25.01.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (3513)

78. mál, rekstrarlán iðnfyrirtækja

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Nokkru fyrir jólin var lögð hér á borðið hjá þm. skýrsla til ríkisstj. um málefni Slippstöðvarinnar h.f. á Akureyri. Í þessari skýrslu er m.a. vikið að lánamálum Slippstöðvarinnar, og segir þar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Langvarandi og þrúgandi fjárskortur hefur valdið mikilli óhagkvæmni í rekstri og haft slæm áhrif á starfsmenn. Verkfæri hefur ekki verið unnt að kaupa eða endurnýja, efni hefur vantað, þegar þess þurfti til að halda verki áfram með eðlilegum hætti og þá einatt vegna þess, að ekki var fé til að leysa efnið út. Ekki hefur verið lagt í lagfæringar með sameiningu lagera og vélsmiðja af sömu ástæðum, þótt veruleg hagkvæmni sé augljós. Nefndin telur vafalaust, að bein og óbein áhrif þessara atriða á rekstrarafkomu fyrirtækisins séu mjög mikil, þótt enginn vegur sé til að áætla, hversu stóran hlut þau eiga í vanda fyrirtækisins.“

Þess vegna les ég upp þennan kafla úr skýrslunni um málefni Slippstöðvarinnar á Akureyri, að hann á við um fjöldamörg iðnfyrirtæki önnur. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að mörg iðnfyrirtæki hafa búið við mikinn rekstrarfjárskort á undanförnum árum, og það hefur líka sézt á ýmsum samþykktum, sem hafa komið frá samtökum iðnfyrirtækja, að þau hafa talið það eitt mesta vandamál iðnaðarins, hve illa hefur verið séð fyrir rekstrarlánum til hans. Af þeim ástæðum hefur það iðulega gerzt, eins og vikið er að hér í skýrslunni, að það hefur vantað efni til að halda áfram vinnu og vinnustöðvanir orðið meiri og minni af þeim ástæðum. Þá hefur oft þurft að taka fjármagn, sem eðlilegt hefði verið að nota til fjárfestingar, til að koma á aukinni hagræðingu og kaupa vélar, — það hefur orðið að nota þetta fé sem rekstrarfé og það orðið til þess, að ekki hefur verið unnt að bæta reksturinn svo sem skyldi eða koma á þeirri hagkvæmni og bæta vélakostinn, eins og nauðsynlegt var.

Það verður að viðurkennast, að, að þessu leyti hefur verið búið verr að iðnaðinum — og ég á þá sérstaklega við þann iðnað, sem vinnur fyrir erlendan markað, en yfirleitt að öðrum atvinnurekstri í landinu á undanförnum árum og áratugum. Þetta átti sinn þátt í því, að þegar sett var á laggirnar sérstök atvinnumálanefnd Reykjavíkur fyrir nokkrum árum, þá tók hún þetta mál alveg til sérstakrar athugunar. Þetta var nefnd, sem kosin var af bæjarstjórn Reykjavíkur, og allir flokkar áttu fulltrúa í henni. Hún tók þetta mál alveg til sérstakrar athugunar og gerði um það sérstaka ályktun, hvernig ætti að bæta úr rekstrarlánum iðnfyrirtækja til bráðabirgða, og sú till., sem ég er að mæla fyrir, byggir í meginatriðum á þessari ályktun atvinnumálanefndar Reykjavíkur frá árinu eða haustinu 1968.

Meginatriðin í till. eru þau, að Seðlabankinn veiti viðskiptabönkunum sérstaka fyrirgreiðslu til að koma rekstraraðstöðu iðnfyrirtækja í sæmilegt horf. Til að leysa það er bent á tvö atriði sérstaklega. Í fyrsta lagi, að fyrirtækin fái víxlasöluheimild eða víxilkvóta til sölu á allt að 90 daga löngum víxlum, er nemi allt að þriggja mánaða framleiðslu fyrirtækjanna. Og í öðru lagi fái fyrirtækin yfirdráttarheimild á reikningslánum, hlaupareikningsyfirdrátt, sem svari til þriggja mánaða kaupgreiðslu viðkomandi fyrirtækis.

Það var álit atvinnumálanefndar, og það er líka álit forstöðumanna iðnaðarfyrirtækja, sem um þessi mál hafa fjallað, að ef iðnfyrirtækin fengju tryggingu fyrir rekstrarlánum, lágmarkstryggingu fyrir rekstrarlánum, eins og hér er gert ráð fyrir, þá mundi það verða mjög til þess að tryggja rekstraraðstöðu þeirra og koma í veg fyrir þann vanda, sem átti sér stað hjá Slippstöðinni á Akureyri og ég minntist á hér á undan.

