25.10.1971
Neðri deild: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (2153)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það er ofur skiljanlegt, að það taki örlítinn tíma fyrir menn að gera sér grein fyrir frv. eins og því, sem hér er á dagskrá, og því, hver raunverulega er mergurinn málsins, þar sem hér er um að ræða algert nýmæli í rekstri atvinnu- og þjónustufyrirtækja. Ég held, að það, sem hér hefur verið sagt um aukinn opinberan rekstur sé misskilningur. Það, sem hér er fyrst og fremst verið að leggja til. er, að þar sem sveitarfélög ákveða að stofna til atvinnu- eða þjónustufyrirtækja, þá verði breytt út af því, sem nú er, og þeim heimilt að reka fyrirtæki sín með takmarkaðri ábyrgð í stað þess, sem verið hefur. Ég held, að ef þetta er skoðað ofan í kjölinn, komist menn að því, að hér er um að ræða hagkvæmnissjónarmið fyrir þau sveitarfélög, sem óska eftir því að stofna til slíkra fyrirtækja.

Hv. 3. landsk. þm. minntist á takmarkaða ábyrgð og það, hvernig mundi fara, ef slíkt fyrirtæki yrði gjaldþrota, og að með þessu frv. væri verið að stuðla að því, að einstakir aðilar, sem í dag gætu leitað réttar síns og fengið kröfur sínar greiddar hjá bæ eða ríki, ef um slíkt fyrirtæki væri að ræða, ættu ekki kost á því, þegar rekstrarformið væri komið í það horf, sem hér er gert ráð fyrir.

Þá vil ég líka benda á, að oft og tíðum, þegar um er að ræða lánastofnanir og afstöðu þeirra til slíkra fyrirtækja, sem rekin eru af sveitarfélögum, þá grunar mig, að stundum sé lánað til slíkra fyrirtækja meira en mundi gert, vegna þess að um er að ræða ótakmarkaða ábyrgð sveitarfélaga, en ekki athugað, hver grundvöllurinn er fyrir rekstri fyrirtækisins. Ég held, að væri stuðlað að því formi, sem hér um ræðir, mundi þessum hlutum komið fyrir mun betur og á þessi fyrirtæki litið eins og önnur fyrirtæki og ábyrgð þeirra bundin við það, sem gert er ráð fyrir í stofnsamningi fyrirtækis, eða til kæmi sérstök samþykkt viðkomandi sveitarfélags. Það er hins vegar sagt í 6. gr. þessa frv., að fyrirtæki, sem stofnsett yrði samkv. þessu frv., ef að lögum verður, skuli undanþegið gjöldum til ríkis og sveitarfélaga samkv. sömu reglum og gilda á hverjum tíma um sömu atvinnustarfsemi, væri hún rekin af sveitarfélaginu með ótakmarkaðri ábyrgð. Sjálfur hef ég þá skoðun, að slík félög ættu að vera eins sett í einkarekstri, og ég leit svo til, að með þessu ákvæði er aðeins tekið fram, að á meðan þær reglur gilda, að fyrirtæki sveitarfélaga eru undanþegin opinberum gjöldum, þá gildi það sama um þetta form. Ég væri hins vegar reiðubúinn til þess að breyta þessu ákvæði í þá átt, að það skulu allir sitja við sama borð, hvað snertir opinber gjöld, en ég held, að þegar menn skoða þetta ofan í kjölinn, geri þeir sér grein fyrir því, að hér er hagkvæmni sveitarfélaganna höfð fyrir augum, en á engan hátt verið að stuðla að auknum rekstri á vegum hins opinbera.