25.01.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (3517)

78. mál, rekstrarlán iðnfyrirtækja

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í sambandi við það, sem hv. 8. þm. Reykv. sagði hér áðan. Það er auðvitað alveg hárrétt, að það eru margs konar vankantar aðrir á rekstri iðnfyrirtækja en sá, að það vanti fjármagn. En eins og hv. 4. þm. Reykv. benti á áðan, þá er þetta mál kannske það, sem mest liggur á í augnablikinu, að reynt sé að leysa þetta mál á einhvern farsælan hátt.

Ég er líka alveg sammála hv. 8. þm. Reykv. um nauðsyn á samvinnu fyrirtækja. Það hefur nú á vissan hátt í vissum iðngreinum tekizt nokkur samvinna. En samruni eða samvinna er tímafrekt mál, og þarf mikla vinnu til að koma slíku á hér á landi. Engu að síður álít ég, að það þurfi að miða að því, því að auðvitað er það laukrétt, að einingarnar eru í mörgum tilvikum allt of litlar. Það er staðreynd, að hér í landinu er mikill vélakostur til ýmissar iðnframleiðslu, mikið húsnæði og eins gott vinnuafl og í öðrum löndum. En það vantar enn þá mikið til þess, að fyrirtækin séu af þeirri stærðargráðu, sem þau þyrftu að vera, en þau þurfa auðvitað að vera nokkuð stór, til þess að þau geti komið að áætlanagerð og nýtingu sérfræðinga á ýmsum sviðum.

Hv. þm. nefndi, að húsnæðið væri ekki vel fallið til iðnaðar í ýmsum tilvikum og framleiðsluáætlanir væru ekki gerðar. Þetta er sjálfsagt alveg rétt í ýmsum tilvikum. En mér er líka kunnugt um það, að í mörgum tilvikum hentar húsnæði iðnfyrirtæki mjög vel og í mörgum tilvikum eru banka— og lánastofnanirnar nú, sem ég fagna, farnar að biðja um mjög ákveðnar áætlanir, rekstraráætlanir, ef um lánamál er að ræða. En ég held einmitt, að ef við gætum aðstoðað iðnaðinn í sambandi við rekstrarfjáreflingu, þá mundi það efla fyrirtækin svo, að þau gætu m.a. betur unnið að þeim verkefnum, sem hv. þm. var að nefna.

Hv. 4. þm. Reykv. nefndi, að samþykkt hefði verið gerð 1958 í málefnum iðnaðarins. Ég býð hér með hv. þm. að flytja með honum frv. í þessa átt aftur nú.