03.02.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í D-deild Alþingistíðinda. (3956)

84. mál, landgræðsla og gróðurvernd

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Í rauninni er óþarfi að fjölyrða meira um þetta mikilvæga mál, því að allur þingheimur virðist vera einhuga um að efla gróðurrækt og gróðurvernd og ríkisstj. hefur þegar tekið þetta mál föstum tökum með því að skipa nefnd ágætra manna, þannig að búast má við, að undirbúningur málsins sé farsællega til lykta leiddur.

Þó er hér aðeins örlítill agnúi á, sem mér finnst alveg rétt, að komi fram, sem ég vék litillega að s.l. þriðjudag. Það snertir samvinnu einstakra þm. og ráðh. Hér standa að þessari till. tveir þm., og hún hafði legið í þinginu í einn mánuð eða einn og hálfan mánuð, áður en hún kom til umr. í Sþ. Síðan þegar hún kom til umr. hér einn góðan veðurdag, þá fréttum við um kvöldið í útvarpinu, að skipuð hefði verið nefnd til þess að fjalla um sömu atriði og vakið var máls á í till. til þál. Þetta eru að mínu viti afskaplega óæskileg vinnubrögð, því að ég tel, að þá sé traðkað á þingmönnum.

Nú kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. e., að haft hefði verið samband við formann þess þingflokks, sem ég á sæti í, og dreg ég það ekki í efa. Hins vegar vil ég benda á, að mér er ókunnugt um, að þingflokksformaðurinn hafi flutt þessa till. Ef það varðar eingöngu að fá menn í þessa nefnd, er kannske eðlilegt að hafa samband við þingflokksformanninn. En hitt er svo það, sem ég er að vekja máls á, að það eru eðlileg og sjálfsögð vinnubrögð að athuga viðhorf flm. slíkrar till. varðandi skipun slíkrar nefndar, hvort þessir þm. hafi einhver ákveðin viðhorf til málsins og hvort þeir hafi eitthvað almennt til málanna að leggja. Hér kemur ekkert inn í þessa mynd þingflokksformaðurinn, enda er dálítið undarlegt, ef ráðherrar geta ekki talað við einstaka þm. nema gegnum millilið, sem heitir þingflokksformaður.

Ég er ekki að vekja máls á þessu út af persónusárindum, heldur bara út af því, að ég hef orðið var við það, að það virðist hafa tíðkazt hérna á Alþ., líka hjá fyrrv. ríkisstj., að þessi vinnubrögð væru viðhöfð. Það er þess vegna, sem ég vil endilega, að hér sé brugðið til betri vega, þannig að einstakir þm. séu ávallt hafðir með í ráðum, þegar málin þróast á þá lund, sem hér hefur gerzt í þessu tilviki. Þetta er sagt með öllu áreitnilaust af minni hálfu, en í þessum orðum mínum felst augljóslega von um það, að hér verði tekinn upp betri háttur.