13.05.1972
Neðri deild: 77. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Frsm. meiri hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að ræða almennt um framkvæmdaáætlunina við þessa umr. Hæstv. fjmrh. fylgdi henni úr hlaði með ítarlegri ræðu við 1. umr. og þá urðu um hana allmiklar umr. Einnig hefur verið rætt talsvert um hana í þeim eldhúsdagsumr., sem nú standa yfir, og sé ég því ekki ástæðu til þess, eins og ég sagði áðan, að ræða almennt um einstök atriði hennar við þessa umr.

N. kynnti sér frv. allítarlega og kvaddi á fund sinn nokkra menn, sem eru sérfróðir um þessi efni, eins og forstöðumann áætlunardeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins og bankastjóra Seðlabankans og ríkisviðskiptabankanna. Þær skoðanir komu fram, að ekki mætti öllu lengra ganga í framkvæmdum og lántökum en gert væri í áætluninni. Niðurstaðan varð sem sagt sú, að engar till. um lækkun á framkvæmdum eða lækkun á lántökuheimildum komu fram, en hins vegar varð n. sammála um eftir nána athugun að flytja sameiginlega till. um að hækka lántökuheimildirnar um 288 millj. kr. Og þessi lántökuheimild skiptist þannig: Til vegáætlunar 95 millj., til Lánasjóðs sveitarfélaga vegna hitaveituframkvæmda 60 millj., hækkun á láni vegna Laxárvirkjunar 69 millj., lántaka vegna Mjólkárvirkjunar 11 millj., lántaka vegna flugvélakaupa Landhelgisgæzlunnar 30 millj., og loks 23 millj. vegna skipasmíðastöðvarinnar á Akranesi, sem hefur orðið fyrir sérstöku óhappi.

Það er till. meiri hl. fjhn., að frv. verði samþ. með þessari breytingu, sem n. stendur sameiginlega að.