. n. og hv. þm. Pétri Péturssyni fyrir góðar undirtektir undir þetta frv. Hv. þm. spurði um það, hvort fé yrði tiltækt í sambandi við þá stórbættu réttarstöðu iðnaðarins, sem felst í þessu frv., hvort fé yrði tiltækt í bönkunum. Ég skal nú ekki vera með neinar stórar fullyrðingar um það, hvaða fjármagn bankarnir kunni að vera með hverju sinni eða hvernig þeir verja því, en á hitt víl ég leggja áherzlu, að með þessu frv. er verið að gefa íðnaðinum fullkomið jafnrétti við aðrar atvinnugreinar hvað þetta snertir, og að sjálfsögðu hljóta bankastjórarnir að taka tillit til þess, að þarna er um að ræða orðið löghelgaða aðferð við að veita tryggingu fyrir lánum og af því hlýtur m.a. að leiða það, að endurkaup Seðlabankans á þeim lánum, sem viðskiptabankarnir veita, hljóta að aukast mjög verulega. Og þetta frv. er samið í fullu samráði við Seðlabankann og Seðlabankinn hefur látið hv. n. fá vitneskju um það, að hann sé samþykkur þessari lagabreytingu, þannig að ég geri mér vonir um það, að þetta frv. verði ekki aðeins réttarbót í lögum, sem er mjög stórfelld, heldur muni einnig koma mjög fljótt áþreifanleg áhrif af þessari lagasetningu.