11.11.1971
Sameinað þing: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í D-deild Alþingistíðinda. (4140)

14. mál, samgönguáætlun Norðurlands

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég verð nú sannast sagna að segja, að ég hafi hlustað með nokkurri forundrun á þá hv. tvo þm., sem talað hafa bæði hér í dag og svo við fyrri umr. um þessa till. hér á hinu háa Alþingi. Ég hef satt að segja verið að íhuga það, sérstaklega eftir að fyrri ræðumaðurinn, hv. þm. Ingvar Gíslason, flutti sína ræðu, hvað væri að mönnunum og hvað hér væri eiginlega að gerast, sem væri svona óskaplegt, að menn misstu nánast á sér alla stjórn, því að sá hógværi maður, sem þar á hlut að máli, er hv. þm. Ingvar Gíslason. Ég hef sjaldan heyrt hann sletta eins úr klaufunum og í sambandi við þetta mál, þegar hann ræddi það hér síðast. Það er nú með minn ágæta vin, hv. 4. þm. Norðurl. e., að hann á það dálítið til að hvessa sig, svo að mér kemur það ekki svo mjög á óvart, en það var líka enginn smáræðis gustur, sem frá honum kom núna yfir þeim ósköpum, að ég skyldi leyfa mér að eiga hlut að flutningi þessarar till. Ég þakka honum nú fyrir það, að hann taldi, að ég mundi hafa verið, að því er mér skildist, helzti ráðamaður um öll málefni kjördæmisins, a.m.k. vegamálin, í þessi 20 ár, sem ég hef verið hér á þingi, eða 21 ár. Því miður er það ekki svo. Það hafa nú fleiri komið þar við sögu, og ég dreg ekkert í efa, að þeir hafa viljað leggja þar gott til málanna, sem ég held, að ég hafi fyrir mitt leyti viljað gera líka. En látum það nú vera, og ég skal ekki heldur fara að rekja ástand vega í kjördæminu. Það var mjög vinsælt kosningamál í vor af hálfu þessara hv. þm. og raunar af fleirum, af því að það vildi svo til, að vegir urðu ófærir á ýmsum stöðum í okkar kjördæmi sem annars staðar vegna holklaka, sem kemur nú æði oft í vegi að vorinu og er ekkert nýtt, hefur gerzt áður á Íslandi, en í vor. Það þótti þá mjög hentugt að halda því fram, að þetta stafaði allt af því, hvað við hefðum vondan fjmrh., sem ekki hefði séð fyrir fé til þess að lagfæra þessa vegi. Og mér skilst, að þessir hv. þm. séu nú að innleiða hér þessar umr. á ný. Ég vil minna þá á, að það er nú ekki framboðsfundur hér núna, en hef að öðru leyti ekkert á móti því að ræða þessi mál.

Sannleikurinn er sá, að þó að auðvitað sé ótal margt ógert í vegamálum í okkar kjördæmi, og þess vegna er nú verið að tala um samgönguáætlun m.a., þá er það ekki vegna þess, að það hafi ekki margt verið gert þar á undanförnum árum, og ég vil jafnframt vekja athygli á því, sem þeir vita jafnt eins og aðrir hv. þm., að það er ekki fjmrh„ sem hefur skipt fé til vega hér á Alþ. Það hefur verið samstaða hér á Alþ. um langan aldur um skiptingu vegafjár, og það hefur verið aflað sérstaks fjár til vegagerðar í gegnum Vegasjóð, og það hefur verið samstaða um það innan okkar þingmannahóps. hvernig við ráðstöfuðum því fé, sem þar féll í okkar hlut. Á þessu tímabili hefur vissulega fé til vegaframkvæmda í landinu vaxið stórkostlega. Og ég held ekki, að við höfum verið þar sérstaklega afskiptir, og ég man ekki til þess, að þessir hv. þm. hafi haldið því fram. að við höfum verið órétti beittir af þingbræðrum okkar úr öðrum kjördæmum. Það hafa vissulega verið gerð stærri átök í vegamálum á Norðurlandi á síðustu 10 árum, en nokkru sinni áður hefur verið gert. Ef við tökum bæði þessi kjördæmi, sem þessi áætlun á við, þá hafa verið gerð þar stórkostleg átök, sem hafa tengt heil byggðarlög, sem áður voru einangruð. Má þar nefna bæði Múlaveg og Strákaveg og í þriðja lagi Kísilveg. Þó að hann hafi verið lagður í sérstöku skyni, þá er hann stórkostleg samgöngubót í Þingeyjarsýslu, og í Þingeyjarsýslum sérstaklega, hefur verið um að ræða stórfelldar umbætur í vegamálum.

