12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2187 í B-deild Alþingistíðinda. (2470)

Almennar stjórnmálaumræður

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Sú mikla mótsögn og alvarlega þverstæða hefur komið fram í störfum hæstv. ríkisstj., að hún hefur annars vegar dregið til sín meira vald og fjármagn frá staðarvöldum, sveitarstjórnum og einstaklingum en áður eru dæmi um, og hins vegar hefur innan ríkisstj., eins og raunar vita mátti, algerlega skort samkomulag og samkvæmni til að beita slíku valdi á rökvísan hátt. Hvort tveggja ber að gagnrýna, enda í andstöðu við stefnu Sjálfstfl. Sjálfstfl. leggur áherzlu á dreifingu valdsins. Einstaklingurinn sjálfur og fjölskyldan, sveitarfélagið, staðaryfirvöld eiga í sem víðtækustum skilningi að vera fjár síns ráðandi og stefnumótandi um eigin hag og framtíð, þar sem frelsi, framtak og framfarir fær þá fyrst þrifizt til hagsbóta fyrir heildina. Að svo miklu leyti sem ríkisvald þarf að halda taumunum í sinni hendi, ber því auðvitað með fyrir fram gerðri áætlun og samræmdum aðgerðum að skapa skilyrði fyrir frelsi einstaklinga og sjálfsákvörðunarrétti staðaryfirvalda. Núv. ríkisstj. hefur gagnstætt þessu með nýjum skattalögum og ákvæðum um tekjur sveitarfélaga séð í senn svo fyrir, að ríkið tekur til sín mun meira en áður af aflafé einstaklinga og skammtar sveitarfélögum úr hnefa. Auðvitað er takmörkun á sjálfsaflafé takmörkun á sjálfræði. Auðvitað er samdráttur fjármagnsins í höndum ríkisvalds í Reykjavík skerðing á sjálfstæði hinna dreifðu byggða. Dregið hefur verið í efa, að skattbyrðin í heild hafi aukizt, og er þar m. a. ekkert tillit tekið til stórhækkaðra fasteignaskatta, sem ríkisvaldið knýr sveitarfélögin til að nýta til fullnustu, þar sem aðrir tekjustofnar eru frá þeim teknir og þau eiga ekki annarra kosta völ. Skattbyrði einstaklinga eykst. Hæstv. félmrh. ætti að vita, að samkv. nýju skattalögunum getur skattbyrði aldraðs fólks vaxið um 100 til 300% vegna afnáms sérstaks skattfrádráttar þeim til handa í fyrri lögum. Til marks um hitt, að sveitarfélögin eru skilin eftir á flæðiskeri, má nefna, að það er ekki eingöngu Reykjavík, sem nýtir allar álagsheimildir vegna þess, eins og sagt er, að borgarstjórnin þar sé í hefndarhug gagnvart ríkisstj., heldur er sömu sögu að segja í öllum stærstu kaupstöðum landsins, — ekki heldur væntanlega hv. þm. Steingrímur Hermannsson, að ríkisstjórnarsinnar í Kópavogi, Hafnarfirði, Keflavík, Vestmannaeyjum og Akureyri séu að hefna sín á ríkisstj., þ. á m. flokksbræður hans framsóknarmenn? Í þessum kaupstöðum hafa fylgismenn allra ríkisstjórnarflokkanna séð sig til knúna að nýta álagsheimildir á fasteignagjöld og leita heimildar til að hækka útsvör úr 10 í 11%. Ef minni sveitarfélög og kaupstaðir sjá sig til þessa knúin, má geta nærri um þörf hinna stærri, en það er staðreynd, að því stærri sem sveitarfélögin eru, því meiri sameiginlegrar þjónustu er krafizt íbúunum til handa. Að þessu leyti er ekki sízt dregið af Reykjavík með nýjum tekjustofnalögum sveitarfélaga. Hér er og aukið miðstjórnarvald á ferðinni. Þáltill. hæstv. iðnrh. í orkumálum er af sama toga spunnin.

