18.12.1971
Neðri deild: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur fjallað um þetta frv. á nokkrum fundum og niðurstaðan orðið sú, að meiri hl. hennar, fulltrúar stjórnarflokkanna og fulltrúi Alþfl., mæla með því, að það verði samþ. með breyt., sem þeir flytja á sérstöku þskj., en hins vegar leggja fulltrúar Sjálfstfl. til, að frv. verði fellt.

Ég verð að segja það, að mér kemur þessi afstaða Sjálfstfl. mjög undarlega fyrir sjónir og þó sérstaklega þær röksemdir, sem flokkurinn færir fyrir þessari afstöðu sinni. Röksemdin er sú, að Sjálfstfl. sé á móti höftum. Í fyrsta lagi finnst mér þetta einkennileg röksemd, vegna þess að með þessu frv. er alls ekki verið að stefna að höftum, eins og hér hefur verið rakið af hæstv. forsrh. og öðrum þeim, sem með frv. hafa mælt. Það má miklu frekar segja, að með þessu frv. sé stefnt að því að koma í veg fyrir höft, vegna þess að ef það ástand skapast, að það ríki algert handahóf og glundroði í fjárfestingunni og öðrum efnahagssviðum, þá verður og hefur oft orðið að grípa til hinna stórfelldustu hafta. Með þessu frv. er í raun og veru stefnt að því að reyna að koma í veg fyrirslíkt ástand með því að skapa jafnvægi í fjárfestingarmálum og efnahagsmálum.

Í öðru lagi kemur mér þessi afstaða Sjálfstfl. á óvart, vegna þess að það hefur aldrei staðið á Sjálfstfl., þegar hann hefur verið í stjórn, að vera með höftum. Sjálfstfl. hefur á undanförnum árum eða síðan hann tók til starfa stutt öll þau mestu höft, sem hafa verið framkvæmd hér á landi. Og það má aðeins rifja þetta upp í stuttu máli. Á árunum 1932–1934 átti Sjálfstfl. fulltrúa í ríkisstj.

Þá var hafizt handa um að framkvæma þau höft, sem beitt var vegna afleiðinga heimskreppunnar. Sjálfstfl. var fullkomlega sammála þeim höftum, sem þá voru framkvæmd, og líka þeim höftum, sem voru framkvæmd, eftir að vinstri stjórnin kom til valda 1934. Það var enginn ágreiningur um það við hann, að það ættu að vera viðskiptahöft og innflutningshöft, en hins vegar var nokkur ágreiningur um framkvæmd haftanna, en ekki það, að höft væru viðhöfð.

Eftir styrjöldina og þegar búið var að eyða stríðsgróðanum, hafði Sjálfstfl. forustu um það ásamt öðrum flokkum, að hér voru tekin upp hin víðtækustu höft, sem nokkru sinni hafa verið hér á landi á friðartímum. Þá voru ekki aðeins tekin upp víðtæk innflutningshöft, heldur líka skömmtun. Og Sjálfstfl. hafði forustu um það, hvernig þessi höft voru framkvæmd. Hann átti formann í fjárhagsráði, hann átti formann í viðskiptanefnd, og skömmtunarstjórinn var úr hans hópi. Þetta eru þau langvíðtækustu höft þessarar tegundar, sem hafa verið framkvæmd hér á landi, og um þau hafði Sjálfstfl. forustu og aðalforustu um framkvæmd þeirra.

