06.04.1972
Sameinað þing: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í D-deild Alþingistíðinda. (4197)

46. mál, öryggismál Íslands

Sigurður Magnússon:

Herra forseti. Það hefur komið fram í þessum umræðum um öryggismálin, að forusta sjálfstæðismanna er enn við sama heygarðshornið, þegar vikið er að sjálfstæðismálum íslenzku þjóðarinnar. Sagan virðist ekkert hafa kennt henni, enn sem fyrr einkennir allan málflutning hennar takmarkalaus lotning fyrir bandarískri forsjá og öryggismál þjóðarinnar eru ætíð skoðuð frá bandarískum sjónarhóli, en íslenzkum viðhorfum gleymt. Enn sem fyrr halda þeir því blákalt fram, að með þessu túlki þeir meirihluta vilja íslenzku þjóðarinnar. Nú síðast í ræðu sinni áðan hamraði hv. 1. þm. Reykv. á þessu.

Í þessu sambandi er rétt að rifja upp, að í hvert skipti, sem tekizt hefur að framkvæma einstaka áfanga í sögu íslenzka hernámsins, hefur það verið gert að þjóðinni óspurðri með svikum og blekkingum. Þannig muna allir eftir svikum þjóðstjórnarinnar á sínum tíma, þegar Alþ. var kallað saman til að samþykkja orðinn hlut. Þessu fyrsta bandaríska hernámi fylgdu þó skilyrði af hálfu ríkisstj. þess efnis, að Bandaríkin skuldbindi sig til að hverfa með allan her héðan strax og núverandi ófriði er lokið, eins og segir í samningnum. Þetta loforð var auðvitað svikið. Sama gerðist, þegar Keflavíkursamningurinn var samþykktur, en þá var látið að því liggja, að samningurinn væri liður í niðurfellingu herverndarsamningsins frá 1941, en þegar til kom, var hér um dulbúinn varnarsamning að ræða, sem heimilaði bandaríska hernum full afnot af Keflavíkurflugvelli. Þá eins og alltaf síðan var hafnað kröfum almennings um þjóðaratkvæðagreiðslu. Alvarlegasta sporið var svo stigið með inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið 1949, en með þeirri ákvörðun var algjörlega vikið frá þeirri viðurkenndu hlutleysisstefnu, sem Íslendingar höfðu markað sér 1918 í fullveldisyfirlýsingu sinni. Tveimur árum síðar eða í maí 1951 var síðan hinum dulbúna herverndarsamningi frá 1946 breytt með undirritun herverndarsamnings við Bandaríkin á grundvelli Atlantshafsbandalagsins. Samningur þessi var þá gerður, án þess að Alþ. væri kvatt saman. Eins og allar tillögur sósialista um þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi afstöðuna til bandaríska hernámsins, hafa einnig allar tillögur þeirra fyrr og síðar um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þátttöku Íslendinga í NATO verið felldar.

Þau ólýðræðislegu vinnubrögð, sem hér hafa verið rifjuð upp og einkenna alla sögu íslenzka hernámsins, eru óskiljanleg, ef gengið er út frá því sem vísu, að meiri hl. þjóðarinnar hafi ætíð verið samþykkur þeirri utanríkisstefnu, sem Sjálfstfl. fylgir. Sannleikurinn er nefnilega sá, að allar þessar ákvarðanir hafa verið teknar þrátt fyrir harða andstöðu almennings.

Nú loksins eftir margra ára samfellda stjórnarþátttöku Sjálfstfl. er komin til valda ný ríkisstj., vinstri stjórn, sem boðað hefur í málefnasáttmála sínum brottflutning bandaríska hersins á kjörtímabilinu. Að ríkisstj. standa þrír flokkar, sem allir hafa það skýlaust á stefnuskrá sinni, að bandaríski herinn skuli á brott, en þrátt fyrir þessar staðreyndir berja enn þeir áköfustu úr hópi íhaldsins höfðinu við steininn og tala enn um stefnu sína sem meirihluta vilja íslenzku þjóðarinnar. Nei, til allrar hamingju fyrir íslenzka þjóð hafa nú skapazt ný viðhorf í sjálfstæðis— og utanríkismálum Íslendinga. Undirlægjustefna Sjálfstfl. skal nú víkja fyrir sjálfstæðri íslenzkri utanríkisstefnu, sem hefur að markmiði friðvænlegri og betri heim og frjálst Ísland og vonandi þarf það aldrei að gerast aftur, að forseti Sameinuðu þjóðanna þurfi að minna íslenzk stjórnvöld á rétt smáþjóða til sjálfstæðrar ákvörðunar, eins og fyrrv. forseti þeirra þurfti að gera við utanrrh. viðreisnarstjórnar og ýmsum er enn í fersku minni.

