10.04.1972
Neðri deild: 58. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (1451)

238. mál, höfundalög

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Mér virðist þessi umr. vera að snúast nokkuð á kynlegan veg, ef 1. umr. um höfundalagafrv. ætlar að verða að almennum eldhúsdagsumræðum um mál lista og listamanna. En vegna þeirra ábendinga, sem hv. 3. þm. Sunnl. bar hér fram, vil ég þó aðeins segja það, að ef hann skoðar hug sinn aftur í tímann, og hann mun vera langminnugri en ég, held ég, að það hljóti að rifjast upp fyrir hv. þm., að deilur um úthlutun listamannafjár eru ekki ný bóla. Þær eru eldri en við báðir, þó að þetta fyrirkomulag, sem nú er, hafi ekki loðað við nema í nokkra áratugi.

Það er sjálfsagt mál að skoða allar ábendingar og allar till. um breytt fyrirkomulag til bóta til að draga úr þeim ágreiningi, sem hlýtur þó eðli málsins samkv. ætíð að loða við þessi mál. Það er sjálfsagt að taka allt eðlilegt tillit til þessa og fullnægja hinum mismunandi sjónarmiðum, sem þarna hljóta alltaf að verða uppi. Það er ekki hægt að búast við því, að um jafntormetin verðmæti og listir verði allir á einu máli. Þess má hins vegar vænta bæði af þeim, sem um slík mál fjalla af hálfu opinberra aðila, og af hálfu listamanna sjálfra, að þeir gæti hófs í framsetningu sjónarmiða sinna. En það verður ekki tryggt með neinum úthlutunarreglum né neinni lagasetningu né neinni skipun úthlutunarnefnda. Það er aðeins þetta, sem ég vildi taka fram að gefnu tilefni.