Svo má vitna til þess, sem gerðist á síðasta kjörtímabili. Þá var nauðsynlegt að grípa til hafta vegna þess, hve ógætilega hafði verið stjórnað, og halli varð á viðskiptunum við útlönd. Undir forustu Sjálfstfl. var þá grípið til hinna stórfelldustu hafta, sem nokkru sinni hafa verið hér viðhöfð á friðartímum. Þessi höft voru framkvæmd með þeim hætti að gera fátæktina að skömmtunarstjóra. Þau voru framkvæmd með þeim hætti, að það voru gerðar tvær stórfelldar gengisfellingar, sem höfðu það í för með sér, að kjör láglaunastéttanna rýrnuðu um 30–40%. Með þessum hætti var fátæktin gerð að skömmtunarstjóra. Og í sannleika sagt er þetta langversta tegund þeirra hafta, sem beitt er í þessu skyni. Og þessi höft höfðu líka ömurlegar afleiðingar. Launastéttirnar þoldu ekki þá kjaraskerðingu, sem þær voru hér beittar. Þær kröfðust þess af atvinnurekendum að fá kauphækkun, en fengu hana ekki. Þær kröfðust þess, að ríkisstj. gengi í málið og bætti aðstöðu þeirra. Þær fengu hart nei. Þetta leiddi til hinna stórfelldustu verkfallsátaka, sem verið hafa hér á landi. Samkv. skýrslu kjararannsóknarnefndar töpuðust 700 þús. vinnudagar vegna verkfalla á síðasta kjörtímabili. Samkv. skýrslum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar setti Íslandsmet í verkföllum á þessum tíma, heimsmet í verkföllum á þessum tíma. En þetta var ekki eina afleiðing þessara hafta. Sú kjaraskerðing, sem hér var framkvæmd, leiddi til stórfellds samdráttar á kaupgetu og samdráttar hjá atvinnuvegunum þar af leiðandi, þannig að hér skapaðist stórfellt atvinnuleysi. Samkv. skýrslum kjararannsóknarnefndar töpuðust 1300 þús. vinnudagar á siðasta kjörtímabili vegna atvinnuleysis. Samanlagt töpuðust vegna verkfalla og atvinnuleysis á síðasta kjörtímabili 2 millj. vinnudaga. Slíkar voru afleiðingar þeirra hafta, sem Sjálfstfl. beitti á síðasta kjörtímabili. Það er þess vegna furðulegt, þegar þessi flokkur kemur hér fram og lætur eins og hann sé á móti höftum. Það hefur enginn íslenzkur stjórnmálaflokkur beitt höftum meir en hann. Þess vegna er ekki hægt að hugsa sér öllu meiri hræsni en þegar þessi flokkur fer að leika þann leik, að hann sé á móti höftum. Hann hefur staðið fyrir og beitt sér fyrir þeim stórfelldustu höftum, sem hér hafa verið.

Hitt atriðið er svo það, sem við endurtökum, að í þessu frv. felast ekki nein haftaákvæði, heldur er miklu frekar stefnt að því að koma í veg fyrir höft, að það þurfi að grípa til hafta, með því að hafa jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Það má segja, að hér sé stefnt að því, sem hv. 5. þm. Reykv. ráðlagði Sjálfstfl. fyrir ári siðan, þegar hann hélt ræðu í Varðarfélaginu. Hann lagði það til, að grundvallaratriðið í stefnu Sjálfstfl. ætti að vera frelsi, en frelsi með skipulagi. Hér er raunverulega stefnt að því að tryggja frelsi með skipulagi. Það er mjög ömurlegt til þess að vita, að eftir að hv. 5. þm. Reykv. er búinn að halda jafn snjalla ræðu um þetta mál í Sjálfstfl., þá skuli Sjálfstfl. ekki fara eftir leiðsögn hans og vera með þessu frv., heldur snúast á móti því.

Ég sé, að hv. 1. þm. Reykv. er ekki staddur hér á fundinum, en ég ætlaði að beina örlitlu til hans í tilefni af því, sem hann sagði við 1. umr. málsins, en ég læt það þá liggja á milli hluta að sinni.

