12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (2457)

Almennar stjórnmálaumræður

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Muna menn eftir ástandinu og andrúmsloftinu á Íslandi fyrir nokkrum árum? Þá var við völd svokölluð viðreisnarstjórn, og leiðtogar hennar, Jóhann Hafstein og Gylfi Þ. Gíslason, boðuðu þá kenningu af ofurkappi, að Íslendingar væru þess ekki megnugir að ráða sjálfir yfir landi sinu og tryggja þróttmikið atvinnulíf og hagvöxt. Þeir lýstu yfir því, að landsmenn yrðu um ófyrirsjáanlega framtíð að una því að búa í hersetnu landi og haga utanríkisstefnu sinni í einu og öllu samkv. vilja hernámsveldisins. Þeir minntust ekki einu orði á stækkun landhelginnar. Á því sviði áttu Íslendingar að una nauðungarsamningunum frá 1961, sem fólu það í sér, að Íslendingar mættu ekki stækka landhelgina án náðarsamlegs leyfis Breta og V.-Þjóðverja eða samkv. úrskurði erlends dómstóls. Á sviði efnahagsmála og atvinnumála beindist allur áhugi þessara herra að því að draga hingað erlenda auðhringi og fá þá til að koma upp verksmiðjum á Íslandi. Þeir gerðu einn slíkan samning við svissneskan auðhring, en samkv. honum verðum við að una því fram yfir næstu aldamót., að selja raforku undir kostnaðarverði og fyrir aðeins örlítið brot af því verði, sem Íslendingar eru sjálfir látnir greiða. Og þessi samningur átti aðeins að vera upphafið. Hér áttu samkv. stefnu Jóhanns Hafstein og Gylfa Þ. Gíslasonar að rísa 20 erlendar álbræðslur á nokkrum árum. Jafnframt var því haldið fram, að helztu framtíðarvonir okkar á sviði iðnaðar væru þær, að við ættum að leggja til ódýrt vinnuafl handa erlendum fyrirtækjum hér á landi. Þessi óþjóðholla, neikvæða stefna var ekki aðeins boðuð í orði heldur einnig framkvæmd í verki. Allar tillögur um endurnýjun togaraflotans voru strádrepnar, þar til við vorum orðin eftirbátar allra annarra þjóða, sem stunda togveiðar á N.-Atlantshafi. Sjávarútvegurinn var úrelt atvinnugrein að mati viðreisnarleiðtoganna. Sama þróun var í íslenzkum iðnaði, samkeppnisaðstaða hans varð verri með hverju árinu sem leið og iðnaðarframleiðsla fór stórlega minnkandi í ýmsum greinum á árunum frá 1965 til 1968. Má ég nefna sem dæmi, að magnvísitala í kexgerð lækkaði úr 100 í 77.6 á þessu tímabili, í skógerð úr 100 í 80, í fatagerð úr 100 í 93.5, í hreinlætisvörum úr 100 í 95.6, sementsframleiðsla úr 100 í 87.3, málmiðnaður og raftækjasmíði úr 100 í 85.6, og þannig mætti lengi telja. Iðnaður í eigu Íslendinga sjálfra var ekki mikils metinn af Jóhanni Hafstein og Gylfa Þ. Gíslasyni. Þeir einblíndu á erlenda forustu og erlendar framkvæmdir.