En það er ekki þetta, sem er kjarni málsins, heldur spurningin um afstöðu til þessarar þáltill., sem hér liggur fyrir og forundrun þessara hv. þm., að ég skuli leyfa mér að vera 1. flm. að henni. Það er mál út af fyrir sig, hvort hv. þm. og stjórnarliðar hér vilja láta vísa þessari till. frá. Því verður kannske veitt athygli. En sleppum því. Það sýnir, að ekki virðist vera sérlega mikill áhugi á því, að málið nái fram að ganga. En að halda því fram, sem ég tel vera meginatriði málsins og vil leggja sérstaka áherzlu á, að ég hafi hér sýnt einhverja sérstaka viðleitni til skrumkennds málflutnings með því að flytja þetta mál, eins og ég hef hér gert og sé að ætlast til meira af núv. ríkisstj. en fyrrv. ríkisstj. hafi gert, þá er það algerlega rangt. Ég treysti núv. ríkisstj. þá betur, en þessir hv. þm., því að ég er ekki að fara fram á nokkurn hlut annan en það, sem fyrrv. ríkisstj. hefur gert í sambærilegum tilvikum. Það liðu ekki nema tvö ár á milli þess, að útvegað var fé til atvinnumálaáætlunar Norðurlands, mjög veruleg fjárhæð í einu lagi og þangað til hafizt var handa og framkvæmd fjáröflun til Austurlandsáætlunar. Það er rétt, að hún á að vinnast á fimm árum, og eru áætlaðar 60 millj. á ári. Fyrstu 60 millj. voru útvegaðar á þessu ári. Þá lá þessi áætlun fyrir, en þær voru útvegaðar áður en áætlunin lá fyrir. Það var hins vegar gert ráð fyrir því, að hún yrði tilbúin það snemma, að hægt væri að vinna eftir henni nú í ár, og það hefur verið gert ráð fyrir því, að áætlunin, varðandi Norðurland, yrði það langt komin á þessum vetri, að það væri fyllilega auðið að byrja á fyrsta áfanga hennar á næsta ári. Þannig að hér er ekki verið að gera annað, en það að fara fram á, að hæstv. núv. ríkisstj. og hæstv. núv. fjmrh. geri nákvæmlega það, sem féll í minn hlut að gera og með sama hraða, þannig að mér er óskiljanlegt, hvernig það á að teljast einhver dæmalaus sýndarmennska að hreyfa því máli nú og leyfa sér að gera það strax í byrjun þings. Það lá svo sem ekki á þessu. Þetta var allt saman geymt í stjórnarsáttmálanum. Ég held, að það sé nú allt milli himins og jarðar í þeim sáttmála, þannig að manni gæti nú dottið í hug, að eitthvað af því yrði að geymast til næstu ára og yrði ekki allt framkvæmt í vetur. Og ég man ekki til þess, að þar standi nokkur skapaður hlutur um það, að það eigi að framkvæma sérstaka vegáætlun fyrir Norðurland. Það er talað um ráðstafanir í byggðamálum og það mál er ekki enn farið að sjá dagsins ljós. Og það er ekki í fjárlagafrv. a.m.k. að finna nokkra einustu fjárhæð í sambandi við ráðstafanir í því skyni. Ef menn telja, að það sé hneyksli, ef þm. leyfa sér að hreyfa málum, sem hafa grundvallarþýðingu fyrir þeirra kjördæmi, af því að það standi einhvers staðar í þessum dæmalausa stjórnarsáttmála, að einhvern tíma eigi að vinna að þessum málum, þá held ég, að það sé eins gott fyrir þm. að fara heim, vegna þess að ég held, að öll hugsanleg mál, sem geta komið til kasta Alþingis, sé að finna í þessum stjórnarsáttmála. Hitt er svo allt annað mál, hvort nokkrum manni dettur í hug, að hann verði nokkurn tíma framkvæmdur. Það á sagan eftir að sýna. En ég verð að biðja þessa hv. ágætu samþingismenn mína og vini að afsaka það, þó að ég geti ekki tekið það gott og gilt og kyngt því alveg og beðizt afsökunar, að ég hafi leyft mér að hreyfa þessu máli, af því að það standi til, að ríkisstj. ætli einhvern tíma að gera þetta.

