17.12.1971
Neðri deild: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

119. mál, verðlagsmál

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr., það er aðeins örstutt aths. Það kom fram í ræðu eins hv. þm. hér áðan, að hann væri í raun og veru fylgjandi þeirri brtt., sem ég hef lagt fram um þetta mál, en hins vegar teldi hann standa í vegi fyrir samþykkt þeirrar till. samkomulag, sem enn væri í gildi. Ég vil benda á, að mér er fullkunnugt um, hvernig þessi núv. skipan verðlagsnefnda kom til. Hún var gerð í sambandi við lög, sem sett voru 1967, og gert var ráð fyrir að stæðu í eitt ár, og mér er ómögulegt að sjá, að það, sem var gert ráð fyrir, að gengi úr gildi eftir eitt ár, þegar samkomulagið var gert, sé í gildi fyrir árið 1972 eða eftirleiðis. Þess vegna finnst mér einungis, að þessi viðbrögð gefi hálfgerða skopmynd af starfsháttum Alþ., hvílíkt ofurkapp er stundum lagt á það að koma í veg fyrir, að saklaus lítil till., sem tvímælalaust er til bóta, nái fram að ganga, aðeins af því, að hún er frá stjórnarandstæðingi.