09.05.1972
Sameinað þing: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í D-deild Alþingistíðinda. (3798)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. hefur nú gert grein fyrir. till. til vegáætlunar fyrir árin 1972—-1975. Það er rétt, sem hann segir, að uppsetning á tekjustofnum og gjaldliðum er að vísu aðgengilegri en verið hefur undanfarið, með því að það er allt sett hér á eitt og sama blaðið. Hitt er svo ekki rétt, að það hafi verið erfitt að gera sér grein fyrir því áður, hvernig því fé, sem til vegaframkvæmda var til, væri varið. Ég skal viðurkenna, að þetta form er e.t.v. heppilegra en það gamla.

Hæstv. ráðh. talaði um greiðsluhallann og sagði, að það væri arfur frá fyrrv. stjórn. Ég held, að hæstv. ráðh. ætti nú ekki að tala um það. Vegahallinn frá árinu 1969 var greiddur alveg upp, þegar gengið var frá áætlun til 1971, en þegar gengið var frá áætluninni 1971, lá ekki fyrir, hver hallinn væri fyrir árið 1970, enda var vegáætlunin þá fyrr á ferðinni en nú. Þegar gengið var frá áætluninni 1971, var því aðeins eftir hallinn frá 1970. Þess vegna hefði þurft nú til þess að vera í samræmi við það, sem gerðist hjá fyrrv. ríkisstj., að greiða til fulls hallann frá árinu 1970, sem var 70.3 millj. kr., en hæstv. ráðh. lýsir því yfir, sem reyndar stendur hér prentað í till., að það verði aðeins 17 millj. kr. af halla ársins 1970 greiddar á árinu 1972, en hinu verður svo ýtt á undan sér og skipt á árin 1973 og 1974, 60 millj. á hvort ár. Þetta er náttúrlega ekki gott, vegna þess að þótt gengið sé frá vegáætlun eins nákvæmlega og unnt er, og það efast ég ekkert um, að hafi verið gert að þessu sinni eins og áður, þá getum við alveg eins búizt við því, að það verði halli á þeirri áætlun, sem við erum nú að ganga frá fyrir árið 1972. Þetta er sérstaklega hættulegt vegna þess, að það eru verðbólgutímar og erfitt að áætla nákvæmlega, hvað tekjuliðir gefa, og ekki síður erfitt að áætla, hvað gjöldin fara umfram áætlun vegna verðhækkana og vegna kauphækkana. Ég vildi nú aðeins minnast á þetta að gefnu tilefni í sambandi við hallann á áætluninni. Mér virðist, að það hefði verið nauðsynlegt að greiða að fullu upp hallann frá 1970, sem var 70.3 millj. kr., en ekki aðeins 17 millj. og þá hefði hæstv. ráðh. verið í samræmi við það, sem gerðist hjá fyrrv. ríkisstj. En tekjurnar, sem um er að ræða, leyfa þetta ekki, segir hæstv. ráðh. og eins og þessu er stillt upp, þá kemur það nú í ljós, að það virðist tæplega vera.

Ég vil drepa hér á sérstaka lánsfjáröflun, sem er á bls. 1, þ.e. liðurinn 1.2.3, sérstök lánsfjáröflun, 50 millj. kr. Út af fyrir sig er ekkert við það að athuga, að hæstv. ríkisstj. afli lánsfjár með eðlilegum hætti til langs tíma og með góðum kjörum. En það er eftirtektarvert, að þessar 50 millj. kr. eru ekki í því frv. til framkvæmdaáætlunar, sem hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir, fyrir fáum dögum hér í hv. Alþ. Ég hef verið að leita fyrir mér um það, hvort heimild væri fyrir þessari lántöku, og mér hefur gengið erfiðlega að fá svör við því, en ég held, að hún sé ekki fyrir hendi. Og þess vegna vil ég vekja athygli á því, að það er náttúrlega nauðsynlegt að afla þessarar heimildar og taka þennan lið þá inn í framkvæmdaáætlunarfrv., sem nú liggur fyrir Alþ. til afgreiðslu. Þetta er aðeins ábending frá mér, því að ég geri ráð fyrir því, að það verði nauðsynlegt að afla fjárins, eins og gert er ráð fyrir hér í till.

