13.05.1972
Neðri deild: 77. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera framkvæmdaáætlunina að umtalsefni, heldur aðeins minnast á það, að það hefur gleymzt að taka inn 7 millj. kr. til þess að gera raflínu yfir Mýrdalssand. Ákveðið er, að það skuli tengt rafmagn á 25 eða 26 sveitabæi fyrir austan sand, en það vantar orku. Það hefur alltaf verið gert ráð fyrir því, að þessi lína yrði lögð yfir sandinn, og ég gerði mér vonir um, að hún mundi tekin inn í framkvæmdaáætlunina. Það hefur ekki orðið. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann sé ekki ákveðinn í því að útvega þetta fé þrátt fyrir það, þannig að það yrði þá tekið inn í framkvæmdaáætlun ársins 1973. Rafmagnsveitur ríkisins þurfa að vita þetta nú þegar til þess að geta pantað efni, því að þetta verk þarf að vinna í haust.