Furðan yfir því, að ég hafi ekki hreyft þessu máli fyrr, það er atriði út af fyrir sig. Ég hef talið í sambandi við áætlanir, sem gerðar hafa verið, — að vísu er það rétt, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði, að ég hef oft áður sagt, að það mættu ekki vera allt of margar áætlanir í gangi í einu, — en ég hef talið, að það ætti að reyna að hraða þeim, og einhvers staðar hef ég séð í stjórnarsamningnum, að talað sé um, að það eigi að raða verkefnum eftir mikilvægi þeirra. Ég held, að ég muni þetta rétt. Það eru ekki höft, það er röðun. Það hefur verið reynt að gera þetta með þær áætlanir, sem gerðar hafa verið í sambandi við byggðaþróunina. Það var sammæli allra á sínum tíma, að vegasamgöngur væru verstar á Vestfjörðum. Og ég held, að það hafi verið rétt. Þess vegna var byrjað á samgöngubótum fyrir Vestfirði. Það var líka samdóma álit manna, að atvinnuástand væri verst á Norðurlandi, þegar atvinnumálakafla Norðurlandsáætlunar var hrundið af stokkunum. Um það var samstaða hér. Og þó að ég sé algerlega sammála um það, að það þurfi að gera mikið í vegamálum Norðurlands, þá verða mínir ágætu samþm. að virða mér það til vorkunnar, að ég var þeirrar skoðunar, að það væri rétt, að ástand vega væri verst á Austurlandi og samgöngubætur þar í vegamálum brýnastar og þar væri erfiðast ástand í þeim efnum. Þess vegna var samgönguáætlun Austurlands tekin, enda í rauninni ekki hægt af okkur Norðlendingum að ætlast til þess, að tvær norðlenzkar áætlanir væru teknar í röð, atvinnumálaþáttur Norðurlandsáætlunar og samgönguáætlunin, heldur yrði þar eitthvað inn á milli að koma. Hins vegar er það ljóst og ég skal ekki fullyrða um það, sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði hér, í hvaða mánuði þessi áætlun verður til. En ég hef kynnt mér það nokkuð og það er ekki ástæða til að halda, að það þurfi að taka mjög langan tíma, a.m.k. ekki vegáætlunin, vegna þess að margvíslegar athuganir voru gerðar á nauðsynlegum vegasamgöngum einmitt í sambandi við Austfjarðaáætlun. Því að eins og ég gat um í frumræðu minni um þetta mál, þá er auðvitað grundvallaratriði fyrir Austfirðinga, að viðunandi samgöngubætur verði einnig á Norðurlandi, til þess að hafa tengsl hér suður á bóginn. Ég hygg því, að það sé ekkert óraunhæft að tala um það, að þessi mál geti verið komin það langt áleiðis, að hægt sé að vinna að upphafi þessarar áætlunar á næsta sumri.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði, að ég hefði nánast hlegið að sér, þegar hann hefði orðað við mig í fyrra lántökuheimild fyrir Norðurland, fyrir Dalvíkurveg. Ég man nú ekki eftir þessum hlátri mínum, en ég sagði hins vegar þessum hv. þm. það, að ég þekkti það vel til mála, að ég hefði ekki trú á því, að hægt væri að fá lántökuheimild fyrir Dalvíkurveg einan, nema það kæmu vegir í öðrum kjördæmum líka, m.a. á Norðurlandi. Og það kom líka á daginn. Það var ekkert samkomulag í fjvn. um annað og þó að ég sé nú voldugur og hafi verið, eftir því sem halda má eftir orðum þessara tveggja ágætu þm., sem ég met auðvitað mikils og er stoltur yfir að heyra og hefði átt að geta ráðið flestu, þá ræð ég bara ekki öllu hér á Alþ. og ekki yfir vinum mínum í fjvn. Það kom auðvitað á daginn, að það þurfti að leggja fé í einn veg í hverju kjördæmi. Hitt er svo allt annað mái. sem ég benti á þá, að ef farið er að vinna eftir áætlun, alveg eins og átti sér stað um Austfjarðaáætlun, núna í sumar, þá er hægt að fá samstöðu um það. Það var aflað sérstaks fjár til þeirrar áætlunar, og þeir fengu að auki sitt venjulega vegafé. Þannig hlýtur það að verða, þegar áætlun er komin. Þá er það aukaframlag, sem menn hafa hingað til alltaf viðurkennt, að yrði að afla, og aðrir hafa ekki gert kröfu til að fá sambærilegt í sinn hlut. Þetta er munurinn á að vinna eftir áætlun eða að biðja um lántökuheimild í einn og einn veg, ef hv. þm. skilur þann mun, sem ég vona, að hann geri.

