24.11.1971
Neðri deild: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2365 í B-deild Alþingistíðinda. (2535)

Launa og kaupgjaldsmál

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég verð nú að segja, að mér urðu töluverð vonbrigði að svari hæstv. forsrh., því að ég gat ekki skilið það á annan veg en þann, að alþm. væri í raun og veru ekki treystandi til þess að lesa úr þeim gögnum, sem á hefur verið minnzt, en hins vegar eru eins og hv. 10. þm. Reykv. sagði þessi gögn í höndum um 100 manna í báðum samninganefndum og ég skal ekkert fara dult með það, að mér var boðið að sjá þessi gögn öll af nm. eða tveimur nm., sem höfðu þau undir höndum. En ég sagði sem svo, að búið væri að leggja fram frv. eða frv. á Alþ., sem bæði beint og óbeint hafa áhrif á þessi mál og ég tryði því ekki, að ekki yrðu lögð öll gögn í hendur alþm., til þess að þeir fengju aðstöðu til að kynna sér málin, eins og þau liggja fyrir, og flýta þá fyrir afgreiðslu þessara mála hér á Alþ. Og ég skal segja hæstv. forsrh. það, hvað mig snertir, að þegar þessi frv. koma hér fyrir í hv. Nd., þá mun ég leggja á það höfuðáherzlu, og ég þori að fullyrða, að minn flokkur mun leggja á það höfuðáherzlu, að þessi gögn liggi fyrir, því að við eigum kröfu til þess, þm. almennt, að fá að sjá öll þau gögn, sem fyrir liggja, til þess að kynna okkur þau mál, sem við eigum að taka afstöðu til. Og það eru okkar atkv., sem ráða því, hvort þessi frv. fara í gegn eða ekki. Hitt er svo annað mál hvort ríkisstj. vill ekki, að þm. stjórnarandstöðunnar fái öll þau gögn í hendurnar. Það er hennar mál. En ég álít það skýlausa skyldu ríkisstj. að dylja ekki Alþ. neins í þessum efnum, vegna þess að hér er um nokkuð annað að ræða heldur en oftast áður hefur tíðkazt, að þessi mál eru komin hér inn á Alþ. með því að lögð eru fram þessi tvö frv., sem ég er ekki að gera neinar aths. við. Þau koma hér síðar til umr. Það er aðeins af því, sem ég geri þetta hér að umræðuefni, að ég tel, að hér sé, eins og hæstv. forsrh. réttilega gat um, um flókið mál að ræða, flókna útreikninga, sem þm. eiga að fá sem trúnaðarmál og þm. eiga auðvitað að fara með slík mál sem trúnaðarmál, en fá tækifæri til þess að kynna sér þau og mynda sér sínar skoðanir á þeim.