Þessi stöðnun og samdráttur í atvinnulífi Íslendinga leiddi til neyðarástands í árslok 1967. Þegar afli minnkaði og verð á sjávarafurðum lækkaði á erlendum mörkuðum, var efnahagskerfi okkar og atvinnulíf algjörlega óviðbúið að bregðast við vandanum og leysa hann. Afleiðingin varð mjög stórfellt atvinnuleysi. Í janúarlok 1968 voru 5 475 menn atvinnulausir á Íslandi, en það jafngildir 13.4% atvinnuleysi hjá þeim, sem tryggðir voru hjá atvinnuleysistryggingum. Sjöundi hver vinnufær maður fékk ekkert að gera. Ég spyr aftur: Muna menn ekki eftir þessu ástandi? Menn stóðu í biðröðum til þess að láta skrá sig. Menn stóðu í biðröðum til þess að fá atvinnuleysisbætur og atvinnuleysið hélt áfram. Árið 1969 voru að jafnaði 1 975 atvinnulausir, og árið 1970 komst fjöldi atvinnuleysingja upp í 2 608. Þetta neyðarástand leiddi til þess, að fjöldi fólks leitaði sér atvinnu erlendis eða fluttist búferlum til annarra landa vonsvikið og biturt. Mörg hundruð iðnaðarmanna héldu til útlanda með fjölskyldur sínar, trésmiðir, málarar, múrarar, rafvirkjar, járniðnaðarmenn og verkamenn, allt menn, sem íslenzka þjóðin þurfti mjög á að halda. Árið 1968 fluttust 1 155 Íslendingar búferlum til útlanda, árið 1969 1 808 og árið 1970 2 192. Á þessum þremur árum fluttust þannig úr landi yfir 5 þús. Íslendingar. Það mundi jafngilda því, að yfir 5 millj. manna flýðu Bandaríki N.-Ameríku. Hátt á þriðja hundrað Íslendinga fluttist alla leið til Ástralíu. Mér fannst þessi brottflutningur ömurlegastur af öllu, sem gerðist þessi ár. Hann var til marks um það, að Jóhanni Hafstein og Gylfa Þ. Gíslasyni hafði með óþjóðhollum áróðri sínum og verkum tekizt að innræta mönnum vonleysi og trúleysi á land og þjóð, grafa undan þeim þjóðlega metnaði, sem lyfti Íslendingum af nýlendustigi til nútímaþjóðfélags. Annað eins og þetta hafði aldrei gerzt fyrr, eftir að Íslendingar náðu heimastjórn. Hliðstæður verður að sækja til nýlenduyfirráða Dana.

