16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í D-deild Alþingistíðinda. (3920)

47. mál, málefni barna og unglinga

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Þegar fjórir hv. þm. Alþfl. með fyrrv. félmrh. í broddi fylkingar flytja till. til þál. um, að könnuð verði þörf landsmanna á auknum barnaheimilisbyggingum, þá liggur beinast við að skilja þá till. sem beiðni um úttekt á dagheimilismálum, eins og þau standa nú, eftir meira en áratugs valdaskeið Alþfl. Ég get ekki dulið þá skoðun mína, að með slíkri beiðni sýna þessir hv. þm. meira hugrekki en ég hefði í þeirra sporum talið skynsamlegt. Ég hef kvatt mér hljóðs til að reyna að koma til móts við flutningsmenn till. að þessu leyti, að svo miklu leyti sem það er unnt, en eins og till. sjálf er ljósastur vottur um, getur sú úttekt ekki verið tæmandi, einfaldlega vegna þess, að fyrrv. ríkisstj. tók engri áskorun um að sinna þessum málum. Þær athuganir, sem gerðar hafa verið, eru frá einkaaðilum komnar, ekki stjórnskipuðum nefndum. Sannleikurinn er sá, að hörmungarástandið í dagheimilismálum er orðið svo langvinnt, vanræksla fráfarandi ríkisstj. í þessum málum svo gegndarlaus, að skaðinn verður seint eða aldrei bættur.

Á síðasta áratug var á þrem þingum lagt fram frv. hér á hæstv. Alþ. um aðstoð ríkisins við byggingu og rekstur almennra barnaheimila og um fóstruskóla. Flm. voru í öll skiptin tveir þm. Alþb., þeir Einar Olgeirsson og hv. 10. landsk. þm., Geir Gunnarsson. Árið 1966, í þriðja skiptið sem frv. kom fram, og í það skiptið komst það lengst áleiðis hér á þingi, lögðu fulltrúar Alþb. og Framsfl. í menntmn. til, að það yrði samþ., enda höfðu þau kvennasamtök, sem fengu frv. til umsagnar, eindregið hvatt til þess. Frv. dagaði uppi. Af einhverjum ástæðum megnaði það ekki að vekja þann áhuga þm. Alþfl., sem nú er nýkviknaður. Af sanngirnisástæðum ber þó að taka fram, að þrír af fjórum flm. þessarar till., sem nú er til umr., áttu þá ekki sæti á Alþ., en hið sama verður ekki sagt um hv. 1. landsk. þm., Eggert G. Þorsteinsson.

Eins og nú standa sakir hrannast nöfnin upp á biðlistum dagheimila og leikskóla hér í borg. Í marz síðastliðnum voru 252 börn á biðlista dagheimilanna. Í septemberlok var talan komin niður í 208. En frá því að sú talning var gerð hefur enn fjölgað á biðlistum og fjölgar jafnt og þétt samkvæmt þeim upplýsingum. sem ég hef aflað mér hjá félagsmálaráðgjafa Barnavinafélagsins Sumargjafar. Þann 1. sept. var svo ástatt hjá Félagsmálastofnun Reykjavikurborgar, að 65 börn biðu eftir því, að einhver einkaheimili gætu tekið þau að sér, en þá átti Félagsmálastofnunin völ á níu heimilum. sem tjáðu sig fús til að annast þessi börn. Níu heimili og 65 börn á biðlista, enda var Félagsmálastofnuninni um megn að leysa þessi vandkvæði.

Svo sem fram hefur komið í dagblöðum nýlega, telur Fóstrufélagið, að þetta form dagvistunar hafi ekki náð tilgangi sínum. Á slíkum heimilum verða aðstandendur barnanna að greiða fullt gjald fyrir, og það liggur í augum uppi, að einstæðri móður í láglaunastarfi með kannske 15 000 kr. á mánuði er um megn að greiða 4.000—4.500 kr. á mánuði fyrir dagvistun barnsins. Enn er ótalin hin merka könnun Rauðsokkahópsins í Kópavogi, en niðurstöður hennar voru kynntar á síðastliðnu vori. Sú könnun sýndi, að dagheimilispláss vantar fyrir 250 börn þeirra mæðra, sem þegar vinna úti, eða a.m.k. fimm dagheimili, ef miðað er við fullan vinnudag. Ef taldar eru með mæður, sem gjarnan vildu vinna utan heimilis, ef þær hefðu örugga gæzlu fyrir börn sín, vantar 590 pláss til viðbótar í Kópavogskaupstað. Þeirri könnun, sem Reykjavikurborg efndi til á síðastliðnu vori, er ekki enn lokið, en niðurstöðu mun að vænta innan skamms.

