10.11.1971
Efri deild: 11. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

59. mál, sala Fjósa í Laxárdalshreppi

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Við flytjum hérna frv., hv. 2. þm. Vesturl. ásamt mér, og frv. fjallar um það eftir beiðni hreppsnefndar Laxárdalshrepps í Dalasýslu að fá keypta jörðina Fjós. Þessi jörð hefur verið í ábúð þar til á s. l. vori, að bóndinn, sem þar hefur búið alllengi, Jón Sigurjónsson, hætti búskap. Á jörðinni er 15 hektara tún metið á 138 þús. kr., og annað land jarðarinnar er metið á 40 þús. kr. og hlunnindi í Laxá á 700 þús. kr. Íbúðarhús var byggt 1941, og er það metið á 253 þús. kr., og útihús, þ. e. fjárhús og hlaða, voru byggð fyrir nokkrum árum og eru metin á 520 þús. kr. Mat jarðarinnar er því alls samkv. því mati, sem tekur gildi á næsta ári, 1 millj. 651 þús. kr.

Kauptúnið Búðardalur er byggt í landi Fjósa, en þar voru 202 íbúar með lögheimili 1. des. 1970. Auk þess er þar í vinnu allmargt manna, sem dvelur þar mestan hluta ársins og nokkrir lengri eða skemmri tíma. Í Laxárdalshreppi voru íbúar 1. des. 1970 353. En þeir, sem Búðardal byggja, lifa að mestu leyti af landbúnaði, ýmist beint eða óbeint. Þar er kaupfélag Hvammsfjarðar, mjólkurbú, sláturhús, bifreiða- og vélaverkstæði, trésmíðaverkstæði og nokkur minni iðnfyrirtæki. Þá sitja í Búðardal flestallir opinberir embættismenn í Dalasýslu, svo sem sýslumaður, héraðslæknir, hjúkrunarkona, ljósmóðir, héraðsdýralæknir, héraðsráðunautur, prestur, skólastjóri, kennarar, bankastjóri, rafveitustjóri, kaupfélagsstjóri, vegavinnuverkstjóri, margir bifreiðarstjórar, iðnaðarmenn og verkamenn. Flest af þessu fólki á nokkrar kindur, og margir eiga hesta sér til gagns og gamans, en afréttur Búðardals er á Ljárskógafjalli.

Frá Búðardal er engin sjósókn, enda Hvammsfjörður oft ísi lagður á veturna. Það er því mikil nauðsyn og hagsmunamál Laxárdalshrepps að eignast jörðina Fjós og geta á þann hátt tryggt betur en annars væri auðið ört vaxandi kauptúni í Búðardal meira land og svigrúm í framtíðinni. Vera má, að þarna séu líka verðmæt leirlög í jörðu, en þau er nú verið að rannsaka og athuga, á hvern hátt þau geta bezt að gagni komið. Búðardalur er ekki sérhreppsfélag. Því er það, að hreppsnefnd Laxárdalshrepps fer fram á það að fá jörðina Fjós keypta með það í huga að geta skipulagt og tryggt kauptúninu jörðina, en allar líkur benda til þess, að Búðardalskauptún muni vaxa ört, bæði hvað verkefni snertir og fólksfjölda, því að skammt er síðan þar voru innan við 100 íbúar, og þróunin í landinu hefur verið sú hin síðari ár, að fólkinu fjölgar mest, þar sem nokkurt þéttbýli er fyrir, en hinar dreifðu byggðir og sveitabæirnir hafa farið varhluta í þessum efnum.

Ég legg til, að þegar þessari umr. lýkur, verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.