10.04.1972
Neðri deild: 58. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

238. mál, höfundalög

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Um frv. það til höfundalaga, sem hér er lagt fyrir, mætti vissulega hafa langt mál í framsögu, en ég mun láta mér nægja að drepa á nokkur höfuðatriði málsins m. a. sökum þess, hvernig það ber að. Þetta er enginn nýgræðingur hér í þingsölunum, heldur hefur áður komið fyrir augu hinna eldri alþm.

Aðdragandi að flutningi þessa frv. nú hefst í rauninni þegar 12. maí 1959, þegar hv. Nd. samþykkti rökst. dagskrá, þar sem látin var í ljós von um, að þáv. ríkisstj. léti fram fara endurskoðun á löggjöfinni um höfundarétt. Þetta varð til þess, að þáv. menntmrh., dr. Gylfi Þ. Gíslason, fól dr. Þórði Eyjólfssyni hæstaréttardómara að semja frv. til höfundalaga. Það gerði dr. Þórður og gekk frá frv. ásamt aths. Það frv. var lagt fyrir Alþ. árið 1962, en hlaut ekki afgreiðslu. Eftir að þetta frv. var samið, vildi svo til, að mjög ör þróun varð í höfundarétti á alþjóðavettvangi, bæði hjá einstökum ríkjum og í hinum alþjóðlega höfundarétti, sem fólginn er í alþjóðasamningum. Ráðstefna kom saman í Stokkhólmi 1967, þar sem samþykktar voru víðtækar breytingar á Bernarsáttmálanum um höfundarétt, sem að stofni til er frá 1886, og er sú útgáfa hans kennd við Stokkhólm. Enn hefur þessari nýlegu útgáfu verið breytt á ráðstefnu í París s. l. sumar, og þegar í þessu frv. er vísað til Bernarsáttmálans, er átt við þessa nýjustu gerð, Parísartextann frá 24. júlí 1971.

Af hálfu íslenzkra stjórnvalda var málið tekið upp að nýju árið 1970. Þá fól fyrrv. menntmrh. þeim Knúti Hallssyni deildarstjóra, Sigurði Reyni Péturssyni hæstaréttarlögmanni og dr. Þórði Eyjólfssyni að taka hið óafgreidda frv. frá 1962 til endurskoðunar og gera á því breytingar, sem hæfðu, í samræmi við þær breytingar, sem gerðar höfðu verið á Bernarsáttmálanum og í samræmi við breyttar aðstæður. Frv. þeirra allmjög breytt frá gerðinni 1962 var svo lagt fyrir Alþ. 1970, en hlaut þar ekki afgreiðslu. Eftir að ég tók við starfi menntmrh., fól ég sömu mönnum að athuga frv. enn á ný, og enn hefur því verið breytt, ekki þó mjög, en í nokkrum greinum, og er nú lagt fram í því formi, sem þessi nefnd gekk frá því. Öllum, sem málum þessum eru kunnugir, ber saman um, að mjög sé aðkallandi, að íslenzkur höfundaréttur, sem byggist að meginstofni á lögum nr. 13 frá 20. okt. 1905 um rithöfundarétt og prentrétt, sé lagaður að þeim breytingum, sem orðið hafa á meira en hálfri öld, bæði á réttarvenjum og á aðstæðum — breytingum — á því, hver listaverk eru á þeim markaði, sem höfundaréttur nær til, og hvaða tækni er beitt til að dreifa þeim og útbreiða þau. Breyting hefur að vísu verið gerð á l. frá 1905. Sú breyting var gerð með lögum nr. 49 frá 1943, en hún var aðeins gerð til bráðabirgða til að bæta þá úr helztu ágöllum og koma því til leiðar, að Ísland gæti fengið inngöngu í Bernarsambandið, samband þeirra ríkja, sem gagnkvæmt hafa skuldbundið sig til að virða hvert gagnvart öðru ákvæði Bernarsáttmálans, eins og hann er á hverjum tíma.

Það leiðir af líkum, að lagasetning um eignarrétt á hugverki þarf að vera á allt annan hátt en sú réttarvernd, sem veitt er efnislegum eignum, áþreifanlegum munum. Og þar að auki er tiltölulega skammt, síðan lagasetning kom til um verndun höfundaréttar. Loks hafa listir þróazt mjög ört á síðustu öldum og áratugum, nýjar listgreinar komið til, ný listtækni, ný flutningstækni og ný fjölföldunartækni. Allt hefur þetta gífurlega mikil áhrif á stöðu eigenda höfundaréttar og þeirra aðila, sem notfæra sér verk, sem höfundaréttarverndar njóta, á opinberum vettvangi og á kaupsýslumarkaði. Hin mikla aukning á útbreiðslu og útbreiðslumöguleikum hugverka, sem höfundaréttur nær til, bókmenntaverka, tónverka, leikhúsverka og myndlistarverka, gerir það að verkum, að enn nauðsynlegra er en áður að vernda ekki aðeins fjárhagsleg réttindi höfundaréttareigenda, heldur einnig siðferðilegan rétt þeirra, rétt þeirra til að láta það til sín taka, hvernig með verk þeirra er farið í meðförum annarra aðila. Til þessa hefur verulegt tillit verið tekið í þeim breytingum, sem átt hafa sér stað á höfundarétti á síðustu árum. En ekki hefur síður þurft að gæta þess, að eintakagerð er á margvíslegan hátt langtum auðveldari og í stærri stíl nú en áður, einkum vegna margvíslegrar rafeinda.tækni, sem þar er beitt, bæði við eintakagerðina sjálfa og flutning hugverka.