Það var þessi niðurlægingarstefna, sem þjóðin hafnaði í kosningunum í fyrra, og afleiðingin hefur orðið afar stórfelld og snögg umskipti á ástandi og andrúmslofti í landinu. Nú er ekki þagað um landhelgismálið, heldur hefur nauðungarsamningum viðreisnarstjórnarinnar verið sagt upp. Landhelgin verður stækkuð í 50 mílur 1. sept. í haust, þrátt fyrir allar hótanir og allar tilraunir til baktjaldamakks. Yfir 20 ára hernámi verður aflétt á þessu kjörtímabili, og munu viðræður við bandarísk stjórnarvöld um fyrirkomulag brottflutningsins hefjast í lok þessa árs. Verið er að smíða erlendis tugi togara handa Íslendingum til þess að bæta upp í einu stórfellda hnignun flotans á undanförnum árum. Hafin er smíði á skuttogurum innanlands, og hafa lán til skipasmíða innanlands verið hækkuð í 90%, lánstími lengdur og vextir lækkaðir. Íslenzkur iðnaður er í stórfelldari sókn en nokkru sinni fyrr og einbeitir sér nú að því að margfalda útflutning okkar á fullunnum iðnaðarvarningi á næstu árum. Iðnaðinum hefur verið tryggt aukið fjármagn bæði til stofnlána og rekstrarlána. Einmitt þessa daga er Alþ. að samþykkja löggjöf, sem tryggir iðnaðinum sama rétt og sjávarútvegur og landbúnaður hafa haft í viðskiptum við banka og lánastofnanir, en í tíð viðreisnarstjórnarinnar þótti sæma að setja íslenzkan iðnað skör lægra. Verið er að gera stórfellt átak til að efla lagmetisframleiðslu, niðursuðu og niðurlagningu. Hvarvetna er nú bjartsýni og framkvæmdahugur, svo mikil bjartsýni, að menn vilja helzt gera allt í senn. Og Íslendingarnir, sem fluttu til útlanda á viðreisnartímanum, flykkjast nú heim, einnig frá Ástralíu yfir hnöttinn hálfan. Jafnalgjör umskipti hafa sjaldan fyrr gerzt hérlendis á svo skömmum tíma. En hver hafa viðbrögð viðreisnarflokkanna orðið? Fulltrúar Sjálfstfl. hafa haldið dauðahaldi í hina neikvæðu óþjóðhollu stefnu sína. Í allan vetur hafa þeir haldið uppi óhljóðum hér á þingi vegna þess ásetnings Íslendinga að lifa einir og frjálsir í landi sínu. Þeir geta ekki hugsað sér að vera án erlendrar herstöðvar, eins og heyra mátti á máli Jóhanns Hafstein hér áðan. Á sama hátt hafa þeir snúizt gegn sjálfstæðri utanríkisstefnu núv. stjórnar. Þeir hafa mótmælt í hvert skipti, sem Íslendingar hafa leyft sér að hafa aðrar skoðanir en bandarísk stjórnvöld. Þeir hafa lagt til, að kosin yrði sérstök stóriðjunefnd, svo að þeir hefðu tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum sínum um erlenda forsjá í efnahags- og atvinnumálum. Þeir hafa ekki tekið neinn þátt í bjartsýni og framkvæmdaáhuga þjóðarinnar. Ég sagði fulltrúar Sjálfstfl., en auðvitað á þetta ekki við um þann mikla fjölda, sem veitt hefur Sjálfstfl. brautargengi á umliðnum árum. Hér er að verki þröng og ofstækisfull klíka undir forustu Jóhanns Hafstein og Geirs Hallgrímssonar með Morgunblaðið að bakhjarli. Ágreiningurinn innan flokksins dylst hins vegar ekki, og hann nær einnig hér inn í þingsalina. Allir veita því til að mynda athygli, hvernig Jóhann, Geir og Morgunblaðið reyna í sífellu að skyggja á hæfasta forustumann Sjálfstfl., Gunnar Thoroddsen enda reyndu þeir meira að segja að koma í veg fyrir það, að hann fengi að vera í framboði í fyrra.

Ég hef ekki trú á því, að Sjálfstæðisflokksmenn almennt muni lengi una hinni neikvæðu, óþjóðhollu og máttlausu forustu Jóhanns Hafstein og Geirs Hallgrímssonar.

Um Alþfl. er það að segja, að hann fékk í fyrra alvarlegri áminningu en nokkur annar stjórnmálaflokkur hefur fengið. Þúsundir kjósenda sneru við honum bakinu og komu til liðs við Alþb., sem jók fylgi sitt um 50% í höfuðborginni einni. Í upphafi þings var svo að sjá, sem þm. Alþfl. hefðu lært af þessari áminningu. Þeir tóku sjálfstæða og málefnalega afstöðu til viðfangsefna sinna, en þetta gerbreyttist, þegar Gylfi Þ. Gíslason kom heim úr námsdvöl sinni í húsi Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn. Hann gekk beint inn í klíku þeirra Jóhanns Hafstein og Geirs Hallgrímssonar, og þeir hafa síðan birzt hér á þingi sem samvaxnir þríburar. Ég tel þetta mikið alvörumál fyrir Alþfl. Honum var boðin aðild að núverandi ríkisstj., þegar hún var mynduð, og það boð stendur enn af okkar hálfu. Það ætti að vera mjög æskilegt verkefni fyrir Alþfl. að taka þátt í þeirri félagslegu stefnu, sem nú er reynt að framkvæma á Íslandi, og ég veit, að margir Alþfl.-menn eru þeirrar skoðunar, en slíkt gerist greinilega ekki, á meðan þeir lúta forustu Gylfa Þ. Gíslasonar.

