21.04.1972
Neðri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

259. mál, jöfnun á námskostnaði

Sigurður Magnússon:

Herra forseti: Ég vildi gera aðeins smáaths. við þetta frv., sem hér liggur frammi til umr., en áður en ég vík að því, sem ég vil sérstaklega gera aths. við, vil ég lýsa yfir fyllsta stuðningi mínum við megintilgang frv. — þann að jafna efnahagslegan mismun milli þeirra, sem búa í þéttbýli, og þeirra, sem búa í strjálbýli, með tilliti til menntunar. En mér þykir örlítið vanta á það í þessu frv., að öllum námshópum sé tryggð með þessum lögum sama staða — staða, sem þeir eiga kröfu til. Þar vil ég minna á, að í b-lið 2. gr. frv., þar sem fjallað er um þá, er ekki skulu njóta styrks eftir lögum þessum, er sagt, að þeir, sem taki samningsbundið eða fast kaup á námstímanum o. s. frv., njóti ekki þessara styrkja. Reyndar er þó undanþáguheimild í c-lið 5. gr., en ég álít, að það breyti ekki málinu. Meginregla frv. er sú, að þeir, sem fá samningsbundið kaup á námstímanum, heyra ekki undir l. Með þessu ákvæði laganna er verið að mínum dómi að útiloka ýmsa .hópa námsmanna, og vil ég þar sérstaklega tilnefna þann hóp námsmanna, sem ég þekki hvað bezt, og það eru iðnnemarnir. Þeir, sem standa að samningi þessa frv., hafa með þessu útilokað iðnnemana — kannske ekki vísvitandi, heldur vegna þess að þeir eru haldnir þeirri fjarstæðu, sem virðist furðu útbreidd, að iðnnemar yfirleitt séu hópur, sem taki veruleg laun. Ég vil þó upplýsa það hér á hv. Alþ. í sambandi við þetta, svo að við tökum eina iðngrein sem dæmi, að meðalkaup iðnnema er nú í rafvirkjun á fjórum námsárum 117 þús. kr. eða um það bil, og ég vil halda því fram, að þessi árslaun séu ekki mikið hærri en árslaun ýmissa annarra námshópa, sem vinna á frjálsum vinnumarkaði 3–4 sumarmánuði, eins og gerist í mörgum tilvikum. Í þessu efni eru iðnnemarnir eins og í svo mörgum atriðum öðrum svolítið á skjön við hið almenna.

Ég geri ráð fyrir, að þegar þessar reglur eru settar eða þessi lög, þá sé haft í huga, að þeir hinir sömu, sem ekki eru við fast skólanám nema 3–4 mánuði á ári og þurfa þess vegna ekki að falla undir lögin, séu þá hinn hluta ársins í vinnu og á fullu kaupi. En þetta gildir ekki um iðnnemana. Þeir eru hinn hluta ársins við nám líka á tiltölulega lágu kaupi, og heildarárslaun þeirra eru í mörgum tilfellum ekki hærri en árslaun ýmissa annarra námshópa, sem stunda vinnu á frjálsum vinnumarkaði yfir sumarmánuðina. Reyndar held ég, að þetta eigi ekki bara við iðnnema. Ég held, að hér séu ýmsir aðrir námshópar, sem þurfa að fá leiðréttingu sinna mála svo sem nemendur í hjúkrunarnámi, en fyrsta árskaup þeirra er eitthvað rúmar 8 þús. kr. á mánuði og árslaunin þá eftir því, og þannig er vafalaust með fleiri hópa. Það samrýmist væntanlega ekki hugmyndum hv. Alþ. á sama tíma og við viljum stuðla að fjölgun hjúkrunarkvenna að setja þennan hemil á menntunarmöguleika þeirra með þessu frv., sem hér er gert ráð fyrir.

Í aths. um 2. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Samkvæmt 3. lið þessarar greinar er lagt til, að með reglugerð verði sett nánari ákvæði um lágmark námstíma sem skilyrði fyrir námsstyrk, svo og um hlutfallslega upphæð styrkja eftir námstímalengd.“

Um þetta vil ég segja, að það er eðlilegt að setja í reglugerð ákvæði um hlutfallslega upphæð styrkja eftir námstímalengd — það er mjög eðlilegt, að slíkt sé gert, og nauðsynlegt, en ég held, að miklu hæpnara sé ákvæðið um lágmarks námstíma, því að oft og tíðum getur þetta verið töluverð fjárhagsleg byrði fyrir nemendur, þó að ekki sé um langan námstíma að ræða. Það eru ferðir að heiman og ýmiss konar stofnkostnaður í því sambandi og önnur fjárhagsleg útlát, þó að ekki sé um mjög langan námstíma að ræða fjarri heimili. En hlutfallslega upphæð styrkja er nauðsynlegt að hafa og er það í samræmi við það, sem ég hygg, að skattyfirvöld geri, þegar ákveðinn er skólafrádráttur nemenda, en þá er farið eftir hlutfallslegri lengd námstíma.

Ég vil svo einnig, að það komi hér fram, að meðl. um iðnfræðslu frá 1966 er gert ráð fyrir því, að á næstu árum verði byggðir upp verknámsskólar iðnaðarins, og þegar hefur verið hafizt handa um að nokkru leyti að byggja þá, og hér í Reykjavík er til að mynda starfandi slíkur verknámsskóli, 8–9 mánaða skóli. Ýmsir, sem þann skóla sækja, eru t. d. þegar komnir á námssamning og taka samningsbundið kaup. Samkv. þessum lögum eru þeir útilokaðir frá styrkjum, þó að námstími þeirra sé langur eins og í þessu tilfelli í verknámsskólanum hér í Reykjavík. Á næstu árum mun þessi þróun síðan væntanlega halda áfram, og því held ég, að ákvæði 2. gr. frv. séu röng.

Að öðru leyti vil ég enn fremur undirstrika það, að mér finnst það ekki viðeigandi að á sama tíma er aldrei í reglum, sem fyrr hafa gilt um þetta og væntanlega verður tekið mið af einnig í þetta sinn, tekið tillit til tekna vandamanna umsækjanda né slíkrar aðstoðar, sem hann í ýmsum tilfellum fær. Þrátt fyrir það á að setja ákveðin mörk um, hvort hann sé styrkhæfur með tilliti til námstíma. Þetta finnst mér ekki í samræmi við anda laganna.

Ég ætla ekki að hafa þessa aths. neitt lengri, og ég flyt enga brtt. við frv. þetta, en ég óska þess eindregið og treysti því, að sú n., sem um þetta fjallar, fjalli um þetta á réttlátan hátt og tryggi það, að staða þeirra, sem samkv. þessum lögum verða út undan og afskiptir í þessum styrkveitingum, verði tryggð í þessu styrkjakerfi. Ég hef oft sagt það áður að verkmenning á Íslandi og verkmenntun öll er olnbogabarn í þjóðfélaginu, og ef við ætlum að bæta þar um betur, þá þarf einnig að breyta þessu frv.