Að þetta hafi allt komið eftir dúk og disk, eins og hv. þm. Ingvar Gíslason sagði, og ekkert hafi nú gerzt í þessum málum fyrr en 15 þm. skrifuðu bréf, þá skulum við nú láta það liggja á milli hluta. Ég var ekki í minni frumræðu að þakka einum né neinum þetta mál og ég held, að ég hafi aldrei orðað það í minni frumræðu, að ég hafi unnið nein sérstök afrek í þessu máli. Ég gerði grein fyrir því þar áreitnislaust við alla, hvernig unnið hefði verið að byggðaáætlunum hér og að þessi áætlun væri sú næsta í áætlanaröðinni og að Atvinnujöfnunarsjóður hefði ákveðið, að þessi áætlun yrði gerð og yrði næsta verkefnið. Ég orðaði það ekki svo, að þetta væri mér að þakka einum í Atvinnujöfnunarsjóði. Ég veit ekki betur en þar sitji minn ágæti þingbróðir og samþingismaður Ingvar Gíslason, hv. þm., og hann stóð einnig að þessari samþykkt. Ég held, að við höfum ekki þurft neitt bréf 15 þm. né annarra til þess að hvetja okkur í því efni. Og hafi ég staðið mig svona dæmalaust illa að vera ekki búinn að gera þetta fyrr, af hverju höfðu þá ekki aðrir flutt till. um þetta fyrr, eða var ómögulegt að gera neitt í þessum málum nema ég hefði þar frumkvæði? Ég þakka traustið.

Nú skal ég ekki, herra forseti, lengja þessa umr. öllu meira. Ég neyddist þó til þess að taka til máls, sem ég hélt þó satt að segja, að ég mundi ekki þurfa að gera, vegna þess að ég taldi, að það væri naumast grundvöllur í jafn áreitnislausri till. og hér er um að ræða til þess að fara að efna hér til kosningafunda og endurtaka ræður, sem fluttar voru á fundum s.l. vor. En úr því að þessir hv. samþingismenn mínir kusu það, þá afsaka menn vonandi, að ég segi hér nokkur orð til svars, eins og ég hef gert.