Ég sagði áðan, að þjóðfélagið mótaðist af stórhug og framkvæmdaáhuga. Þetta á við um ríkisvald, sveitarfélög, atvinnurekendur og einstaklinga. Menn vilja helzt gera allt í senn, og það er barizt um mannafla og fjármuni. Þetta ástand heitir þensla á máli hagfræðinga og er vissulega alvarlegt viðfangsefni. Við verðum að læra að beita nútímalegum áætlunarvinnubrögðum og raða framkvæmdum með hliðsjón af fjármagnsgetu okkar og mannafla. Til þess var Framkvæmdastofnunin sett á laggirnar, og hefur hún mjög veigamiklum hlutverkum að gegna. Að sjálfsögðu verða þær framkvæmdir ævinlega að ganga fyrir, sem styrkja sjálfa undirstöðu þjóðfélagsins, atvinnuvegina og útflutninginn. Þar hlýtur hlutur iðnaðarins að fara hraðvaxandi á næstu árum. Ein af forsendum slíkrar íslenzkrar iðnvæðingar er stóraukin raforkuframleiðsla í þágu þjóðarinnar allrar.

Ríkisstj. hefur tekið ákvörðun um, að næst skuli ráðizt í stórvirkjun í Tungnaá við Sigöldu. Verður það verk boðið út á næstunni, undirbúið í ár og hafið snemma á næsta ári. Í sambandi við það verður að vinna skipulega að því að tengja saman raforkumarkað landsmanna, svo að hann verði sem samfelldastur og þjóðin öll njóti sem fyrst árangursins af orkuvinnslunni. Slík samtenging verður framkvæmd á Norðurlandi í sumar. Ég tel, að slíka samtengingu verði að framkvæma á Vesturlandi næsta sumar. Á árunum 1973 og 1974 þarf svo að leggja línu frá Búrfellssvæðinu til Norðurlands, en slík tenging er jafnframt forsenda fyrir stórvirkjunum á Norðurlandi. Síðan þyrfti að tengja Austfirði og Vestfirði við kerfið, og með því að tengja saman Vesturland og Norðurland væri komin hringtenging, sem tryggði öryggi.

Slíkar stórframkvæmdir í raforkumálum þurfa að haldast í hendur við orkufrekan iðnað. Unnið er nú að fjölþættri könnun á því máli á þeim forsendum, að slík fyrirtæki lúti stjórn Íslendinga og heyri að sjálfsögðu í einu og öllu undir íslenzk lög. Í þessu sambandi má geta þess, að nú dvelst hér á landi sérfræðingur á vegum Sameinuðu þjóðanna til að kanna aðstæður til títanframleiðslu á Íslandi. Þar er um afar athyglisvert mál að ræða, ekki sízt vegna þess, að slík verksmiðja yrði okkur ekki ofviða fjárhagslega, og raforka er meginþáttur framleiðslunnar.

Atvinnuvegirnir eru sú undirstaða, sem verður að efla, en tilgangurinn er að bæta þjóðfélagið sjálft, það mannlíf, sem lifað er í landinu. Ríkisstj. setti sér það mark að vinna að auknum jöfnuði og félagslegu öryggi. Ég tel, að kjarasamningar þeir, sem gerðir voru í vetur, hafi verið afar merkur áfangi, ekki sízt kauphækkanir láglaunafólksins, og raungildi þessara samninga verður að tryggja með öllum tiltækum ráðum. Þær stórfelldu umbætur, sem framkvæmdar voru í tryggingamálum, voru einnig mjög mikilvægur áfangi. Hinir þungbæru og ranglátu nefskattar hafa verið afnumdir, og á einu ári hafa framlög til almannatrygginga aukizt um nær 1000 millj. kr. Öldruðu fólki og öryrkjum hafa nú verið tryggðar lágmarkstekjur, sem nema 18 þús. kr. á mánuði fyrir hjón, en í tíð viðreisnarstjórnarinnar var hjónum ætlað að draga fram lífið af tæpum 8 þús. kr. á mánuði.