Ég ætla þá að víkja nokkuð að þeirri gagnrýni, sem haldið hefur verið fram af hálfu stjórnarandstæðinga gegn þessu frv., annarri gagnrýni en þeirri, að hér sé um höft að ræða. Því hefur verið haldið fram, að með þessu frv. væri gengið óeðlilega á rétt stjórnarandstöðunnar og hún hefði slæma aðstöðu til þess að fylgjast með því, sem gert væri af þeirri stofnun, sem frv. fjallar um. Ég held, að þetta sé fullkominn misskilningur og sennilega líka sagt gegn betri vitund, því að samkv. 4. gr. frv. er stjórnarandstöðunni tryggð mjög viðtæk aðstaða til að fylgjast með þeim málum og framkvæmdum og vinnubrögðum, sem Framkvæmdastofnunin mun hafa með höndum. Samkv. 3. gr. frv. á stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, þar sem á að vera sjö manna stjórn og fulltrúar stjórnarandstöðunnar koma til með að hafa þrjá menn af fjórum, að hafa mjög víðtækt vald. Hún á að gera tillögur til ríkisstj. um ráðningu forstöðumanna deilda. Hún á að ákveða rekstraráætlun til eins árs, hún á að ákveða starfsáætlun fyrir stofnunina til eins árs, móta þannig alveg störf hennar, hún á að fjalla um og samþykkja allar áætlanir, sem stofnunin gerir, áður en þær eru sendar ríkisstj. og þessu til viðbótar á hún að fara með stjórn Framkvæmdasjóðs og Byggðasjóðs. Stjórnarandstaðan hefur þannig mjög sterka aðstöðu til þess að fylgjast vel með störfum þessarar stofnunar. Var kannske slíkt fyrirkomulag ríkjandi í tíð fyrrv. stjórnar! Fengu stjórnarandstæðingar þá að fylgjast með þeirri áætlanagerð og með því, hvernig stefnan í fjárfestingarmálum var mótuð? Nei, þeir fengu enga aðstöðu til þess. Þetta var þá í höndum ríkisstj. og Efnahagsstofnunarinnar, og stjórnarandstaðan hafði engan aðgang að þessum aðilum. Hún fékk ekkert um það að vita, sem verið var að gera í þessum efnum. Það var að vísu sérstök stjórn á Efnahagsstofnuninni, en þannig var frá henni gengið, að stjórnarandstaðan hafði þar enga aðild að. Það er þess vegna ólíku saman að jafna, hversu hlutur stjórnarandstöðunnar er miklu betri samkv. þessu frv. en hann var áður í tíð fyrrv. stjórnar. Þess vegna er það meira en furðulegt, þegar stjórnarandstæðingar koma hér fram og kvarta undan því, hvernig að þeim er búið í þessum efnum. Og þeir halda því fram, að það sé miklu verr búið að þeim í þessum efnum heldur en t.d. eigi sér stað með stjórnarandstöðu í öðrum löndum. Þetta er mikill misskilningur líka. Í flestum nágrannalöndum okkar er yfirstjórn þessara mála í höndum sérstakra efnahagsráðuneyta, sem einn af ráðh. víðkomandi ríkisstj. veitir forstöðu. Stjórnarandstaðan þar hefur engan aðgang að því, hvernig þessi efnahagsráðuneyti vinna. Það er eingöngu í höndum viðkomandi ríkisstj. Þess vegna verður stjórnarandstöðunni hér búin miklu betri aðstaða til þess að fylgjast með þessum málum en þekkist í flestum eða öllum nálægum löndum. Það er þess vegna engin ástæða til þess fyrir stjórnarandstöðuna að kvarta undan því, hvernig að henni er búið í þessum efnum, vegna þess að það er búið að henni miklu betur en áður var og miklu betur en þekkist langvíðast. Stjórnarandstaðan ætti að meta það, hve vel er að henni búið í þessum efnum og ekki að vera með neinar umkvartanir í þessum efnum, því að þess er vissulega ekki þörf, þegar borið er saman við það, sem var hér áður, og það, sem annars staðar þekkist.

Þá kem ég að því, sem hefur verið eitt helzta ádeiluatriðið, og það er skipun framkvæmdastjóranna eða framkvæmdaráðs, þeirra manna þriggja, sem eiga að fara með daglegan rekstur stofnunarinnar. Eins og fram kemur í frv., má segja, að verksvið þessarar stofnunar sé tvíþætt. Annars vegar fer stofnunin með áætlanagerð og rannsóknir í sambandi við þær. Hins vegar hefur hún með höndum mótun stefnunnar í fjárfestingar- og efnahagsmálum á vegum ríkisstj. Þetta er nokkuð glögg verkaskipting. Það er eðlilegt, að fyrra verkefnið, sem á að vera hlutlaus og óháð rannsókn og áætlanagerð, sé í höndum embættismanna. En það er eðlilegt, að hinn þáttur stofnunarinnar eða verkefnis hennar, sem er það að móta fjárfestingarstefnuna og fylgjast með framkvæmd hennar, sé í höndum fulltrúa, sem ríkisstj. skipar. Það er viðurkennt af öllum, ég held líka stjórnarandstæðingum, að það eigi fyrst og fremst að vera ríkisstj., sem mótar stefnuna í fjárfestingarmálum, og þess vegna er eðlilegt, að það séu þeir menn, sem hún velur til þess, sem fari sérstaklega með það. Hún ber ábyrgðina á því, hvernig til tekst, og það er eðlilegt, að hún hafi það fyrst og fremst í höndum manna, sem hún treystir fullkomlega. Og þess vegna er eðlilegt, að hér sé um menn að ræða, sem ekki eru fastir starfsmenn stofnunarinnar, heldur koma og fara með viðkomandi ríkisstj.

