12.02.1972
Neðri deild: 75. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

222. mál, læknaskipunarlög

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki ræða þetta mál mikið. Ég vil þó láta það koma fram þegar hér við 1. umr., að ég fylgi þessu máli og mun í hv. landbn. leggja því lið, að það geti fengið afgreiðslu á þessu þingi. Það var orðin nauðsyn á því að endurskoða jarðræktarlögin, og hefur verið beðið með að flytja hér á Alþ. till. um ýmsar breytingar, sem fram þurfti að koma, vegna þess að Búnaðarþing hafði þetta mál með höndum og undirbjó þær breytingar, sem hér liggja fyrir í frv.-formi.

Ég sé ástæðu til þess að vekja athygli á því, að enda þótt hér sé um nokkrar lagfæringar á lögunum að ræða, eins og jafnan hefur verið, þegar þessi lög hafa verið endurskoðuð með nokkurra ára millibili, þá er fjarri því, að um neinar stórbreytingar sé að ræða. Það má t. d. geta þess í þessu sambandi, að þegar lögin voru síðast endurskoðuð í heild, árið 1965, leiddu þær breytingar til þess, að framlög samkv. jarðræktarlögum hækkuðu um það bil um 30 millj. kr. miðað við það verðlag, sem þá gilti, en eftir þessu frv. er áætlað að hækkanir á framlögum samkv. lögum nemi um 17 millj. kr. Það sjá því allir, að hér er ekki um mjög veigamikil atriði að ræða. Þó eru þarna einstakir þættir, sem eins og ég hef áður sagt eru þýðingarmiklir fyrir landbúnaðinn og ég mun gera mitt til að styðja að því, að fái framgang.

Ég skal svo ekki tefja tíma Alþ. að þessu sinni til þess að ræða þetta frv. í einstökum atriðum og láta máli mínu lokið, en vildi aðeins láta þessa athugasemd koma fram.