29.11.1971
Efri deild: 19. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

99. mál, happdrættislán vegna vega- og brúargerða á Skeiðarársandi

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 117 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um happdrættislán ríkissjóðs vegna vega- og brúagerða á Skeiðarársandi, er opni hringveg um landið. Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er sú, að skömmu eftir að ég tók við starfi fjmrh., kynnti ég mér, hvernig horfur væru með að koma af stað happdrættisláni vegna framkvæmda á Skeiðarársandi samkv. lögum þeim, sem samþ. voru hér á siðasta Alþ. Það kom í ljós að áliti Seðlabankans, að lög nr. 12 frá 23. marz 1971 um happdrættislán ríkissjóðs vegna vega- og brúagerða á Skeiðarársandi mundu ekki reynast eins farsæl og gert hafði verið ráð fyrir. Það var mat stjórnar Seðlabankans, að skilyrðin fyrir happdrættisláninu væru ekki svo æskileg, að líkur væru á því, að bréfin mundu seljast verulega. Af þeirri ástæðu var farið að íhuga það, hvort ekki væri rétt að endurskoða málið og semja nýtt frv., þar sem þau happdrættisbréf, sem seld yrðu, yrðu gerð aðgengilegri. Í sambandi við þetta mál kynnti ég mér álit þm. Austf. á þessu máli, enda voru þeir einu hv. þm., sem leitað höfðu til mín og ýtt á málið við mig, svo að þess vegna lét ég þá hafa þann forgang í sambandi við þetta mál, og er ekki annan að saka en mig um þá ákvörðun að haga málinu svo til.

Niðurstaðan varð sú að athuguðu máli við stjórn Seðlabankans og þm. Austf., að rétt þótti að flytja þetta frv. og breyta kjörunum frá því, sem áður var, á þessum happdrættisskuldabréfum, sem selja átti. Og það, sem gert hefur verið í því sambandi, er, að nú á að binda endurgreiðslur höfuðstóls við vísitölu. Jafnframt er lagt til að hækka fjárhæðina úr 200 millj. kr. í 250 millj. kr. Enn fremur er lagt til, að fjmrn. ákveði, hve mikill hluti lánsins skuli boðinn út á hverjum flokki, og þykir það hagkvæmara í sambandi við sölumöguleika en áður var. Gert er ráð fyrir í þessu frv., eins og í lögunum, að 7% af heildarfjárhæðinni gangi til vinnings í happdrættinu, og er því haldið. En nú er ákveðið, að fjmrn. ákveði tölu vinninga, upphæð þeirra hvers um sig og útdráttardag, sem tilgreindur verður á happdrættisskuldabréfunum.

Ég treysti því, að þessari breytingu verði vel tekið hér á hv. Alþ., enda á hún að tryggja það, að málið komi að þeim notum, sem stefnt var að með frv., þegar það var flutt hér í fyrra.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.