09.03.1972
Sameinað þing: 46. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2437 í B-deild Alþingistíðinda. (2606)

Fiskveiðilandhelgismál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hæstv. forsrh. undirtektir undir það, að samráð verði haft við stjórnarandstöðuna í landhelgisnefndinni og tel, að það sé alveg fullnægjandi eftir næstu helgi. En það er líka mjög þýðingarmikið, að ræddar verði þær orðsendingar, sem á milli ríkisstj. hafa farið, Bretlands og Sambandslýðveldisins Þýzkalands annars vegar og hæstv. ríkisstj. hins vegar, og var reyndar gert ráð fyrir því á síðasta landhelgisnefndarfundi þann 29. febr., og það er allt gott um þetta að segja. Einnig er vitnað réttilega í ályktanir Alþ., nema ég sé ástæðu til þess að taka það fram, að í ályktun þingsins var auðvitað ekki talað um uppsögn á samningum, heldur heimild til uppsagnar á samningunum, ef ríkisstj. sýndist svo, eins og fram kom í nál. utanrmn. En það, sem ég fann að hér, voru ótímabærar yfirlýsingar, í þessu tilfelli þm., sem farið hefur í opinberum erindum til útlanda og sem ég tel ekki við eiga, en hér þurfi að vanda hvert spor, sem stigið er, og þess vegna hafi það frá öndverðu verið eðlilegt og rétt af hæstv. ríkisstj. að leita samráðs við stjórnarandstöðuna í þessu máli, enda tók hún því vel frá öndverðu, hefur að vísu stundum fundið að því, að það væri nokkuð gengið á snið við hana, en ég þakka fyrir þær yfirlýsingar, sem hæstv. forsrh. hefur hér gefið.