Ég tel, að með þessari breytingu hafi verið afmáður smánarblettur af þjóðfélagi okkar Íslendinga, og ég hlýt að harma það alveg sérstaklega, að Morgunblaðið hefur oftar en einu sinni lagzt gegn þessari breytingu og talið hana leiða til leti og ómennsku hjá öldruðu fólki og öryrkjum. Jafnhliða þessari breytingu var réttur barna stórlega aukinn, og allt misrétti milli karla og kvenna hefur verið afmáð úr tryggingalöggjöfinni. En heildarendurskoðun á henni heldur áfram.

Einnig á sviði heilbrigðismála hafa orðið mjög veruleg umskipti. Fyrir Alþ. liggur nú frv. um algjöra skipulagsbreytingu á heilbrigðisþjónustunni um land allt, þar sem nútímahugmyndir taka við af úreltu skipulagi. Fjárframlög til sjúkrahúsabygginga hafa verið stóraukin, og er nú unnið að byggingu og stækkun sjúkrahúsa í öllum kjördæmum landsins. Sérstök áherzla verður lögð á það brýna vandamál að stórbæta þjónustu við geðsjúklinga, og er nú unnið að undirbúningi nýrrar geðdeildar við Landsspítalann. Vinnuskilyrði á Kleppi hafa verið bætt til mikilla muna og standa vonir til þess, að fljótlega verði hægt að leggja niður elzta hluta spítalans, en notkun hans hefur verið heilbrigðiskerfinu til mikillar vansæmdar. Unnið er að undirbúningi á lokuðu hæli fyrir drykkjusjúklinga og standa vonir til, að byggingarframkvæmdir geti hafizt síðar á þessu ári. Þá er unnið að skipulagningu sérstakrar deildar í þágu sykursjúkra. Enn vil ég geta þess, að á vegum heilbrrn. hefur verið samið frv. um dvalarheimili aldraðra, en þar er m. a. gert ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði þriðja hluta kostnaðar við slíkar byggingar ásamt tækjum og búnaði.

Allt eru þetta ráðstafanir til þess að auka félagslegt öryggi og jafnrétti í þjóðfélaginu. Hins vegar mun þessi félagslega sókn því aðeins bera tilætlaðan árangur, að okkur takist að tryggja sæmilegt jafnvægi í efnahagsmálum. Að undanförnu hafa dunið yfir þjóðina mjög stórfelldar og tilfinnanlegar verðhækkanir. Þar er að verki hrollvekja sú, sem Ólafur Björnsson prófessor spáði í lok viðreisnar. Ýmsir leiðtogar Sjálfstfl. hafa látið öllum illum látum til að tryggja sem mestar verðhækkanir. Sjálfur varaformaður flokksins, Geir Hallgrímsson, hefur gert sér sérstakar ferðir í rn. til að reyna að tryggja það, að Reykvíkingar yrðu að greiða sem hæst verð fyrir rafmagn, hitaveitu, strætisvagnaferðir o. s. frv. Hann hefur látið samþykkja að leggja hámarksgjöld á Reykvíkinga, jafnt fasteignaskatta sem útsvör. Engum dylst, að af hálfu Geirs Hallgrímssonar og félaga hans er unnið vitandi vits að því að magna verðbólgu og auka þenslu, sú iðja er til marks um ofstækisfulla og óþjóðholla stjórnarandstöðu.