Það kunna kannske einhverjir að segja, að það sé ekki lánsfé fyrir hendi til þess að fullnægja rekstrarfjárþörf iðnfyrirtækjanna á þennan hátt. Það held ég, að sé mikill misskilningur. Ég held, að Seðlabankinn eigi tiltölulega auðvelt með að leysa þetta mál a.m.k. bæta vel úr frá því, sem nú er, ef nægur vilji er fyrir hendi. Ég held, að það séu réttar upplýsingar, sem ég hef fengið um það efni, að bundið fé hjá Seðlabanka Íslands sé núna um 2.000 millj. kr. meira en þeir víxlar, sem hann hefur endurkeypt af viðskiptabönkunum. Mér sýnist það á þessu, að ef nægur vilji sé fyrir hendi, þá séu möguleikar Seðlabankans æði miklir til að bæta úr þeirri lánsfjárþörf, sem hér er fyrir hendi og nauðsynlegt er, að bætt verði úr.

Það má segja, að það hafi kannske verið á vissan hátt afsakanlegt að búa ekki betur að iðnfyrirtækjunum, en gert hefur verið í þessum efnum, á undanförnum árum eða áratugum, vegna þess að sérstaklega þau iðnfyrirtæki, sem ég á hér einkum við, er framleiða fyrir innlendan markað, studdust oft og tíðum við innflutningshöft, sem útilokuðu erlenda samkeppni, og auk þess nutu þau þá meiri og minni tollverndar. Með inngöngu okkar í EFTA og með væntanlegum samningum okkar við Efnahagsbandalag Evrópu er stefnt að því, að innflutningshöft hverfi alveg úr sögunni, eins og reyndar hefur verið á undanförnum árum, og einnig stefnt að því, að tollar lækki mjög verulega og hverfi að lokum, þannig að þau iðnfyrirtæki, sem framleiða fyrir innlendan markað, verða í framtíðinni að búa við nákvæmlega eða mjög svipaða aðstöðu og útflutningsframleiðslan og eiga þess vegna eðlilega að njóta sömu aðstöðu í rekstrarlánamálum og útflutningsframleiðslan nýtur. Á það vantar hins vegar stórkostlega nú, og það er eitt af þeim verkefnum, sem þarf að bæta úr, og það þarf að vera eitt af verkefnum núv. hæstv. ríkisstj. að gera betur í þeim efnum en fyrirrennarar hennar hafa gert.

Mér finnst í tilefni af þessu rétt að minna á mikilvægi þeirrar atvinnugreinar, sem hér er um að ræða, innlenda iðnaðarins, sem vinnur fyrir innlendan markað. Ýmislegt hefur gerzt nú að undanförnu, sem sýnir nauðsyn þess, að þessi atvinnuvegur sé efldur sem mest. Ég vil t.d. benda á það, að á síðasta ári hefur hallinn á utanríkisverzluninni orðið um 4 milljarðar kr. Þennan halla þarf að sjálfsögðu að jafna, og það verður ekki gert nema á tvennan hátt, svo að vel sé: Með því að auka útflutninginn og draga úr innflutningi með því að efla alls konar framleiðslu í landinu, sem vinnur fyrir innlendan markað. Og þó að það sé mikilvægt að efla útflutningsframleiðsluna, álít ég það engu þýðingarminna að efla þá framleiðslu, sem dregur úr innflutningi á vörum. Það er rétt í þeim efnum. sem hæstv. forsrh. hefur oft vitnað til, að hollur sé heimafenginn baggi.

Ýmsir hafa talað um það, að í framtíðinni getum við leyst okkar vandamál í þessum efnum með því annaðhvort að auka útgerðina ellegar auka stóriðju sérstaklega. Ég álít það að sjálfsögðu rétt að vinna vel að hvoru tveggja og alveg sérstaklega að því að efla útgerðina. En dæmin nú að undanförnu hafa sýnt okkur, að það er ekki alveg öruggt að treysta á þessar atvinnugreinar. Það héldu margir, að álbræðsla væri arðvænlegur atvinnuvegur, sem ekki gæti hlekkzt neitt á. Nú liggur það fyrir, að átt hefur sér stað stórfellt verðfall á þessari vöru, og þessi atvinnurekstur býr þess vegna við mikil vandkvæði að sinni, þó að búizt sé við, að fram úr því ráðist innan tíðar. Það má líka benda á það, að þó að vel hafi gengið með sölu á sjávarafurðum að undanförnu, þá hefur nýlega fallið mjög verulega verðlag á lýsi og mjöli, og ef við horfum til baka til reynslu fyrri áratuga, þá sjáum við, að það er ekkert óalgengt, að slíkt komi fyrir, að það verði verðfall á sjávarafurðum eða afli bregðist, og þetta sýnir það, að þó að mikilvægt sé að efla og auka sjávarútveginn, þá er nauðsynlegt að koma fótum undir fleiri atvinnugreinar og treysta þær, og þá er að sjálfsögðu ekki sízt þýðingarmikið að efla þá framleiðslu og þann iðnað, sem vinnur fyrir innlendan markað og sparar okkur innflutning og gjaldeyri á þann hátt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þessa till. Ég leyfi mér að leggja til, að umr. um þetta mál verði frestað og málið gangi til allshn. Ég vænti þess, að þar fái það góðar undirtektir og nái afgreiðslu á þessu þingi í þessu formi eða mjög svipuðu, sem hér er lagt til.