Þessi háttur er hafður á mjög víða í öðrum löndum, að ráðherrar eða ríkisstj. hafi sérstaka fulltrúa í hinum ýmsu rn. Hinir svo kölluðu aðstoðar- og aðstoðaraðstoðatráðherrar í Bretlandi hafa þetta verkefni með höndum. Í Bandaríkjunum er þetta framkvæmt þannig, að hver ný ríkisstj. skiptir alveg um alla æðstu embættismenn, sem fara með efnahagsmál.

Segja má, að upphafið að þessari stefnu hafi verið markað af Bjarna heitnum Benediktssyni, þegar hann beitti sér fyrir lögum um Stjórnarráð Íslands. Þá var sú skipan tekin upp, að ráðh. mættu velja sér sérstakan aðstoðarmann, sem starfaði í viðkomandi rn. aðeins þann tíma, sem hann væri ráðh., og röksemdir hans fyrir þessu, sem hægt er að finna í þingtíðindunum, eru býsna glöggar. Hann segir, að það sé iðulega þannig, að þegar ráðh. taki við, sé rn. eingöngu skipað mönnum, sem andstæðingar hans hafi skipað. Vafalaust eru það ágætir menn. En ráðh. getur bara ekki borið sama traust til þeirra og sinna helztu trúnaðatmanna, og þess vegna beitti Bjarni Benediktsson sér fyrir þeirri skipan, að ráðh. mættu velja sér sérstaka aðstoðarráðh., sem störfuðu þann tíma, sem þeir gegndu ráðherrastörfum. Þetta verða að sjálfsögðu pólitískir menn, sem starfa með ráðh, aðeins þann tíma, sem viðkomandi ráðh. er þar. Þetta fyrirkomulag hefur verið tekið upp í Noregi og hefur þótt gefa þar góða raun.

Það má segja, að fordæmið að því fyrirkomulagi, sem felst í 4. gr. frv., um framkvæmdaráð, sé sótt til þeirrar fyrirmyndar sem er að finna um þetta í lögum um Stjórnarráð Íslands. Og þeir, sem töldu það eðlilegt og rétt að samþykkja það fyrirkomulag, ættu heldur ekki að vera á móti þessu.

Það væri mikil nauðsyn á því, að menn geri sér fulla grein fyrir þessu tvíþætta verkefni stofnunarinnar, annars vegar að annast hlutlausar rannsóknir og áætlanagerð og hins vegar að sjá um framkvæmd á pólitískri stefnu, sem ríkisstj. markar. Þarna verður að greina hreint á milli í sambandi við starfsmannavalið. Það er ekki heppilegt, að embættismenn, sem eiga að vera óháðir og starfa að slíkri rannsóknargerð og áætlanagerð sem hér fjallar um, eigi jafnhliða að annast pólitíska framkvæmd á ákveðinni stjórnarstefnu. Það er eðlilegt, að aðrir menn séu valdir til þess að hafa það með höndum.

