15.05.1972
Neðri deild: 80. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Út af aths. forseta skal ég segja honum það, að ég skal reyna hér eftir að vera enn sprettharðari heldur en ég var hér, þegar málið var til 2. umr. Læt ég svo útrætt um það mál.

Hæstv. ráðh. talaði um, að ég hefði gert tilraun til að tefja málið. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Hvers konar hofmóður er þetta í hæstv. ráðh:? Hafa ekki þm. málfrelsi? Við búum a. m. k. enn þá við lýðræði og þingræði, og ég ætla ekki að spyrja Magnús Kjartansson að því, hvort ég ætli að biðja um orðið hér við umr. um frv., þó að hann sé flm. að þeim, og ég mun gera aths. við þau alveg eins og mig lystir. Ég ætla ekki að spyrja Magnús Kjartansson að því. Það verður ábyggilega bið á því. Og ég kalla það ekki að tefja mál, þó að ég geri aths. við frv., jafnvel þó að þessi hæstv. ráðh. hafi farið um þau föðurlegum höndum.

Ég held, að ég hafi ekki sagt eitt einasta orð í þá átt, að ég væri á móti því, sem hér væri verið að gera. Ég benti á tvö atriði, atriði um stjórn þessarar stofnunar og svo hitt atriðið, sem ég meina alveg fullkomlega, að það nær ekki nokkurri átt, hvernig að er unnið. Og svo bætti hann gráu ofan á svart, hæstv. iðnrh., þegar hann sagði, að fyrrv. ríkisstj. hefði skilið eftir tóma sjóði. Var það ekki veizla, sem hæstv. núv. ríkisstj. hélt, þegar hún tók við, til þess að eyða úr sjóðum, sem fyrrv. ríkisstj. skildi eftir, fram eftir öllu hausti? Hins vegar skal ég alveg játa það, að þessum sjóði hefur ekki verið séð fyrir tekjustofnum. Það hefur verið breytt oft lögum um útflutningssjóð, tekjur hans auknar, en þær hafa ekki alltaf staðizt. Þegar verðhrunið var, þá auðvitað hrundu tekjur þessa sjóðs, en útgjöldin ekki. Hins vegar náði sjóðurinn sér fyrir tveimur árum nokkuð á strik, hann var þá kominn niður í sex mánuði, en hann er með því versta, sem hann hefur nokkru sinni verið, þegar uppbyggingarmennirnir taka við. Er þetta leiðin til þess að efla þennan sjóð að vísa á meiri peninga úr honum, en skuldbindingarnar fara alltaf hækkandi við hvert frv., sem afgreitt er í þessum málum? Ég held, að þetta tryggi ekki, að þessi sjóður standi við skuldbindingar sínar. Og það er þetta, sem ég er á móti. Ég vil alls ekki, að niðursuðuiðnaður eða annar iðnaður, önnur atvinnugrein, þurfi að sækja peninga í sjóð, sem engir peningar eru fyrir í, í sjóð, sem vantar 80–100 millj. kr. Þetta er alveg sama og gefa út falska tékka, og það hefur ekki til þessa þótt vera til sóma. Það getur vel verið, að það sé í þann veginn að verða það með nýjum herrum. Þetta er það, sem hæstv. ráðh. bendir á, og það á að teljast fjandskapur við málið að leyfa sér að gera aths. við það, sem hans herradómur, hæstv. iðnrh., hefur lagt til og ákveðið, að gert verði.

Hæstv. iðnrh. sagði, að till. mín um breytingu úr fimm árum í þrjú ár væri órökstudd nema það fylgdi með, að framlög ríkissjóðs hætti að þremur árum liðnum í staðinn fyrir fimm ár. Ég sagði hér áðan, að ég teldi, að framleiðendurnir legðu miklu, miklu meira til uppbyggingar þessarar atvinnugreinar, þó að ríkið kæmi til aðstoðar ungum iðnaði, sem er að vinna sér brautargengi á erlendum mörkuðum. Og ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að segja, að það sé órökstutt. Mín skoðun er sú, að framleiðendur eigi að eiga meiri hl. meira að segja þessi þrjú ár, en það hefur verið samþ. hér og ég freista þess með þessari till, að fara úr fimm árum niður í þrjú ár. Þetta breytir engu um það, að ég vil ekki lækka tekjur þessarar stofnunar, annars hefði ég flutt till. um það, svoleiðis að hæstv. iðnrh. þarf ekkert að spyrja um þær till. Þetta er alveg ljóst og auðskilið mál hverjum sem vita vill, og ég efast ekkert um það, að hæstv. iðnrh. hefur skilíð þetta óskaplega vel. Hann hefur bara talið betra að reyna að gera eitthvert veður út af þessu. Það er þannig með suma menn, sem komast til áhrifa, að þeir eiga ákaflega bágt með að sætta sig við það, að aths. séu gerðar við það, sem þeir leggja til. En ég læt mér það í léttu rúmi liggja.