Við skulum af fullu raunsæi gera okkur grein fyrir þeirri staðreynd, að engu þjóðfélagi með kapítalískt hagkerfi hefur tekizt að tryggja fulla atvinnu án verðbólgu, og okkur mun ekki takast það heldur. Verkefni okkar er hins vegar það, að koma í veg fyrir meiri verðbólgu hér á landi en í helztu viðskiptalöndum okkar, og sú stefna er framkvæmanleg. Þá verður að koma til markviss forusta stjórnarvalda til að draga úr óeðlilegri þenslu og tryggja nauðsynlegt jafnvægi milli neyzlu og framleiðslu. En aðgerðir stjórnarvalda einna saman munu hrökkva skammt, ef ekki kemur til samvinna þjóðarinnar allrar. Þar skiptir meginmáli, að samtök launafólks styðji ríkisstj. við framkvæmd þeirrar stefnu, verkalýðsfélög, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, samtök háskólamanna, verkfræðingar, læknar. Allir þessir aðilar þurfa að meta getu og þarfir samfélagsins í heild af fullu raunsæi og þjóðhollustu. Og þarna þarf einnig að koma til virk aðstoð hvers einstaklings í landinu. Menn verða hver fyrir sig að meta þarfir sínar og framkvæmdaóskir með tilliti til heildarinnar.

Í því sambandi er ástæða til að leggja áherzlu á mikilvægi sparnaðar. Ríkisstj. hefur einsett sér að auka frjálsan sparnað til mikilla muna, gefa fólki kost á að tryggja til frambúðar verðgildi fjármuna sinna í stað þess að verja þeim jafnharðan til neyzlu. Stjórnarandstæðingar hafa lýst vantrú sinni á þessari stefnu, eins og heyra mátti af ræðu Jóhanns Hafstein hér áðan, og er það í samræmi við neikvæða afstöðu þeirra í heild. Ég er hins vegar sannfærður um, að það er bæði framkvæmanlegt og óhjákvæmilegt að auka sparnað til mikilla muna.

Í tíð viðreisnarstjórnarinnar var sá háttur á hafður að taka erlend lán til flestra meiri háttar framkvæmda hérlendis, einnig fyrir inniendum kostnaði. Ég tel, að slík stefna sé bæði röng og hættuleg. Íslendingar í heild eru nú það vel efnum búnir, að þeir eiga að setja sér það mark að standa sjálfir undir verulegum hluta af þeim stórframkvæmdum, sem nú verður ráðizt í. Þjóðin verður að setja sér það mark að leggja til hliðar fjármuni til að endurnýja skipastólinn, til að ráðast í stórframkvæmdir á sviði raforkumála og vegamála og til að efla til muna íslenzka iðnvæðingu.

Ég vék að því í upphafi máls míns, hvernig andrúmsloftið á Íslandi hefði breytzt. Hversu stórfelld umskiptin væru frá atvinnuleysi og landflótta til þeirrar bjartsýnu framkvæmdagleði, sem nú einkennir þjóðfélagið. Þessi breyting á viðhorfum skiptir afar miklu máli. Stjórnmál eru ekki aðeins efnahagskerfi og hagfræði, þau eru umfram allt vilji. Kynslóðir þær á undan okkur, sem tóku við heimastjórn og breyttu Íslandi úr miðaldaþjóðfélagi í nútímaríki, áttu þennan vilja í mjög ríkum mæli. Þessar kynslóðir gerðu mörg hagfræðileg mistök, en það, sem knúði þær áfram, var brennandi þjóðlegur metnaður, trú á landið og getu þjóðarinnar til að lifa í því, ein og frjáls. Það var þessi vilji, sem lyfti Grettistökunum. Þennan heilbrigða þjóðlega metnað reyndu viðreisnarleiðtogarnir að lama og buga með áróðri sínum um getuleysi Íslendinga og forsjá útlendinga, þar til 5 þús. manna höfðu flúið land. En þeim tókst ekki að brjóta sjálfstæðisvilja Íslendinga á bak aftur og þess vegna féllu þeir á verkum sínum á síðasta sumri.

Nú er það verkefni okkar að efla að nýju þennan þjóðlega metnað, þann ásetning Íslendinga að ráða einir yfir landi sínu, landhelgi og atvinnulífi. Ef við höfum slíkan vilja að bakhjarli, mun okkur takast að leysa hvern þann vanda, sem að höndum ber. — Góða nótt.