Það hryggir mig mjög, ef það er skoðun þessara hv. þm., að þessi till. sé svo óraunhæf, að það eigi að víkja henni til hliðar í trausti þess, að ríkisstj. hefjist einhvern tíma handa um að hrinda þessu í framkvæmd. Það hryggir mig mjög. Og það verður að sjálfsögðu að koma á daginn á sínum tíma, hvort Alþ. fellst á slíka meðferð málsins. En ég mótmæli tvennu sérstaklega og ítreka það í þessu efni, annars vegar því, að hér sé verið, að sýna eitthvert yfirboð eða sýndarmennsku. Hér er um að ræða fullkomið samræmi við það, sem gert hefur verið og sem ég treysti hæstv. núv. ríkisstj. til að hafa sama áhuga á að framkvæma og fyrrv. stjórn. Það er ekki verið að ætlast til meira, og ég hef það traust á mínum eftirmanni, að það verði honum ekki neinn fjötur um fót að leysa þennan vanda. Hitt er svo annað mál, sem ég líka mótmæli, að mínum hv. eftirmanni sé sýnt það vantraust, sem kom fram hjá hv. þm. Ingvari Gíslasyni í hans ræðu, er hann taldi, að það hefði verið svo dæmalaus viðskilnaður í fjármálum ríkisins, að þar væri ekki af neinu að taka. Ef sá viðskilnaður hefði verið slíkur, þá væri ábyrgðarleysi hæstv. núv. fjmrh. með eindæmum. að hafa ausið út 650 millj. kr. án þess að útvega eyri í tekjur. Og ég vil ekki halda því fram, að slíkt ábyrgðarleysi sé til staðar. En það væri sannarlega, ef það væri rétt, sem hv. þm. Ingvar Gíslason sagði, að arfurinn hefði eingöngu verið ógreiddir reikningar. (Gripið fram í: Þeir eru margir.) Eru þeir margir, já? En hvernig er þá hægt að auki að eyða 650 millj., ef engin króna var til og ekkert nema ógreiddir reikningar í skúffunni? Það væri fróðlegt, ef hv. þm. Stefán Valgeirsson gæti búið búi sínu á þann hátt og fengið út úr því góða útkomu.

Ég skal svo ekki ræða meira um sýndarmennskuna. Ég vil aðeins óska hv. samþingismanni mínum. 3. þm. Norðurl. e. þess, að það eigi ekki eftir að sannast, að þau ágætu mál, sem hann hefur flutt hér á Alþ. á undanförnum árum, eigi eftir að daga uppi eftir að hann hefur fengið aðstöðu til að hafa áhrif á að koma þeim í framkvæmd í ríkisstj. Þetta er duglegur maður, og hann hefur borið fram ýmis eftirtektarverð mál, sem ekki hafa náð fram að ganga, vafalaust fyrir skilningsleysi okkar stjórnarliða. Er það ekki fyrst og fremst vegna þess? Varla hefur vantað áhuga þm. sjálfs til þess að koma þessu fram. Nú vildi ég vona hans vegna og ekki á neinn hátt saka hann um sýndarmennsku, eins og hann leyfir sér að gera við mig fyrir það, að ég hreyfi þessu máli hér, að það eigi ekki eftir að sannast á honum. að þessi mál gleymist, eftir að hann hefur fengið aðstöðu til þess að koma þeim í framkvæmd, eins og hann vissulega hefur nú.

Herra forseti. Ég skal ekki þreyta þolinmæði forseta meira. Ég býst við, að hann telji ræðu mína þegar vera orðna nógu langa, en tilefni hefur vissulega gefizt, og vonast ég svo til að þurfa ekki að taka frekari þátt í þessum framboðsfundi hér. Ég er alveg fús til þess að mæta þessum ágætu vinum mínum þar sem það á við.