04.05.1972
Neðri deild: 69. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

253. mál, þingsköp Alþingis

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns og þakka n. fyrir að hafa komið þessu máli áleiðis og þá sérstaklega frsm. hennar fyrir þá vinnu, sem hefur verið lögð í að endurskrifa frv.

Þetta mál er orðið harla einkennilegur þáttur í starfssögu Alþ. Menn hafa verið sammála um það um langt árabil, að þingsköp væru orðin úrelt að mörgu leyti og að það þyrfti að endurskoða þau. Nefnd allra flokka settist að störfum fyrir 6 árum og skilaði þá frv., en ár eftir ár hefur þetta mál lognazt út af í n. í þinginu af einhverjum dularfullum ástæðum, sem aldrei hafa komið greinilega í ljós.

Ég vildi leggja á það ríka áherzlu, að þingið taki sig nú til og sýni, að það geti komið sínum eigin málum í sæmilegt horf með því að afgreiða þetta frv. Að sjálfsögðu er endalaust hægt að deila um einstök atriði í þingsköpum. Þau verða stöðugt í mótun, en ef 6 ára tímabil líður án þess, að nokkur hlutur sé gerður, þá er ekki von, að þróunin sé ör eða í rétta átt.

Það eru ýmis atriði í því frv., sem nú hefur verið lagt fram endurskrifað, sem mætti ræða um, ýmis atriði, sem mætti bæta við, en ég ætla ekki að taka neitt slíkt fyrir. Ég tel að það sé svo mikill ávinningur að frv. eins og það er, að við eigum að leggja megináherzlu á að afgreiða það. Ég skora því eindregið á n. að taka ekki langan tíma í frekari athugun fyrir 3. umr., heldur skulum við reyna að koma þessu máli frá okkur. Svo getum við byrjað að hugsa á ný, eftir að við höfum gert þessar breytingar. Það er nauðsynlegt, ekki sízt ef það tekur 6 eða 8 ár að koma næsta frv. fram.