05.05.1972
Neðri deild: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal aðeins svara tveim spurningum, sem til mín var beint hér áðan. Í fyrsta lagi um reglur um Austurlandsáætlun og Norðurlandsáætlun. Ég vil segja það í sambandi við Austurlandsáætlun, að þar mun fyrst og fremst vera um að ræða framreikning til vegamála á þeim vegum, sem voru á vegáætluninni í fyrra, og einhverja lítils háttar breytingu þar á.

Um Norðurlandsáætlun verð ég að segja það, að þá áætlun hef ég ekki séð og veit ekki, hvernig hún er upp byggð. Hins vegar vona ég það, að allmikið sjáist eftir í vegum á Norðurlandi að fjórum árum liðnum, ef búið verður að veita þangað 600 millj., eins og vegáætlunin gerir ráð fyrir, umfram það sem áður var, svo að ég held nú, að hvernig sem áætlunin er upp byggð þá muni þetta marka þáttaskil í vegamálum þar, og er ekki nema gott um það að segja. Hitt held ég, að þessi hv. þm., sem er áhyggjufullur mjög, verði einnig að gera sér ljóst eins og við hinir, að ef við ætlum að sinna þessum hugðarefnum okkar og jafnframt hafa vald á efnahagsmálum, þá getum við ekki látið allt eftir okkur, sem okkur langar til, og ég efast ekkert um, að hann verður í hópi þeirra manna, sem vilja leggja það á sig að bíða í eitt ár með einhvern vegarspotta, þegar hann á það víst, að hann getur fengið hann á næsta ári.

Út af því, sem hann sagði um tæmda möguleika, þá er auðvitað miðað við önnur atriði eins og þann þátt, að nú er unnið að því að ná samkomulagi við lífeyrissjóði um fjármögnun á húsnæðismálakerfinu til viðbótar þeim tekjum sem Byggingarsjóður hefur, sem eru nú um 900 millj., og það eru þegar farin að berast jákvæð svör frá lífeyrissjóðaaðilum um þetta, og því verkefni verður haldið áfram. (LárJ: Eru það 350–500 millj.?) Ja, það hefur nú verið rætt um ca. 250 millj. í því sambandi. Ég held, að það sé óhugsandi, að menn treysti sér til þess að bæta 500 millj. kr. fjármögnun í húsnæðismálunum ofan á annað, sem talið er nauðsyn að gera. Og ég veit, að þessi hv. þm. með sínar áhyggjur af efnahagskerfinu er mér sammála um, að það er of mikið gáleysi.

Ég skal svo ekki fara út í frekari umr. um þetta.