15.05.1972
Neðri deild: 79. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (2881)

114. mál, námulög

Sigurður Magnússon:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að ræða þetta frv. í neinum efnisatriðum, — frsm. n. hefur þegar gert þessu skil, — en geri það kannske frekar á eftir, ef ástæða er til. En þar sem mér fannst jafnvel örla á aðdróttunum í garð n. frá hv. þm., Gunnari Thoroddsen, vil ég koma fram örlitlum athugasemdum.

Í fyrsta lagi var því lýst yfir þegar á fyrsta fundi nefndarinnar, þegar um málið var fjallað af hálfu formanns hennar, að hann óskaði eftir því, að málið fengi afgreiðslu á þessu þingi, enda hefði það þegar legið fyrir þinginu í fyrra og ekki fengið afgreiðslu, auk þess sem óskir væru um það af hálfu rn., að málið kæmist í gegn á þessu þingi. Í upphafi var hv. þm. Gunnari Thoroddsen því ljóst, að meiningin var að fá frv. samþ. Haldnir voru samtals fjórir fundir í n. um þetta mál, ekki þrír, eins og þm. gat um. Þann fjórða gat hann ekki setið og þykir mér það leitt, en við því var ekkert að gera, ef málið átti að fá afgreiðslu, varð það að komast úr n. Hins vegar gerðist það, á meðan þessi þm. dvaldist erlendis, að umsögn kom frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um breytingar á 1. gr. frv., held ég, frekar en 2., en eftir þessari umsögn hafði verið leitað sérstaklega eftir ósk Gunnars Thoroddsens. Ákveðið var að verða við þessari till. sambandsins, og taldi ég því, að nú væri búið að ganga til móts við höfuðsjónarmið þessa hv. þm. í n., þau atriði, sem hann hafði út á frv. að setja, sérstaklega þegar það var haft í huga, að ýmsar aðrar till. höfðu verið samþ., sem frá honum voru komnar. Ég vil svo taka það skírt fram, að þó að í nál. standi, að hann hafi verið fjarverandi, ber ekki að skoða það þannig, að hann hafi ekki starfað að málinu í n. Hann gerði það af miklum dugnaði, eins og hans var von og vísa, og kann ég honum þakkir fyrir það eins og öðrum nm.

Ég vil svo að lokum einungis segja, að mig undrar, að menn skuli hafa þau orð hér uppi, að frv. sem þetta sé ekki það áríðandi, að nauðsynlegt sé að samþykkja það á þessu þingi. Við vitum það, held ég, flestöll, að það er í mjög auknum mæli, sem menn eru farnir að gefa gaum ýmsum verðmætum jarðefnum, sem fram til þessa hafa legið ónotuð eða lítt notuð í okkar landi, og það er náttúrlega ekki hæfa, að á sama tíma sé ekki til heildarlöggjöf, sem tryggi það, að þessi vinnsla og þessi náttúruauðæfi komi þjóðinni að sem beztum notum. Ég tel því mjög eðlilegt, að frv. nái fram að ganga, og í trausti þess vona ég, að þingheimur taki því vel.