Framkvæmdastofnunin er þó e. t. v. gleggsta dæmi þessarar óheillavænlegu samþjöppunar valdsins, sem er í andstöðu við þróun tímans og vilja fólksins. Þeirri stofnun er fengið fjármagn og vald, sem getur borið ægishjálm yfir alla á landi hér. Er nú komið á daginn, sem raunar var spáð, að jafnvel ráðherrum þykir nóg um ráðríki stofnunarinnar, hvað þá heldur öðrum, sem minna eiga undir sér. Það er að vísu ákaflega ánægjulegt að heyra, að ábyrgðartilfinning ráðherranna hefur vaxið frá því þeir voru í stjórnarandstöðu. Þá heyrðist ekki formaður Framsfl. segja, að ekki væri allt hægt að gera í einu, þá lagði ritstjóri Þjóðviljans ekki áherzlu á að meta yrði getu þjóðfélagsins í heild, miðað við óskir einstaklinga og stétta, en þetta hefur nú heyrzt frá þessum mönnum í umr. Um það má segja: Allir dást að andaktinni, en alvaran er kannske minni. Fjárlög eru hækkuð um 50% og tekjuáætlun þeirra byggist á því, að viðskiptajöfnuður verði óhagstæður um 4 þús. millj. kr. Framkvæmdir samkv. framlagðri áætlun eru fjármagnaðar með því að tífalda útgáfu ríkisskuldabréfa innanlands og tífalda sömuleiðis erlenda lánsfjáröflun samkv. áætluninni, frá því sem síðasta áætlun viðreisnarstjórnarinnar gerði ráð fyrir. Hér hefur ríkisstj., Framkvæmdastofnun og þinglið stjórnarinnar bersýnilega gefizt upp við að raða framkvæmdum eftir mikilvægi þeirra, eins og hefur gjarnan verið uppáhaldsorðtak þeirra. Áætlunarbúskapurinn byggist vitandi vits á því að lifa um efni fram, brúa bilið með erlendum lántökum og þynna íslenzku krónuna út. Nýrri verðbólguskriðu er hleypt af stokkunum, og þá á ég ekki við þær verðhækkanir, sem orðið hafa að undanförnu, heldur þær, sem eftir eiga að koma. Sjálfsagt er það rétt að nokkru leyti, að þær verðhækkanir, sem orðið hafa eftir lok verðstöðvunar, eiga að einhverju leyti rót sína að rekja til tímabils fyrrv. stjórnar, en meginvandinn stafar af loforðalista og aðgerðum núv. stjórnar.

Vitnað hefur verið í hækkunarbeiðnir Reykjavíkurborgar. Ráðherrar hafa hrósað sér af að hafa skorið þær niður, — en með hvaða rökum? Ekki með þeim rökum, að fjármagnsþörf fyrirtækjanna væri ekki fyrir hendi. Sú þörf var viðurkennd að fullu, en annars vegar bent á að taka peninga með sköttum, því að þeir væru ekki í vísitölunni, eins og fargjöld strætisvagna, eða veitt var hins vegar leyfi til erlendrar lántöku sem fjármagnsþörfinni nam, og þar með enn aukið á spennuna innanlands. Með aðgerðum ríkisstj. er hækkuninni aðeins slegið á frest og verður að vera meiri, þegar að skuldadögunum kemur, en hún hefði orðið nú. Svo slær hæstv. iðnrh. sér á brjóst, segir erlendar lántökur rangar og hættulegar, en margfaldar þær á vegum eigin ríkisstj. og vísar auk þess öðrum á að taka fremur erlend lán en að standa á eigin fótum.

Hæstv. forsrh. taldi okkur í stjórnarandstöðu vera svartsýnismenn, mikla fyrir okkur erfiðleikana. Samband frystihúsa samvinnufélaganna, sem forsrh. telur væntanlega ekki til stjórnarandstöðunnar, segir í frétt frá aðalfundi sínum að frá, og með þessu vori sé frystiiðnaðurinn kominn inn í nýtt hallareksturstímabil, og tekur fram, að vinnuaflskostnaður muni hækka um 70% frá því í nóv. 1971 til ársloka 1973. Ef þessi frétt er skoðuð í ljósi þess, að frystihúsin búa nú við hæsta útflutningsverð, sem þekkzt hefur, og teikn eru jafnvel á lofti um lækkun þess, að vitað er að önnur innlend iðnaðarframleiðsla, sem unnið hefur markað erlendis vegna réttrar gengisskráningar viðreisnarstjórnarinnar, þolir ekki tilkostnaðarhækkanir, að framkvæmdaáætlun ríkisstj. gerir ráð fyrir a. m. k. 1000 manna viðbótarvinnuaflsþörf, þegar skortur er á vinnuafli, þá má sjá, að ríkisstj. hefur enga yfirsýn yfir vandann og er þegar af þeim sökum ófær að leysa hann. Það er ljóst, að í efnahagsmálum hefur ríkisstj. á 10 mánaða valdaferli látið hrekjast fyrir atburðarásinni í stað þess að stjórna henni, borizt með straumnum í stað þess að takast á við vandann. Ástæðan er auðvitað sú, að hinir þrír stjórnarflokkar hafa ekki náð samstöðu um sameiginleg úrræði.

