21.04.1972
Neðri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (3018)

52. mál, Jafnlaunadómur

Frsm. (Svava Jakobsdóttir) :

Herra forseti. Við höfum oft orðið vitni að því hér í þingsölunum í vetur, hve hv. 12. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir, hefur verið iðin við að gagnrýna vinnubrögð annarra þm. og gagnrýna nefndarvinnu yfirleitt. Nú telur hún sig ekki reiðubúna að leggja fram brtt., sem hún hefur boðað. Hún telur sig ekki reiðubúna að leggja þær fram við þessa umr. og telur það nægilega afsökun, að prentvilla var í dagskrá Alþ. í morgun á þann veg, að jafnlaunadómur hafði fallið þar út af dagskrá. Ég vil hins vegar benda á það, að jafnlaunadómur var á dagskrá s. l. miðvikudag, en vegna tímaleysis varð ekki komizt svo langt í dagskránni, og ég vil því spyrja hv. 12. þm. Reykv., hvað í ósköpunum hún hefði gert á miðvikudaginn. Ég tel hana enga afsökun hafa nú fyrir því að tefja fyrir afgreiðslu mála í þingsölum, auk þess sem frv. var lagt fram í nóv. s. l., þannig að þeir þm., sem áhuga hafa á, hafa haft nægilegan tíma til þess að móta brtt. í tæka tíð.

Hv. 12. þm. Reykv. talaði langt mál, og má raunar segja, að hún hafi unnið aðdáunarvert nefndarstarf hér í ræðustól alein, þar sem hún las a. m. k. eina umsögn orðrétta og talsvert úr öðrum, þannig að ég treysti því, að hún verði þá orðin það vel kunnug málinu, að við fáum að sjá brtt. hennar á prenti, áður en málið kemur til atkvgr.

Mér þótti ræða hv. þm. heldur mótsagnakennd. Í öðru orðinu talaði hún um, að hér væri um alveg nýtt frv. að ræða og þess vegna væri í raun og veru óforsvaranlegt, að n. legði þetta fram sem brtt. Í hinu orðinu talaði hún um, að hér hefði ekki orðið á nein eðlisbreyting og einmitt þess vegna yrði hún að koma með brtt. Ég vil benda á, að það er ekkert einsdæmi, að brtt. komi fram við margar gr. frv. Ég minni á íþróttakennaraskólafrv., sem var hér til afgreiðslu fyrir örfáum dögum og tók algerum stakkaskiptum, og hv. 12. þm. Reykv. hreyfði engum mótmælum þá.

Það er raunar alveg rétt hjá henni, að eðli frv. er óbreytt að því leyti, að þetta jafnlaunaráð getur skorið úr ágreiningsmálum um vinnusamning, og ég heyrði ekki betur, þegar hún las upp úr umsögn Kvenréttindafélagsins hér áðan, en hún lýsti sig algerlega sammála því, að nauðsynlegt væri að fá skorið úr þessum málum. Að öðru leyti býst ég ekki við, að hún geti ætlazt til þess, að ég taki afstöðu til hvers einasta atriðis, sem hún taldi hér upp í langri ræðu, þar sem hún hefur ekki getað kynnt sér nál. allshn., sem hér hefur legið alla vikuna, eða síðan á þriðjudag. En eitt atriði vil ég þó benda á og leggja mikla áherzlu á. Hv. 12. þm. Reykv. sagði, að jafnlaunaráð ætti ekki að geta dæmt í sjálfs sín sök. Það hefur heldur ekkert vald til þess samkv. frv. Það hefur mjög svipað valdsvið og barnaverndarráð. Í þeim málum, sem það úrskurðar um, er úrskurður þess fullnaðarúrskurður, en leiki grunur á, að ráðið hafi ekki farið að lögum, verður þeim réttarágreiningi vitaskuld vísað til dómstóla.

Herra forseti. Það er vissulega leitt að hafa ekki brtt. hv. 12. þm. Reykv. hér á borðum. Ég lít svo á, að úr því að hún hefur ætlað sér að flytja brtt., þá hefði hún átt að vera komin með þær fyrir daginn í dag allavega, þar sem málið var á dagskrá þegar s. 3. miðvikudag. (RH: Af hverju kom nál. ekki fyrr?) N. var að bíða eftir, hvernig svipuðu máli reiddi af í norska Stórþinginu, og ég tel það fyllilega eðlilega meðferð mála. En kannske finnst hv. 12. þm. Reykv., að það eigi ekki að taka tillit til þess, hvernig aðrar þjóðir hafa farið að. Ég vil einnig taka það fram, eins og ég raunar gerði í ræðu minni áðan, að umsagnaraðilar voru mjög lengi að svara, og mér þótti eðlilegt, að við afgreiðslu stórmáls á borð við þetta væri beðið eftir því.