Þá kem ég að því, sem felst hér í brtt. frá báðum minni hl., að í staðinn fyrir þrjá framkvæmdastjóra komi aðeins einn. Halda menn, að það verkefni að stjórna þessari stofnun sé svo umfangslítið eða sé ekki meira en svo, að það sé hægt að fela þetta einum manni? Ég ætla ekki að svara þessari spurningu sjálfur. Ég ætla að leiða einn af flm. þessara tillagna til vitnishurðar um þetta efni, hv. 7. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslason. Hann gerði það að sérstöku umtalsefni við 1. umr. þessa máls, hve víðtækt starfssvið framkvæmdaráðsins eða framkvæmdastjóranna yrði. Og ég ætla að lesa þetta upp, með leyfi hæstv. forseta. Hv. 7. þm. Reykv. fórust svo orð um þetta atriði á þessa leið:

„Frv. gerir ráð fyrir því, að stjórn allra þessara ólíku þátta sé í höndum þriggja manna, sem ríkisstj. skipar. Samkv. 4. gr. á ríkisstj. að skipa þriggja manna framkvæmdaráð, sem annast daglega stjórn allrar stofnunarinnar, allrar stofnunarinnar“, endurtekur ræðumaður. „Þessir þrír menn eiga m.ö.o. að vera daglegir yfirmenn ráðgjafarstarfsemi, hagrannsókna, áætlanagerðar, heildarstjórnar fjárfestingarmála og lánastarfsemi, sem nemur milljörðum kr. á ári. Ég býst ekki við, að nokkrum þremur mönnum hafi nokkru sinni áður á Íslandi verið ætlað annað eins verkefni. Verkefni ríkisstj. er auðvitað meira en þetta, en ráðh. eru þó sjö. Auðvitað eru til ofurmenni, og þeir gera ótrúlega hluti, en ég hef ekki frétt afslíkum þremur ofurmennum á Íslandi, að þeim sé ætlað það verkefni, sem hinu þriggja manna framkvæmdaráði stofnunarinnar er ætluð.“

Þetta var nú álit hv. 7. þm. Reykv. við 1. umr. þessa máls. Hann taldi það svo mikið verkefni, sem framkvæmdastjórunum væri ætlað, að það væri eiginlega alveg útilokað að finna þrjú ofurmenni á Íslandi, sem gætu sinnt þessu. En nú er komið annað hljóð í strokkinn. Nú er verkefnið ekki orðið meira en það, að hann treystir einum manni til að annast þetta. (Gripið fram í.) Hann ætlast svo til, að menn, sem eiga að vera önnum kafnir við önnur störf, hafi það sem aukavinnu að vera þessum framkvæmdastjórum til aðstoðar.

Ég held, að það, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði við 1. umr. þessa máls, sé miklu nær sanni en það, sem kemur fram í þeirri till., sem hann flytur. Það verður mikið verk og vandasamt að annast daglega stjórn þessarar stofnunar, ef hún verður það, sem henni er ætlað að verða. Það verður áreiðanlega alveg ofvaxið einum manni að sjá um það verkefni. Þess vegna verða þarna að vera fleiri menn og ekki færri en þrír. Það er ekki hægt að ætla einum manni að anna öllu því, sem hér kemur til greina. Og það er heldur ekki rétt að ætlast til þess, að þeir menn, sem eiga að vera yfirmenn hlutlausra óháðra deilda taki þátt í stjórn stofnunar, sem öðrum þræði á að annast framkvæmd á pólitískri stefnu.

Það er heldur ekki hægt að ætlast til þess, að þessir embættismenn, sem eiga að vinna fullt verk, séu að taka að sér aukastörf til viðbótar því. Það er einhver sá mesti ósiður, sem þekkist hér á landi eða hefur viðgengizt hér í stjórnarskipuninni, að fela ráðuneytisstjórunum alls konar aukaverkefni. Við sáum það í þeirri bláu bók, sem hér var útbýtt fyrir nokkru, þar sem taldar eru upp nefndir á Íslandi, í hve ótal margar nefndir ráðuneytisstjórarnir eru settir. Þetta verður að sjálfsögðu til þess, að þeir geta ekki sinnt sínu aðalverkefni eins vel og skyldi. Og við eigum að forðast að fylgja því fordæmi, t.d. í sambandi við þá forstöðumenn þeirra deilda, sem hér um ræðir og eiga að vinna mikið og óháð starf. Þess vegna held ég, að a.m.k. hv. 7. þm. Reykv., þegar hann athugar þetta mál betur og sérstaklega, þegar hann íhugar það, sem hann sagði hér við 1. umr., sjái það, að sú till., sem hann flytur hér um framkvæmdastjóra og þrjá aðstoðarmenn honum til handa, fær ekki staðizt, og af því að ég þekki hv. 7. þm. Reykv. að því, að hann getur skipt um skoðun, þegar honum sýnist eitthvað betur fara og sannara reynist, þá gæti ég nú vel treyst honum til þess við nánari athugun þessa máls að taka þessa till. til baka.