Tölur af biðlistum segja þó ekki nema hálfa sögu, enda þótt þær segi ljóta sögu. Á biðlista komast aðeins þau börn, sem eru á framfæri einstæðs foreldris, eða þau, sem eiga föður við nám. Giftar mæður eiga þess engan kost að fá inni á dagheimilum fyrir börn sín, nema þá að þær séu að vinna fyrir námskostnaði eiginmanns sins. Dagheimilin hafa þó gert eina undantekningu í þessum efnum. Giftar fóstrur í starfi hafa fengið inni á dagheimilum fyrir börn sín. En það lýsir kannske bezt því ófremdarneyðarástandi, sem nú ríkir, að stjórn Sumargjafar greip til þess örþrifaráðs á síðastliðnu hausti að segja þessum börnum upp plássi og reyna fremur að vista þau á leikskólum til þess að rýma dagheimilisplássin fyrir öðrum börnum. sem samkvæmt reglunum áttu skýlausari rétt. Frá þessu ráði var þó horfið vegna eindreginna mótmæla Fóstrufélagsins. Þessi ráðstöfun hefði orðið til þess, að fóstrurnar hefðu orðið að segja upp starfi sínu, og það liggur í augum uppi, að þegar stjórn Sumargjafar kallar það yfir sig af ýtrustu neyð að missa ómetanlega starfskrafta, þá er ástandið alvarlegra en nokkrar tölur geta gefið til kynna. Þetta dæmi er óvenjulega glöggt, en í því kristallast þau viðhorf, sem Alþfl. hefur lagt blessun sína yfir á undanförnum áratug, að menntun og starfskraftar kvenna verða allt í einu einskis virði fyrir þjóðfélagið um leið og þær ganga í hjónaband, enda þótt hv. 1. landsk. þm. virðist nú kominn á aðra skoðun af ræðu hans að dæma hér áðan, og er það vissulega ánægjulegt.

Stefnan, sem ríkt hefur fram að þessu í dagheimilismálum, hefur beinlínis virt að vettugi jafnan rétt karla og kvenna til náms og starfs, og er þá enn órædd sú hlið, sem snýr að börnunum sjálfum. Það er löngu viðurkennt í þeim menningarlöndum. sem næst okkur eru, að barnaheimili eru hvorki ölmusa eða geymsla, þar sem börn eru geymd eins og bílar í bílskúrum eða fé í rétt, heldur mikilvægar uppeldisstofnanir. Þar er undirstaða lögð að félagslegum og tilfinningalegum þroska þeirra. Þar læra þau að umgangast sér óskylt fólk og taka tillit til annarra, sem koma kannske úr gjörólíku umhverfi, og þar er grundvöllurinn lagður að menningarlegum áhuga með vísum. kvæðum og söng. Allt hlýtur þetta að leiða til þess, að meira jafnræði verði með börnum innbyrðis, er þau síðar setjast á skólabekk.

Herra forsetl. Ég ætla ekki að verja lengri tíma til þess að tíunda ástandið eins og það er nú í barnaheimilismálum, sérstaklega þar sem fyrir liggur í grg. þessarar till. viðurkenning flm. á því, að þar hafi ekki verið unnið af myndarskap, en í henni stendur orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

Flm. till. þykir af þessum ástæðum brýn nauðsyn á því, að hið opinbera, þ.e. ríkið, láti fara fram heildar endurskoðun á þörf landsmanna í þessum efnum, með hliðsjón af marg endurteknum kröfum almennings um að koma betur til móts við þarfir æskunnar í landinu í þessum efnum.“

Ég tel mig geta fullvissað flm. um það, að þegar liggja fyrir skýlausar yfirlýsingar núv. ríkisstj. um, að hún muni koma betur til móts við þarfir almennings í þessum efnum en gert hefur verið fram að þessu. Í málefnasamningi ríkisstj. er skýrt kveðið á um, að sett verði löggjöf um hlutdeild ríkisins í rekstri og byggingu barnaheimila og séð fyrir fullnægjandi menntunaraðstöðu starfsliðs þeirra. Þá er einnig tekið fram í fjárlagafrv. fyrir árið 1972, að löggjöf um ríkisframlag til dagheimila verði lögð fyrir næsta Alþ. Það liggur í augum uppi, að slík löggjöf verður ekki til án þess, að nefnd starfi að undirbúningi hennar og taki um leið mið af þörfum landsmanna, giftra sem ógiftra. Ég tel mig hafa rétt til að upplýsa það, að hæstv. menntmrh. hefur þegar gefið þessum málum gaum. Ég hlýt að líta á þessa till. hv. þm. Alþfl. sem stuðning við þessa ákvörðun ríkisstj. og persónulega fagna ég þessum stuðningi, enda þótt ég geti ekki leynt þeirri skoðun minni, að liðsinni Alþfl. hefði verið vel þegið fyrr en nú.

Ég nefndi málefnasamninginn áðan. Í umr. um annað mál, sem hér var á dagskrá, átaldi hv. 1. landsk. þm. gamla og reynda þm. fyrir að hirta nýja þm. fyrir að sækja mál sín í málefnasamning ríkisstj. Hann lagði hins vegar ekkert bann við því, að nýir þm. áteldu gamla og reynda þm. fyrir það sama. Mér er þó ekki mest í mun að gera aths. við þessa till. vegna þess, að ákvæði um málið standi í málefnasamningnum. Allir eiga sína Biblíu, og það hefur fyrr hent, að menn hafi orðið kaþólskari en páfinn. Öllu alvarlegri er sú hlið, sem að almenningi snýr. Hér er um málefni að ræða, sem bæði ég og fjöldi annarra hef á undanförnum árum reynt að vekja athygli stjórnvalda á, að þyrftu úrlausnar við. Við höfum talað fyrir daufum eyrum, og vinnubrögð af þessu lagi, þegar þessir sömu menn koma nú fram örfáum mánuðum eftir að þeir hafa haft vald til þess að koma til móts við kröfur almennings og lagfæra þetta. verða einvörðungu til þess að rýra þá virðingu fyrir stjórnmálaflokkum og störfum Alþ., sem við viljum þó gjarnan halda uppi.