20.03.1972
Neðri deild: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

96. mál, skipulagsskrá fyrir minningarsjóð hjónanna frá Suður-Vík og dætra þeirra

Frsm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Frv., sem nú er til umr., var lagt fram snemma á þessu þingi, og var flm. þess þáv. 1. þm. Sunnl., Einar sýslumaður Oddsson. Nú hefur heilbr.- og félmn. d. lokið athugun þessa máls og er sammála um að mæla með samþykkt þess.

Þetta frv., sem fjallar um breytingu á skipulagsskrá minningarsjóðs hjónanna Halldórs Jónssonar og Matthildar Ólafsdóttur frá Suður-Vík, er flutt samkv. beiðni stjórnar þessa sjóðs. Haft hefur verið samráð við erfingja hjónanna, og eru allir sammála um, að nauðsynlegt sé að gera þær breytingar, sem frv. leggur til, að gerðar verði til þess, að sjóðurinn geti náð tilgangi sínum. Það er ekki gert ráð fyrir, að breytingar verði á aðaltilgangi sjóðsins, heldur einungis á því, hvernig tilganginum eigi að ná, hvernig eignirnar eigi að ávaxtast, og enn fremur er gert ráð fyrir, að það ákvæði breytist, sem fjallar um ósk þessara látnu hjóna þess efnis, að veitt verði ókeypis vist á því elliheimili, sem sjóðurinn á að standa straum af, en það er fráleitt, að sjóðurinn hafi bolmagn til þess eins og hann er nú orðinn. Sjóður þessi var stofnaður 1927 og nemur nú 205 þús. kr. rúmum, svo að það sér hver maður, að hann nægir ekki til þess bæði að reisa elliheimili og reka það ókeypis fyrir vistmenn.

Það hefur þótt nokkuð orka tvímælis, hvort unnt væri að breyta skipulagsskrám sem þessari, og menn verða hikandi við að gera það með ráðstöfun jarðneskra yfirvalda, en til að styðja niðurstöðu okkar víl ég leyfa mér að lesa örlitla mgr. úr umsögn lagadeildar Háskóla Íslands um þetta mál, sem undirrituð er af prófessor Gauki Jörundssyni, sem mun hafa manna bezta þekkingu á málum slíkum sem þessum. En hann segir: „Telja verður tvímælalaust stjórnskipulega heimilt að gera þessar breytingar á skipulagsskránni með lögum, þar sem um er að ræða breytingar, sem réttlætast af breyttum aðstæðum frá því, sem var við sjóðstofnun, og hafa auk þess ekki í för með sér veruleg frávik frá megintilgangi sjóðsins.“ Þetta vildi ég aðeins láta koma. fram.

En ég vil skýra frá því, að við umr. um þetta mál í n. komu fram ábendingar um það, að nauðsynlegt sé að gera reka að því að gera allsherjarlagabreytingu, sem heimili að breyta vissum ákvæðum í skipulagsskrám gamalla sjóða, sem löngu eru þannig orðnir vegna breyttra aðstæðna, að ómögulegt er, að þeir nái tilgangi sínum nú. Þannig kann stórfé að liggja ónotað, sem fólk hefur ánafnað sveitarfélagi sinu eða landi í ýmsum tilgangi, og getur nauðsyn því borið til þess að gera sérstakar lagabreytingar til að breyta upphaflegum skipulagsskrám. Kemur mjög til álita að gera sérstök lög, sem heimili slíkar breytingar. Á það vildi ég leyfa mér fyrir hönd okkar nm. að benda, um leið og þetta frv. er til umræðu, og við erum öll sammála um að leggja til. að þær breytingar verði samþykktar, sem í frv. eru til greindar.