Ég skal þá minnast nokkrum orðum á þær brtt., sem meiri hl. n. flytur ásamt hv. 7. þm. Reykv. Það má segja, að fyrsta brtt., sem er við 6. gr., sé efnismesta brtt. En hún fjallar um það, að hagrannsóknadeildin, sem samkv. frv. á að heyra undir stjórn og framkvæmdaráð Framkvæmdastofnunarinnar, skuli heyra beint undir ríkisstj., en eigi að síður skuli hún samt vinna öll þau verkefni fyrir Framkvæmdastofnunina, sem frv. gerir ráð fyrir. Það má segja um kjararannsóknadeildina eða — stofnunina eða hvað menn vilja kalla hana, að eins og hún er nú, þá svífi hún á vissan hátt í lausu lofti eða sé ætlað tvíþætt verkefni, sem vafasamt sé, hve vel fari saman. Annars vegar á hún að fást við það að undirbúa áætlanagerð og rannsóknir í sambandi við það. En hins vegar hefur henni verið falið að annast margs konar rannsóknir í sambandi við kaupgjaldsmál eða rannsóknir fyrir aðila vinnumarkaðarins, og þá má segja, að þetta tvennt fari ekki saman. Og ég held, að sú skipan, sem tekin er upp hér, og alveg eins sú, sem er í sjálfu frv., séu hvorugar til verulegrar frambúðar og þetta mál þurfi að íhuga betur. Það er áreiðanlega mikil nauðsyn á því, að það komi hér upp kjararannsóknastofnun, sem vinni beint fyrir atvinnuvegina í sambandi við kaupgjaldsmálin og sé eiginlega óháð annarri rannsóknastarfsemi. Það er vel hægt að hugsa sér, að þessi stofnun sé í sambandi við Hagstofu Íslands, og það væri kannske eðlileg lausn, því að enn er það þannig, að þó að þessi kjararannsóknadeild, hagrannsóknadeild, hafi unnið að ýmsum rannsóknum fyrir atvinnuvegina og launþega í sambandi við kaupgjaldsmálin, þá vinnur Hagstofan enn þá að mörgum slíkum verkefnum. Hagstofan annast t.d. alveg útreikning kaupgjaldsvísitölunnar, sem skiptir mjög miklu máli fyrir alla launþega, hvernig unnið er að. En meðan þessari skipan er ekki komið á fullkomlega traustan grundvöll, sem þarf að gera í samráði við aðila vinnumarkaðarins, þá er kannske ekki óeðlilegt, að deildin heyri beint undir ríkisstj., þó að hún annist þau störf fyrir Framkvæmdastofnunina, sem frv. gerir ráð fyrir.

Við 10. gr. hefur verið tekin til greina ábending, sem kom frá hv. 3. þm. Norðurl. v., en 1. mgr. hennar fjallar um það, að stjórn Framkvæmdastofnunarinnar ákveður, í hvaða röð skuli unnið að áætlunarverkefnum og hver vera skuli markmið og forsendur hverrar áætlunar. Hér er því skotið inn í, að stjórn Framkvæmdastofnunarinnar ákveði í samráði við ríkisstj., hvernig unnið skuli að þessum verkefnum. Þessi till. er vafalaust til bóta og sker úr um það, að það er fyrst og fremst ríkisstj., sem á að hafa forustu í þessum málum.

Þá hefur einnig verið gerð sú breyt. á 2. mgr. 10. gr., að í stað þess að sagt er, að „einnig skal haft samráð við Búnaðarfélag Íslands, Fiskifélag Íslands og Iðnþróunarstofnun Íslands“, þá komi, að haft skuli samráð „við samtök og stofnanir atvinnuveganna“. Þessi breyt. er gerð eftir ábendingu frá Félagi ísl. iðnrekenda, sem taldi eðlilegt, að einnig væri haft samráð við það í þessu sambandi eins og Iðnþróunarstofnunina, og varð þess vegna niðurstaðan sú að hafa þetta jafn víðtækt og lagt er til í brtt., þannig að haft skuli samráð bæði við samtök og stofnanir atvinnuveganna.

