29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2468 í B-deild Alþingistíðinda. (2646)

Húsnæðismál menntaskóla o.fl.

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Fyrir nokkru síðan fylktu nemendur og kennarar Menntaskólans í Reykjavík liði og gengu á fund ráðh. til að vekja athygli á neyðarástandi í húsnæðismálum þess skóla. S. l. föstudag efndu landssamtök íslenzkra menntaskólanema til aðgerða til að vekja athygli á kröfum sínum um betri námsaðstöðu og spurningum sínum um það, af hverju þeim kröfum hefur ekki verið sinnt. Í landssamtökum þessum eru allir menntaskólanemar á landinu, um 3300 að tölu. 2300 þeirra eru í Reykjavíkurmenntaskólunum þremur. Mörgum er sennilega gjarnt að hugsa, að kröfugerð skólaæskunnar sé aðeins eitthvert hávaðabrölt í heimtufrekum dekurbörnum, sem nær væri að senda til sjós og láta vinna fyrir sér. En skólaæskan er fólk, sem vinnur mikið og þarf aðstöðu til sinnar vinnu eins og aðrir. Þeir, sem hugsa, að þetta fólk hafi einungis verið heimtufrekt dekurfólk, munu sennilega hafa staldrað við, þegar þeir sáu, hverjar voru aðalkröfurnar í þessum hópi. Aðalkröfurnar voru þessar: Framfylgið lögunum. Menn munu hafa séð, að þarna var ekki rangsleitni og heimtufrekja að verki. Ungt fólk, sem setur þá kröfu fram við ráðamenn, að þeir framfylgi lögum, sem þeir hafa sjálfir sett, á tvímælalaust rétt á því, að á það sé hlustað og því svarað. Lög um menntaskóla voru sett 25. marz 1970. Í þeim eru ákvæði um, að menntaskólar skuli vera nógu margir og húsrými nægilegt til allrar starfsemi þeirra. Í reglugerð skal svo kveðið á um lágmarkskröfur um húsrými og hlutfall milli þess og nemendafjölda. Sú reglugerð er ekki til.

Ýmis nýmæli eru í þessum lögum, sem ber að fagna, m. a. um bókasöfn, lestrarsali, aukið valfrelsi í námsefni og nýja starfsmenn, aðstoðarskólastjóra, bókavörð, deildarstjóra einstakra námsgreina, námsráðunauta og félagsráðunauta. Til að valgreinafyrirkomulag geti náð tilgangi sínum er t. d. námsráðunautur mjög mikilvægur starfsmaður. Hann á að leiðbeina nemendum í ýmsum vanda, er varðar nám og líf.

Í 26. gr. þessara laga eru talin upp 15 atriði, sem setja á reglugerð um. Reglugerð var sett, sem átti að gilda fyrir skólaárið 1970–1971, í tíð fyrrv. ríkisstj. í jan. 1971. Í 81. gr. hennar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Reglugerð þessi, sem sett er samkv. 26. gr. laga nr. 12 1970 um menntaskóla, öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda á skólaárinu 1970–1971, eftir því sem við verður komið. Skal hún endurskoðuð sumarið 1971 og hin endurskoðaða gerð taka gildi frá upphafi skólaársins 1971–1972.“

Þessi endurskoðaða reglugerð er, að því er ég bezt veit, ekki til og ég leyfi mér að biðja hæstv. ráðh. um skýringu á því. Þá leyfi ég mér að æskja upplýsinga um það, hvaða starfsmenn samkv. a-lið 13. gr. laganna hafa verið ráðnir og ef þeir hafa ekki verið það, þá hvers vegna. Enn vil ég spyrja um það atriði, sem ekki hefur minnsta þýðingu í þessum málum, en það er, hvaða ráðstafanir eru fyrirhugaðar til að bæta úr þeirri neyð, sem ríkir í húsnæðismálum Menntaskólans í Reykjavík, og hvernig eigi að ráðstafa þeim 750 nemendum, sem ljúka væntanlega landsprófi nú í vor.

Enn eitt mikilvægt atriði, sem varðar námsaðstöðu menntaskólanemenda nú, er sú krafa þeirra, að sinnt sé leiðréttingum á heimaverkefnum. Nú undanfarið hefur lengi staðið heimavinnubann kennaranna. Það hefur verið vegna kjaradeilu þeirra. Ráðamenn hafa neitað um þóknun til kennaranna fyrir leiðréttingar og slíkt, sem unnið er í heimavinnu og krefst mikillar áreynslu kennarans, en hefur hins vegar mjög mikla þýðingu fyrir námsárangur nemenda. Fullvíst er, að margir nemendur mega alls ekki við því, hvað námsárangur snertir, að fara á mis við þá aðstoð, sem felst í leiðréttingum kennarans á skriflegum og verklegum úrlausnum. Þarna koma til greina stílar í tungumálunum, íslenzkir stílar eða ritgerðir og svo verklegar úrlausnir í eðlis- og efnafræði og skýrslur, svo og skriflegar úrlausnir í stærðfræði. Af þessum ástæðum mun verða örðugt, ef ekki ókleift, að gefa árseinkunnir til stúdentsprófs, sem nú fara senn að byrja í tungumálum. Er því auðsætt, að mjög brýnt er að ráða bót á þessu máli hið allra fyrsta. Ég vil leyfa mér að æskja upplýsinga hæstv. ráðh. um það, hvernig þessum málum miði, og mun svo ekki tefja hv. Alþ. með frekari orðum um þetta mikilvæga efni, þó að full ástæða væri til því að hér er um mörg alvarleg atriði að ræða, sem þarf að gefa skýringu á.