Hæstv. ráðh. talaði um hraðbrautirnar, að hæstv. ríkisstj. vildi halda áfram hraðbrautalagningu. Það er út af fyrir sig virðingarvert, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki vilja stíga stórt spor aftur á bak í því efni. Hæstv. ráðh. gerði samanburð á því, sem lagt væri til hraðbrauta á áætlunartímabilinu 1972—1975, og því, sem hefði verið varið til hraðbrauta úr Vegasjóði á fyrra tímabilinu. Sá samanburður getur ekki verið raunhæfur, vegna þess að hraðbrautagerð byrjaði á árinu 1970 og byrjaði meira að segja ekki með fullum hraða þá, byrjaði ekki með fullum hraða fyrr en á árinu 1971. Og það, sem nú er verið að vinna að hraðbrautum. er eftir þeirri áætlun, sem gerð var af fyrrv. ríkisstj. og fyrir það fé, sem fyrrv. ríkisstj. aflaði m.a. með lánum úr Alþjóðabankanum. Hér í þessari till. er ekki gert ráð fyrir neinum lánsheimildum til hraðbrauta á árunum 1973, 1974 og 1975, en hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að það væri í athugun að taka 300 millj. kr. lán, til þess að hraðbrautagerð gæti orðið á næstu árum með eðlilegum hætti. Og ég er samþykkur hæstv. ráðh., að það er nauðsynlegt að taka lán til þessara framkvæmda. Hvort 300 millj. verða nóg upphæð í því skyni, um það vil ég ekki fullyrða neitt nú, en ég held, að við verðum að hafa í huga, að vegagerðarkostnaður hefur hækkað mikið nú og ekki horfur á öðru en að hann fari hækkandi áfram. Og ég held, að það sé því eðlilegra að auka fé til framkvæmda í hraðbrautum, þar sem umferðin er mest, um leið og áherzla er lögð á það að gera landshlutaáætlanir og verja miklum fjármunum þannig. Þannig fæst nú frekar samræmi í hlutina en annars hefði orðið. Verðhækkanir hafa vitanlega orðið á þessum hraðbrautum, sem verið er að vinna að núna, og lýsti hæstv. ráðh. því, í hverju það lægi, og hef ég ekkert við það að athuga. En það er til ábendingar fyrir fjvn., að það er ekki gert ráð fyrir lánsheimildum í till., eins og hún nú liggur fyrir, og þarf að athuga það.

Hæstv. ráðh. minnti á það, að lán Vegasjóðs hefðu verið yfirtekin, og nemur það 163.1 millj. kr. En ég vil minna á, að ríkissjóður hafði áður yfirtekið meginhlutann af þeim lánum, sem á Vegasjóði hvíldu. Og árið 1971 greiddi ríkissjóður 101.3 millj. kr. af þessum ástæðum. En þetta er eðlilega hærra 1972, vegna þess að ný lán voru tekin og vextir og afborganir af þeim falla til á árinu 1972. Hér er ekki um neina stefnubreytingu að ræða. Hæstv. samgrh. heldur áfram á þeirri braut, sem áður hafði verið mörkuð í þessu efni.

Það er ljóst, að með því að auknar eru framkvæmdir eftir landshlutaáætlunum, þá verður það fjármagn, sem varið er til vegaframkvæmda í heild, bæði með framlögum úr Vegasjóði og með lántökum, tiltölulega mikið. Það eru 1.745 millj. kr. á árinu 1972, en þetta voru á árinu 1971 1.307.1 millj. kr. Hækkunin er í því fólgin, að fé til landshlutaáætlana hefur hækkað og alveg nýtt komið þarna til, sem hér er reiknað. Það eru 100 millj. kr. á Skeiðarársand, sem gert er ráð fyrir, að verði samtals 500 millj. kr. kostnaður. Það eru 100 millj. kr. til Norðurlandsáætlunar, sem gert er ráð fyrir, að verði 600 millj„ og það eru 75 millj. kr. til Austurlandsáætlunar, sem gert er ráð fyrir, að verði samtals 360 millj.