3. brtt. er við 12. mgr. og er nokkur umorðun á síðustu mgr. Í síðustu mgr., eins og hún hljóðar nú í frv., er gert ráð fyrir, að lánastofnanir og opinberir sjóðir veiti Framkvæmdastofnuninni yfirlit um lánveitingar til fjárfestingar og framkvæmda, en hér er lagt til, að um almennt yfirlit verði að ræða. Það má segja, að þetta breyti kannske ekki verulegu, en það skýrir það þó betur, að ekki er ætlazt til þess, að stofnunin fái sundurliðun, eins og sumir hafa óttazt, á lánveitingum til einstakra aðila, heldur sé hér um að ræða heildaryfirlit um það, hvernig lánveitingar skiptast milli einstakra atvinnugreina og aðrar upplýsingar í sambandi við það.

Þá er breyt. seinna í þessari sömu gr., þar sem segir nú í frv., að stjórn stofnunarinnar geti að fengnu samþykki ríkisstj. sett almennar reglur um, hvers konar framkvæmdir skulu hafa forgang umfram aðrar, þá skuli þetta hljóða á þessa leið, að „stjórn stofnunarinnar getur að fengnu samþykki ríkisstj. og í samráði við banka og stærstu fjárfestingarsjóði sett almennar reglur um“ o.s.frv. Að vísu telja margir, að efni, sem sé skylt þessu, felist raunar í 15. gr. frv., en það þótti þó hyggilegra að skýra það enn betur í sambandi við þetta atriði, sem er eitt af helztu deiluefnunum í sambandi við frv.

Ég sé ekki ástæðu til þess að víkja sérstaklega að þeim till., sem minni hluti n. flytur, nema þá einni, og það er 10. brtt., þar sem tekið er upp orðalag úr frv., sem framsóknarmenn hafa flutt á undanförnum þingum, eða mjög svipað því, um stóraukið framlag til Byggðasjóðs. Það væri mjög ánægjulegt að sjá þessa till. hér, ef hægt væri að treysta því, að hugur fylgdi máli. En ég held, að ekki verði nú treyst á það, að hér fylgi hugur máli, vegna þess að frv. um þetta efni hefur dagað uppi á 8 þingum, vegna þess að Sjálfstfl. hefur ekki fengizt til þess að veita því stuðning. Í staðinn fyrir það að veita því stuðning, hefur Sjálfstfl. skorið framlög til dreifbýlisins mjög við nögl. Við framsóknarmenn hefðum að sjálfsögðu kosið, að þetta framlag gæti orðið verulega hærra, en á það verður að benda, að þó að okkar till. nái ekki fullkomlega fram að ganga, er um stóraukna fjárveitingu til þessara mála að ræða í frv. frá því, sem áður var. Og sú aukning hefur fengizt fram vegna þess, að Sjálfstfl. situr ekki lengur í ríkisstj. og hefur ekki aðstöðu til þess að skera þessar fjárveitingar við nögl, eins og áður var. Það er ekki aðeins, að fengizt hafi hækkun á þessu framlagi með samvinnu núv. stjórnarflokka, heldur hefur fengizt fram hækkun á fjölmörgum framlögum öðrum til framkvæmda í dreifbýlinu. Þess vegna getum við framsóknarmenn tekið þessu gamanmáli sjálfstæðismanna ákaflega rólega, vegna þess að við erum búnir að vinna stórkostlega á hér í samanburði við það, sem áður var. Það hefur komið í ljós með hinni stórauknu fjárveitingu til Byggðasjóðs og með stórauknum framlögum til ýmissa framkvæmda í dreifbýlinu, að það hefur verið mikið lán fyrir dreifbýlið, að Sjálfstfl. skyldi fara úr stjórn og hafa ekki lengur aðstöðu til þess að skera framlög til þessara framkvæmda við nögl.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta að sinni, en endurtek að lokum, að það er till. fulltrúa stjórnarflokkanna í fjhn. og fulltrúa Alþfl., að þetta frv. verði samþ. með þeim breyt., sem er að finna á þskj. 210.