Eins og ég sagði áður, var Bernarsáttmálinn frá 1886 fyrirmynd að löggjöf í fjölda landa um verndun höfundaréttar, og síðari gerðir hans hafa einnig hvarvetna verið hafðar til fyrirmyndar í flestum ríkjum, þó að einstöku ríki og þá sér í lagi tvö stórveldi, Bandaríkin og Ráðstjórnarríkin, hafi af einhverjum ástæðum séð sér hag í því að standa utan Bernarsambandsins. Það hefur að ýmsu leyti auðveldað starfið að því að semja þetta frv., sem hér liggur fyrir um höfundarétt, að ekki er nema rúmur áratugur frá því, að önnur Norðurlandaríki, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, settu sér höfundalög á árunum upp úr 1960. Norðurlönd hafa bundizt fastmælum að hafa sín á milli samstarf um höfundarétt, og við samningu þess frv., sem hér liggur fyrir, hefur þess verið gætt að samræma hina norrænu löggjöf af Íslands hálfu, svo sem við verður komið og ástæða þykir til. Sömuleiðis var þess sérstaklega gætt að haga ákvæðum þessa frv. þannig, að þau fullnægðu kröfum Bernarsáttmálans og Genfarsáttmálans, hinna alþjóðlegu samninga um gagnkvæma vernd höfundaréttar.

Eins og ég sagði í upphafi, mun ég ekki rekja hér að neinu ráði einstakar greinar eða ákvæði þessa frv., sem er geysi-yfirgripsmikið, en vil aðeins drepa á þýðingarmikil almenn sjónarmið, sem gætt hefur verið við samningu þess. Það er í fyrsta lagi, að lögð hefur verið áherzla á að tryggja rétt höfunda betur en áður, og eins og ég drap á áðan, er þess mjög mikil þörf hér eins og annars staðar vegna breyttrar tækni og vegna breyttra markaðsskilyrða fyrir margs konar hugverk. Þessa er sérstaklega gætt í mun ítarlegri ákvæðum en áður giltu um eintakagerð og birtingu verka, sem njóta verndar höfundaréttar. En jafnframt þessu eru gerðar í 11. gr. tilteknar undantekningar frá algerum einkarétti höfunda til að birta verk sín, en jafnframt leitazt við að hafa þessi ákvæði svo þröng, að þar sé aðeins um eftirgerðir eintaka til einkanota að ræða. Sömuleiðis eru ákvæði um rétt safna til ljósritunar á verkum til eigin afnota innan þessara stofnana, og gert er ráð fyrir, að um slíka eftirgerð sé sett reglugerð til að girða sem bezt má verða fyrir það, að þessi undanþága sé misnotuð.

Ég vil geta þess hér, að dráttur sá, sem orðið hefur á, að þetta mál hlyti afgreiðslu, mun að verulegu leyti eiga rót sína að rekja til þess, að að sjálfsögðu gætir nokkuð mismunandi sjónarmiða þeirra, sem eiga höfundaréttinn, og þeirra, sem notfæra sér verk, sem njóta höfundaréttarverndar. Ég hef þá trú, að þessi ágreiningsatriði hafi verið leyst í því frv., sem hér liggur fyrir, á þann hátt, að báðir aðilar megi við una. Það leikur ekki á tveim tungum, að um gerð frv. hafa fjallað hinir hæfustu menn og fróðustu, sem við eigum völ á á þessu sviði. Starf þeirra er nú búið að standa, með nokkrum uppstyttum að vísu, í áratug. Stofnanir, samtök og einstaklingar, sem þarna eiga hagsmuna að gæta, hafa því haft mjög rúman tíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, og í allra síðustu lotu er mér kunnugt um, að haft var samráð við þessa aðila enn einu sinni og var þá aðeins um að ræða nokkurn ágreining um mjög fá og tiltölulega einangruð atriði frv., og m. a. s. það, sem skiptastar munu hafa verið skoðanir um, varðar ekki nema á annan bóginn fyrst og fremst íslenzka aðila. Þar á ég við afnotarétt Ríkisútvarpsins af hljóðupptökum og rétt gagnvart því af hálfu flytjenda og útgefenda, ekki höfunda. Þar er eins og menn víta fyrst og fremst um að ræða erlenda aðila. Ég veit ekki betur en þeir aðilar, sem mest hafa látið sig þetta mál varða, séu ásáttir um þau ákvæði, sem hér hafa verið tekin upp í þetta frv. Ég vil svo leggja til, herra forseti, að eftir þessa umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.