Samkv. þessari till. er gert ráð fyrir, að það verði til ráðstöfunar í fjvn. 74.1 millj. kr., þar af 38.7 millj. af lánsfé og 35.4 millj. samkv. afgangi úr Vegasjóði, og er það nú út af fyrir sig gott að hafa eitthvað til skiptanna, ef það er þá raunverulegt. En það er svona tæplega hægt að tala um, að það sé raunverulegt, þegar ýtt er á undan sér greiðsluhalla frá árinu 1970. Það er ekkert við því að segja, þótt greiðsluhalla frá árinu 1971 væri ýtt áfram, en frá árinu 1970 er ekki raunverulega verjandi.

Það er út af fyrir sig gott einnig, ef hægt er að auka fé til vegaviðhaldsins. Og hér er talsverð hækkun, það er úr 250 millj. kr. í 355 millj. Hæstv. ráðh, sagði, að miðað við vísitöluna væri það sama sem 290 millj., en ekki 355. En þess ber að geta, að útlit er fyrir, að vísitalan muni hækka meira á þessu sumri, og ekki enn vitað, hvað hún verður t.d. 1. sept., en að vegagerð er verið að vinna allt sumarið og langt fram á haust, og því er nú ekki um eins mikla hækkun á þessum lið að ræða og hæstv. ráðh. talaði um. En það skal alveg viðurkennt, að nauðsynlegt er að hækka viðhaldsféð, eftir því sem unnt er.

Þá er hér veggjaldið á Reykjanesbraut. Það gefur nettó 18 millj. kr. á árinu 1972 og 19 millj, kr. á árinu 1973 samkv. þessari till. og áætlun, og er því gert ráð fyrir af hæstv. ráðh., að þetta veggjald verði tekið áfram allt tímabilið út. Nú vil ég minna á það, að á s.l. ári gaf ég yfirlýsingu um það, bæði í blöðum og hér á hv. Alþ., að ég mundi beita mér fyrir því að fella veggjaldið niður frá 1. jan. 1973, og taldi, að það væri ekki lengur eðlilegt að taka þetta gjald og reyndar hefði verið miðað að því að fella það niður, þar sem sama krónutala væri nú greidd af umferðinni og var, þegar byrjað var að taka veggjaldið. Ef þetta gjald hefði verið hugsað til frambúðar, þá hefði vitanlega verið eðlilegast að hækka það í krónutölu í samræmi við hækkað verðlag og kaupgjald í landinu.

Hæstv. ráðh. er vitanlega ekkert bundinn við þessar yfirlýsingar mínar. Ég skal alveg viðurkenna það. En hæstv. ráðh. er bundinn við meiri hl. Alþ., og það er það, sem verður að reyna á nú, hvort meiri hl. Alþ. vill halda þessu veggjaldi. Og ég veit, að hæstv. ráðh. unir því ósköp vel að þurfa að lúta meiri hl. Alþ., ef hann er á annan veg heldur en það, sem hér hefur verið lagt til. En á þetta verður að reyna. Ég ætla ekkert að fullyrða um það, hver meiri hl. Alþ. er í þessu efni, en á þetta verður að reyna. Og það er vegna þess, að ég tel að þegar vegaféð er komið upp í nærri 2 milljarða kr., þá sé hér um svo litla upphæð að ræða, að það skiptir engu í vegaframkvæmdum yfirleitt. Hér er aðeins um 1% að ræða af því fjármagni, sem varið er til vegaframkvæmda á þessu ári. Það er þess vegna miklu frekar um „prinsíp“mál að ræða hér en það, hvort hér eigi að vera meiri eða minni vegaframkvæmdir. Það er ástæðulaust að fjölyrða meira um þetta nú af minni hálfu, en eins og ég sagði, þá hlýtur að reyna á það nú, hvort meiri hl. er fyrir því á Alþ. að taka þetta veggjald áfram eða ekki.

