09.12.1971
Neðri deild: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

121. mál, vörugjald

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 157 er frv. til l. um vörugjald. Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er sú, að með aðild Íslands að EFTA skuldbatt Ísland sig til að afnema í áföngum á tímabilinu 1972–1975 innflutningshömlur á sælgæti og öðrum vörum, sem tollvörugjald hefur verið innheimt af, til þess að skapa jafnræði milli innfluttra vara og innlendra. Því varð að breyta núgildandi Lögum nr. 60 frá 1939, um gjald af innfluttum tollvörum. Frv. miðar að því, að hvað snertir álagningu gjalda þessara séu innlendir framleiðendur og innflytjendur nákvæmlega jafnt settir í þessu tilfelli.

Þau vandkvæði komu fram í sambandi við gerð þessa frv., að ýmis styrktarfélög hafa haft sérstakt gjald af þeirri framleiðslu, sem hér er fjallað um, svo sem sælgæti, öll og gosdrykkjum o.fl. Ef þetta gjald átti að haldast áfram, sat íslenzk framleiðsla við verri hlut en innflutningurinn, og því var lögð nokkur vinna í það að ná samkomulagi um, hvernig með þetta mál yrði farið. Niðurstaðan hefur svo orðið sú, að ríkissjóður greiðir til aprílloka n.k. Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra það gjald, sem ákveðið var af hverju kg af sælgæti, en þá munu lögin falla úr gildi. Hins vegar er gert ráð fyrir því, og verður gert ráð fyrir því á fjárlögum, að þessi samtök fái sömu fjárhæð áfram og verið hefur, þó að lögin falli úr gildi.

Kveðið er á í lögunum, að ríkissjóður skuli greiða til júníloka 1976 framlag til Styrktarfélags vangefinna 1.95 kr. af hverjum litra, sem framleiddur er af öll, sbr. lög nr. 78 frá 1966. Sérstakt gjald, sem Hjartavernd hafði, er fallið úr lögunum, en hins vegar er gert ráð fyrir því, að þessir aðilar fái sömu fjárhæð á fjárlögum næsta ár og þeir hefðu fengið samkv. þeim ákvæðum, sem gilt hafa og þessi markaði tekjustofn aflaði þessum samtökum.

Í sambandi við þetta frv. er rétt að vekja athygli á því, að þar er sett það ákvæði, að skylt er að merkja allar smásöluumbúðir innflutts sælgætis með nafni innflytjandans eða umboðssala. Nánari ákvæði um þetta yrðu sett í reglugerð, en þetta er gert með tilliti til þess, að vegna hárra tolla og vörugjaldsins verður eflaust uppi mikil viðleitni í sambandi við þetta til að smygla til landsins erlendu sælgæti. Á að koma í veg fyrir það með því, að hið löglega innflutta sælgæti, sem greiddir hafa verið af tollar og vörugjald svo sem lög þessi munu mæla fyrir um, verði merkt innflytjandanum eins og áður greinir. Hér er því um það að ræða að tryggja, að þessi lög komi ekki til með að leiða af sér ólöglegan innflutning á þeim vörum, sem hér um ræðir.

Þetta frv., sem hér er til 1. umr., felur ekki í sér neina nýja tekjuöflun. Hér er aðeins um það að ræða, að skipta þessu framleiðslugjaldi á milli innflutnings og þess sælgætis, sem í landinu er framleitt, og gert til þess að koma í framkvæmd þeim hluta EFTA-samningsins, sem þetta varðar.

Ég treysti því, að um þetta mál verði ekki skiptar skoðanir hér á hv. Alþ., og þó að það sé ekki fyrr á ferðinni, þá leyfi ég mér að fara þess á leit við hv. d., að hún hraði afgreiðslu málsins, því að það þarf að verða að lögum fyrir næstu áramót, því að upp úr þeim getur innflutningur hafizt, og ég treysti hv. alþm. til þess að greiða fyrir því.

Ég legg svo til, herra forseti, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.