10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

222. mál, læknaskipunarlög

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Þetta litla frv. hefur nú verið furðanlega lengi til meðferðar í n., og ég heyri nú, af hverju það stafar. Ég er hingað kominn aðallega til að leiðrétta það, sem fram kom hjá hv. þm. Bjarna Guðnasyni, þar sem hann gaf í skyn, að það væri rangt með farið, að ég hefði haft samráð við samtök læknanema. Samtök læknanema eru nýbúin að kjósa sér nýja stjórn. Það er þessi nýja stjórn, sem hefur haft samband við Bjarna Guðnason, en ég hafði samband við þá stjórn, sem áður var í þessum samtökum, og frá henni fékk ég bréf um það, að þeir teldu, að þær hugmyndir, sem í þessu felast, gætu þjónað nokkrum tilgangi, borið árangur. Og þetta var samið í samráði við formann læknanemafélagsins. Ég vil aðeins, að þetta komi fram, svo að menn haldi ekki, að það sé rétt hjá hv. þm., að ég hafi farið með ósatt mál í þessu frv. Það er ekki rett. (BGuðn: Það er ekki rétt.) Hvað er ekki rétt? (BGnðn: Það er ekki rétt, að ég hafi sagt, að þú hafir farið með ósatt mál.) Ja, það var ekki annað að skilja á ræðunni. (Forseti: Hafa ekki samtal.) Það var verið að vitna í bréf frá samtökum læknanema og gefið í skyn, að ég væri að fara með rangt mál um, að ég hafi haft samráð við þá, en það samráð hafði ég, og ég hef plögg um það, ég get sýnt þessum hv. þm. það, ef hann kærir sig um. En hitt atriðið, hvort menn muni fást til þess að gera samninga af þessu tagi, það er ekki mál neinnar stjórnar læknanema, heldur einstaklinganna sjálfra, og ég þykist hafa vitneskju um það, að það eru námsmenn í læknanámi, sem hefðu hug á að gera samning af þessu tagi. Það er nú raunar svo, að það getur stytt nám manna að eiga kost á slíkum samningi, vegna þess að það er boðið mjög í unga menn, sem stunda læknanám, að starfa á sjúkrahúsunum á síðari hluta, og það eru ýmsir, sem taka slíkum tilboðum, þeir fá háar tekjur þar, en þetta verður oft til að lengja námstíma þeirra. Ef þeir eiga kost á samningi eins og þessum, þá gætu þeir tekið hann í stað þess að taka störf á sjúkrahúsunum, og það var það, sem ég átti við, þegar ég talaði um, að þetta gæti stytt námstímann.

Nú, en bollaleggingar um þetta atriði skipta í sjálfu sér ekki neinu meginmáli hvað þetta snertir. Þetta frv. er flutt einvörðungu til þess, að ég hafi heimildir Alþ. til þess að beita þeim ráðum, sem mér virðast tiltæk til þess að leysa vanda læknaþjónustunnar í strjálbýli á næsta vetri, svo að það er ekki um neinar framtíðarlausnir að ræða. Ég er að fara fram á það, að Alþ. aðstoði mig við að leysa þau vandamál, sem munu brenna á mér þegar í haust. Þessi vandamál brunnu á mér á síðasta hausti líka, og það var ákaflega erfitt og raunar sársaukafullt viðfangsefni að reyna að vinna að því að útvega fólki í strjálbýlinu læknisþjónustu á síðasta vetri, og ég vil taka það sérstaklega fram hér, að ég tel, að við stöndum í þakkarskuld við þá lækna, sem brugðust mjög vel við þeirri beiðni minni, að fara einn af öðrum til þjónustu út í héruðin. Þeir hafa forðað miklu hörmungarástandi víða um land með þeim undirtektum. En auðvitað sé ég fram á það, að það verða mikil vandamál á þessu sviði aftur í haust, og ég er hér að fara fram á það eitt, að ég fái heimild til þess að reyna að gera þær ráðstafanir, sem ég tel hugsanlegar til þess að geta eitthvað bætt úr þessum vanda.

Mér finnst það ekki vera til mikils mælzt, að mér sé veitt þessi heimild, og ég hef satt að segja ekki trú á því, að þm. almennt hafi jafntakmarkaðan skilning á þessu mjög alvarlega vandamáli úti í strjálbýlinu eins og hv. þm. Bjarni Guðnason og þeir tveir menn, sem með honum hafa flutt brtt. Ég vil vekja athygli á því, að þessir þrír hv. þm. eru allir af þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa, og þeir virðast ekki gera sér neina grein fyrir því, hver vandi það er, sem brennur á fólki í strjálbýlishéruðum, og ég verð að segja það, að ég hreinlega skil það ekki, ef það á að reyna að halda þannig á málum, að torvelda þeim ráðh., sem fer með þessi mál, að reyna að leysa þau vandamál, sem munu brenna á okkur á næsta vetri.