Talað var um það, að vegagerðarvísitalan mundi hafa hækkað um 11.4% 1. júní n.k. miðað við sama tíma árið 1971, en eins og ég sagði áðan, þá veit vitanlega enginn, hver hækkunin verður að meðaltali á þessu ári. Því miður eru horfurnar þannig, að það lítur út fyrir, að vegagerðarvísitala eins og verðlagsvísitalan og kaupgjaldsvísitalan hækki til muna meira á árinu en þetta, því að ekki hefur enn sézt, að hæstv. ríkisstj. sé að reyna að koma í veg fyrir það, að dýrtíðarskrúfan haldi áfram að snúast.

Hæstv. ráðh. lýsti því áðan, hverjar tekjurnar væru og tekjuöflunin. Nú er það sýnilegt hér, að ríkissjóður leggur fram 200 millj. kr. til Vegasjóðs. En á fyrrv. vegáætlun voru þetta 47 millj. kr. Hækkunin er þess vegna 153 millj. kr. Af þessu eru 100 millj. kr. hinn svo kallaði bílatollur, sem lagður var á í s.l. mánuði. Og eins og till. er orðuð, er gert ráð fyrir, að þessi bílatollur haldist allt áætlunartímabilið út. Þykir mér þó ólíklegt, að það verði, vegna þess að bifreiðar eru tollaðar hærra hjá okkur en í nokkru öðru landi, og er þó bifreiðin á Íslandi enn þá nauðsynlegri en annars staðar, þar sem hún er svo að segja eina samgöngutækið, sem við getum notað á landi.

Í ársbyrjun 1970 var hið svo kallaða innflutningsgjald, 60% af fólksbílum, fellt niður. Þá var einnig lækkaður tollur á vörubifreiðum, jeppum og sérleyfisbifreiðum. Þetta gerði fyrrv. ríkisstj., vegna þess að hún skildi það, að nauðsynlegt var fyrir Íslendinga að hafa bifreiðar. Og hún skildi það einnig, að það var enginn gjaldeyrissparnaður í því að hafa bifreiðarnar það dýrar, að fólk gæti raunverulega ekki endurnýjað þær. Sumir hafa lifað í þeirri villutrú, að það væri gjaldeyrissparnaður að því að hindra innflutning á bifreiðum. Þetta er mesti misskilningur, og sýnt hefur verið fram á það, að ef ekki er unnt að endurnýja bifreiðar með eðlilegum hætti, þá verður viðhalds- og viðgerðarkostnaður óeðlilega mikill. Þá verða kaup á varahlutum óeðlilega mikil, en það hefur verið sýnt fram á það, að varahlutir, sem eru fluttir inn sem varahlutir, eru allt að því tíu sinnum dýrari en þegar þeir eru keyptir með bílnum. Og svo er öll sú vinna, sem fer í viðgerðirnar, og sóun á verðmætum, sem því fylgir. Mér þykir ólíklegt, að þessi hái tollur verði viðvarandi í næstu fjögur ár, enda þótt núv. ríkisstj. hafi ekki séð aðra möguleika til fjáröflunar en þetta.

Þegar verið var að afgreiða fjárlögin á s.l. hausti, benti ég á það, að framlag ríkissjóðs þyrfti að vera 300 millj. kr., til þess að hægt væri að koma vegáætluninni saman með eðlilegum hætti, og ef það hefði verið gert, þá hefði verið hægt að borga upp hallann frá árinu 1970, og þá hefði ekki þurft að taka þetta 50 millj. kr. lán, sem ég minntist á áðan. Og það var full ástæða til þess að ætla það, að hæstv. ríkisstj. tæki inn á fjárlög þessa árs það, sem nauðsynlega vantaði í Vegasjóðinn til þess að koma áætluninni saman með eðlilegum hætti. Ég segi, að það hafi verið eðlilegt, vegna þess að í marzmánuði og aprílmánuði 1971, þegar rætt var um vegáætlun fyrir árið 1971 og bráðabirgðaáætlun fyrir þetta ár, þá létu margir þm. í sér heyra, og þegar ég ræddi um þessi mál, þá lýsti ég því, að það væri nauðsynlegt, að ríkissjóður legði Vegasjóði til fé, vegna þess að það væri ekki skynsamlegt að hækka benzínið, þungaskattinn eða gúmmígjaldið meira en gert hefði verið. Þetta voru allir þm. sammála um, sem tóku til máls í marz— og aprílmánuði 1971, þegar þá var verið að ræða um vegáætlun. Og eftir að ég hafði talað í þessu máli, sagði hæstv. núv. fjmrh., þáverandi hv. 3. þm. Vesturl., Halldór E. Sigurðsson, m. a.:

„Það gladdi mig því stórum, þegar ég heyrði það í ræðu hæstv. samgrh. hér áðan, að hann taldi, að leiðin til aukinna tekna nú yrði að vera aukið framlag ríkissjóðs, því að aðrir möguleikar væru ekki fyrir hendi. Ég vil taka undir þetta,“ sagði þm., núv. hæstv. fjmrh.

Enn fremur sagði sami þm. 5. apríl 1971 við framhaldsumr. um vegamál:

„Það er ljóst, eins og fram kom í ræðu hv. 2. þm. Vesturl., að brýna nauðsyn ber til að auka fé til vegaframkvæmda á næsta ári og vegáætlun fyrir það ár og næstu fjögur ár verður ekki afgreidd án þess að verulega aukið fjármagn komi til úr ríkissjóði.“

Það er ekki hægt annað en að minnast þessara umr. nú, þegar við erum að ræða um vegáætlun fyrir 1972—1975, þegar fé vantar til þess að greiða greiðsluhallann frá 1970 og þegar hæstv. ríkisstj. hefur ekki önnur ráð en að leggja þennan ósanngjarna toll á bifreiðarnar. Það er ekki hægt annað en að minnast þess, hvað núv. fjmrh. sagði hér í ræðustól fyrir rúmlega ári síðan, á meðan hann var þm., en ekki ráðh. En skoðun mín er nú alveg nákvæmlega sú sama og hún var fyrir rúmu ári, og ég geri ráð fyrir því, að flestir hv. þm., sem töluðu hér um þessi mál fyrir rúmu ári, hafi enn sömu skoðun. Ég býst við því, að einhver segi sem svo: Hvar átti að taka þetta fé? Ekki voru fjárlögin afgreidd með svo miklum greiðsluafgangi. En þegar fjárlög eru afgreidd upp á 16 milljarða kr., þá er ekki um það að ræða, að það hefðu verið einhver vandræði að koma fyrir þessum 300 millj., ef áhugi hefði verið fyrir því, þegar byrjað var á afgreiðslu fjárlaga. Það hefði vitanlega orðið að setja eitthvað annað til hliðar, sem ekki var eins nauðsynlegt. Og það segir sig sjálft, að þegar fjárlög eru nærri 16 þús. millj. kr., þá eru 300 millj. til vegaframkvæmda lítill peningur.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara með fleiri tilvitnanir frá þessum umr., en það væri hægt að gera. Þessar umr. liggja vitanlega hér frammi og eru mjög fróðlegar og forvitnilegar til samanburðar við það, sem nú hefur gerzt eftir rúmlega eitt ár.

Það má nú segja, að það sé ekki ástæða til að vera að fjölyrða um þessa áætlun miklu meira nú við fyrri umr. málsins. Þetta mál fer til fjvn. og verður vitanlega athugað þar. Og héðan af er ekki um það að ræða að fá fé úr ríkissjóði til þess að fylla upp í skörðin á vegáætlun fyrir árið 1972. En vegáætlun má endurskoða fyrir árin, sem fram undan eru, og við skulum vona, að þá verði ráð til þess að fella niður bílaskattinn og að greiða greiðsluhallann, þannig að það verði aldrei ógreiddur greiðsluhalli nema frá einu ári, næsta ári á undan. Og um veggjaldið á Reykjanesbrautinni ætla ég ekki að fjölyrða meira heldur að þessu sinni, vegna þess að það hlýtur að koma til álita fjvn. og Alþ., hvort talið er rétt og eðlilegt að hafa það áfram.