Hins sama gætir í utanríkis- og varnarmálum landsins, eftir að almenningsálitið lét til sín taka og leiddi í ljós, að þingmeirihluti til að framkvæma stefnu stjórnarinnar var ekki fyrir hendi, hefur brottför varnarliðsins verið slegið á frest. Lýst hefur verið yfir, að viðræður við Bandaríkin um brottför varnarliðsins hefjist fyrst í lok þessa árs, einu og hálfu ári eftir að stjórnin settist að völdum. Áður hafði verið sagt, að þær hæfust í byrjun þessa árs. Hér skal þessi frestur ekki gagnrýndur út af fyrir sig, en hann stafar af því, að stjórnin er ófær um að ná samstöðu, eins og fram kom, þegar boð Bandaríkjanna um fjármögnun flugbrautarlengingar vegna varna landsins var samþ. með meiri hl. atkv. í ríkisstj. Þá lýstu Alþb.-ráðherrarnir yfir, að forsenda sjálfstæðrar íslenzkrar utanríkisstefnu væri brostin, en létu sig engu að síður hafa það að sitja áfram og bera ábyrgð á ósjálfstæðri utanríkisstefnu að eigin mati. Þótt betra sé að fresta framkvæmd stjórnarstefnunnar í varnarmálum en að skilja landið eftir varnarlaust, þá er full ástæða til, að Íslendingar geri hreint fyrir sínum dyrum í öryggis- og varnarmálum, bæði vegna sjálfra sín og vina- og nágrannaþjóða. Það eitt er í samræmi við sanna þjóðhollustu og þjóðarmetnað. Ef við viljum vera sjálfstæð, verðum við að taka á okkur þá ábyrgð, sem því er samfara, og taka að okkar leyti þátt í því að vernda friðinn í þeim heimshluta, sem við byggjum. Annað er okkur ekki sæmandi.

Ánægjulegt er, að samstaða náðist í landhelgismálinu á þessu þingi. Á þá samstöðu skyggir, að stjórnarflokkarnir höfnuðu áður að fylgja till. fyrrv. stjórnarflokka frá því fyrir kosningar að miða útfærsluna við landgrunnið allt. Vegna þessarar synjunar nýtast Íslendingum ekki sem skyldi mikilvæg fiskimið og meðferð málsins verður síður en svo auðveldari á alþjóðavettvangi. Nú ber hins vegar að snúa bökum saman og leggja áherzlu á framkvæmd ályktunar Alþ. um útfærsluna 1. sept. n. k. og viðræður við Breta og Þjóðverja til að leysa vandamál, sem samfara eru útfærslunni. Ríkisstj. hefur boðað, að hún muni leggja fram ákveðnar till. til lausnar þeim vanda í landhelgisnefnd allra flokka, enda er ráðgerð för þeirra utanrrh. og sjútvrh. til London í næstu viku til viðræðna við brezka ráðamenn gagnslaus, ef ekki er samkomulag með stjórnarflokkum og stjórnarandstöðu um slíkar till. af Íslendinga hálfu. Vonandi bera stjórnarflokkarnir gæfu til að koma sér saman í þessu mesta lífshagsmunamáli íslenzku þjóðarinnar, þótt illa horfi um stefnumörkun í öðrum málum, og allir Íslendingar óska utanrrh. og sjútvrh. góðs gengis í för þeirra og viðræðum við Breta.

Hæstv. menntmrh. sagði frá því í eldhúsdagsumr., þar sem hann gætti þess að minnast ekki á menntamál, í samræmi við afrek sín á því sviði á Alþ. í vetur, að núv. samstarfsflokkar SF hefðu í síðustu kosningabaráttu gert allt til að koma nýgræðingi SF fyrir kattarnef. Sama andrúmsloft sýnist enn vera til staðar innan ríkisstj. og ber vitni þess að segja megi um hverja tvo stjórnarflokkanna sem er:

„Trúa þeir hvor öðrum illa,

enda trúðu fáir báðum.

Orðunum þeir ávallt stilla,

yfir köldum búa ráðum.

Tækifæris báðir bíða,

búnir ofan hinn að ríða.“

Víst er, að fáir trúa lengur glamuryrðum stjórnarflokkanna, tortryggni þeirra á milli fer vaxandi og hver um sig býr sem bezt um sig í stjórnarsamstarfinu til að geta komið sem stærstu höggi á hina, þegar leiðir skilja. Meðan svo stefnir sem horfir, er þjóðarhagur í voða. Því er það þjóðarnauðsyn, að þessi ríkisstj. fari frá sem fyrst.

Góðir hlustendur. Ég þakka þeim, sem hlýddu.