Það mun kannske einhver segja, að hraðbrautirnar séu aðeins í einum landshluta. Þær séu á Reykjanesi, þær séu út frá Reykjavík, austur fyrir fjall og á Vesturlandsvegi, og þess vegna væri eðlilegt að taka veggjald kannske af öllum þessum vegum. En ég vil minna á, að jafnvel þótt það væri gert að taka veggjald af öllum þessum vegum, þá er ekki um nema tiltölulega lága upphæð að ræða, sem hægt væri að innheimta miðað við allt það fjármagn, sem til vegamála fer nú í heild. Þess ber að geta einnig, að 70% af bifreiðaeign landsmanna er á þessu svæði, og er því rökrétt að álykta, að 70% af þeim tekjum, sem Vegasjóður fær, komi af þessu svæði, þ.e. Rangárvallasýslu, Árnessýslu, Reykjanesi og Reykjavík. En þegar athugað er, hvað þetta svæði fær frá Vegasjóði, þá eru það 38.5% miðað við árið 1970. Það getur vel verið, að þrátt fyrir þessar tölur finnist einhverjum samt sem áður eðlilegt að skattleggja þetta svæði enn meira til þess að yfirfæra til annarra landshluta. Það er vitanlega alltaf matsatriði. En þegar tekjur Vegasjóðs eru að mestu leyti fengnar með benzíngjaldi, þungaskatti og gúmmígjaldi, þá verða tekjur Vegasjóðsins að koma frá bifreiðaeigendunum og þaðan, sem bifreiðarnar eru flestar. Mér finnst það ánægjulegt, að landshlutaáætlanir eru gerðar til þess að byggja upp samgöngur og atvinnulíf í hinum ýmsu landshlutum. Og þetta er gert, vegna þess að það er vilji Alþ., að það skuli gert, og um það hefur ekki verið ágreiningur. Þess vegna er það, að þegar um veggjaldið verður rætt á Reykjanesbraut og hvort það skuli koma annars staðar, þá er eðlilegt að hafa í huga það fjármagn, sem notað er til vegaframkvæmda um allt land, bæði úr Vegasjóði og með sérstakri lánsfjáröflun. Veggjald var eðlilegt, þegar það var sett á, á meðan Reykjanesbraut var eini góði vegurinn í landinu, sem tengdi saman þéttbýlið suður með sjó og Reykjavíkursvæðið. Það tengdi það saman. Og það var eðlilegt, að á meðan þetta var eini vegurinn, þá væri gjald lagt á hann. En þegar fleiri vegir koma til, sem teljast sambærilegir, vegir, sem ekki tengja saman heil byggðarlög, eins og Reykjanesbrautin gerði, þá kemur allt annað viðhorf til þessara mála, vegna þess að innheimta t.d. á Vesturlandsvegi og Austurlandsvegi hlýtur að verða talsverðum erfiðleikum bundin og miklu meiri erfiðleikum bundin en á Reykjanesbraut. Og ég geri ráð fyrir því, að jafnvel þótt Vesturlandsvegurinn verði kominn upp í Hvalfjarðarbotn, þá þyki þeim, sem fara vestur á Snæfellsnes eða norður í land harla hart að þurfa að greiða skatt, þótt þeir fari þennan litla hluta af leiðinni á góðum vegi. Og ég geri einnig ráð fyrir því, að þeir, sem fara austur í Skaftafellssýslu og austur í Rangárvallasýslu, verði ekki ánægðir með það að greiða skatt, jafnvel þótt vegurinn væri kominn austur að Þjórsá, vegna þess að meiri hluti vegarins hjá mörgum vegfarendum verður eftir sem áður malarvegur. En þetta er eins og eg sagði allt til frekari athugunar, og meirihlutavilja Alþingis verða menn að lúta, og þeir, sem eru í minni hl., hafa lært að sætta sig við það. En við skulum vona, að Alþ. beri gæfu til að marka heilbrigða og rétta stefnu í þessum málum. Við skulum vona, að þessi vegáætlun fyrir árin 1972—1975 komist saman með eðlilegum hætti og að reynt verði að koma sér saman um ágreiningsatriðin, þannig að sem minnstir hnökrar verði þar á.