Hver er svo ástæða til hinna breyttu viðhorfa og hins aukna fylgis hinna róttæku þjóðfélagsafla? Vafalaust eru þær ástæður margar, en ég hygg, að einna þyngst á metunum sé hin einarða og skelegga stjórnmálaafstaða ungs fólks, þeirrar kynslóðar, sem vaxið hefur upp undir bandarísku hernámi og nú hefur kvatt sér hljóðs í íslenzku þjóðfélagi. En stjórnmálaáhugi þess hefur einkum og í vaxandi mæli beinzt að sjálfstæðismálum þjóðarinnar. Það hefur hafnað kaldastríðsrökum íhaldsins og heimtar frjálst og fullvalda land. Það skilur, að á sama hátt og frelsi hins þjáða og hungraða heims er komið undir afnámi hernaðarbandalaga og heimsvaldastefnu auðvaldsheimsins, þá er framtíð fullvalda Íslands í heimi aukinnar auðssamþjöppunar háð sjálfstæðri utanríkisstefnu. Það skilur samhengið milli efnahagslegra forréttinda hinna auðugu iðnaðarstórvelda og hernaðarbandalaga þeirra. Þennan vítahring fátæktar, hungurs og örbirgðar meiri hluta mannkynsins verður að rjúfa með afnámi hernaðar— og efnahagsbandalaga auðvaldsheimsins. Hlutur smáríkjanna getur verið stór í þeirri baráttu, hlutur Íslands getur ráðið þar úrslitum. Ég vil skjóta því hér inn, að vafalaust stendur það nær hugmyndum þessa fólks að nota þær 500 milljónir, sem fara eiga í flugbrautargerð í Keflavík, til að brauðfæða það fólk, sem hungrar um heim allan. Íslendingum fer illa sá betlibúningur, sem þeir hafa íklæðzt með þeirri ákvörðun að þiggja þetta fé.

Nefna mætti hér mýmörg dæmi þess, hvernig unga fólkið hefur tekið virkan þátt í að reisa þá ölduvakningu í sjálfstæðismálum, sem nú hefur fært í kaf stefnu Sjálfstfl. Nærtækt er að minnast hátíðahalda stúdenta við Háskóla Íslands nú 1. des. s.l., þar sem krafan um brottflutning bandaríska hersins var sett á oddinn. Slík eining í þeirra hópi er glöggt merki um hug æskufólks til þessara mála. Svipaðir atburðir hafa og verið að gerast í öðrum skólum og í samtökum ungs fólks um allt land. Þannig helguðu t.d. nemendur framhaldsskólans á Eiðum nemendahátíð sína þessu baráttumáli nú í vetur. Stjórnmálaáhugi ungs fólks til bæja jafnt sem sveita hefur tekið á sig skýra og róttæka mynd í afstöðunni til íslenzkra utanríkismála. Þessi öfluga og fjölmenna hreyfing meðal ungs fólks hefur ekki staðnæmzt við neina pólitíska flokksmúra. Þannig er afstaða ungra Alþfl.—manna allt önnur en afstaða Alþfl. og forustumanna hans, og vafalitið hafa þeim sviðið ummæli hv. formanns Alþfl. hér í dag. Sama máli gegnir um Sjálfstfl. Langt inn í raðir fylgjenda hans hefur orðið vart við endurmat í þessum efnum. Þannig hefur t.d. yngsti þm. hans, hv. þm. Ellert Schram, gert ítarlega grein fyrir viðhorfum sínum til Bandaríkjanna í grein, sem hann skrifaði í málgagn ungra sjálfstæðismanna, Stefni, fyrir nokkrum árum. Og til fróðleiks fyrir þá sjálfstæðismenn, sem nú reyna að verja hina öfgafullu niðurlægingarstefnu sína, er rétt að rifja upp nokkra kafla í þessari ágætu grein hins unga þm. og samflokksmanns þeirra, með leyfi hæstv. forseta. Um hættuna af ameríkaníseringu segir hann:

„Því er alls ekki hægt að neita, að okkar litla eyríki stafar viss hætta frá stórveldinu í vestri. Sú hætta er fyrst og fremst andlegs eðlis, hætta, sem steðjar að menningu, hugsunarhætti og lifnaðarháttum íslenzku þjóðarinnar. Það þýðir ekki að skella skolleyrum við og fullyrða, að íslenzk menning þoli slíkar ágjafir eins og gengið hafa yfir og munu ganga yfir. Það er viss og verulegur sannleikur fólginn í þeim áróðri kommúnista, að ameríkaníseringin sé yfirvofandi. Íslenzkir lýðræðissinnar eru aftur á móti svo ákafir að verja afstöðu sína til vestrænnar samvinnu, að þeir afgreiða yfirleitt ofangreindar ábendingar sem áróður og bull. Viðbrögðin eru nær undantekningarlaust þau, bæði í ræðu og riti, að taka upp hanzkann fyrir vesturveldin og sérstaklega Bandaríkin og verja sérhverja þá aðgerð og afstöðu, sem þau gripa til í heimsmálunum. Blaðakostur sjálfstæðismanna og annarra afla meðal lýðræðissinna hefur haldið og heldur uppi skefjalausum áróðri fyrir ágæti bandarískra sjónarmiða og leggur blessun sína yfir sérhverja þá aðgerð, sem Bandaríkjamenn grípa til. Fylgismenn sömu blaða og flokka, hvort sem slíkt stafar af sefjun eða sannfæringu, bregðast við á sama hátt. Þannig hefur skörulega verið tekið undir afstöðu Bandaríkjamanna til aðildar Kína að Sameinuðu þjóðunum. Þannig voru aðgerðir Bandaríkjamanna í Santo Domingo varðar fram í rauðan dauðann. Þannig er stefna þeirra í NATO og aðgerðir þeirra í Víetnam sjálfkrafa viðurkenndar og varðar. Og þannig virðist vera borið í bætifláka fyrir bandaríska hermannasjónvarpið á Íslandi af þeirri ástæðu einnig, að það kemur frá Bandaríkjunum.“

Síðar í sömu grein ræðir hann tilgang Bandaríkjamanna með útfærslustefnu sinni, en í því sambandi segir hinn hv. ungi þm. m.a. með leyfi forseta:

„Bandaríkin eru stórveldi, sem togast á um áhrif og ítök meðal þjóða heims. Í þessum tilgangi reka þau sína pólitík, stjórnmálalega, hernaðarlega og menningarlega, hvenær sem er og hvar sem er. Við skulum ekki efast um vináttu þeirra, en við skulum heldur ekki vera þau börn að loka augunum fyrir þeirri staðreynd, að Bandaríkin reki ekki skeleggan áróður hér á landi fyrir málstað sínum á öllum þessum sviðum og beiti til þess öllum tiltækum ráðum. Til þess er upplýsingaþjónustan, til þess er sjónvarpið.“

Grein sína endar svo hv. þm. á þessa leið, með leyfi forseta:

„Lýðræðið á Íslandi er lítils virði, sé það svo háð erlendum áhrifum, að lýðræðissinnar meðal þjóðarinnar telji það hlutverk sitt að vera ósjálfstæð handbendi í höndum Ameríkumanna. Ameríkumenn geta án þess verið, íslenzkt lýðveldi þolir það ekki.“

Ég held nú, að það sé full ástæða fyrir hina hv. 10 þm. Sjálfstfl. og aðra þá fulltrúa hans, sem hvað mest og dyggilegast vilja ánetjast Ameríkumönnum, gerast handbendi þeirra, að hlusta eftir þessari rödd hins unga þm.

Ég hef nú hér að framan reynt að sýna fram á, hve fjarstæðukenndar fullyrðingar sjálfstæðismanna í þessum umr. um vilja þjóðarinnar til hersetunnar eru. Og þó að ég hafi hér sérstaklega minnt á greinilegan vilja alls þorra yngri kynslóðarinnar, vil ég ekki rýra hlut hinna eldri. Samhugur þjóðarinnar í þessu máli er augljós. Það hefur ekki heldur komið á óvart í þessum umr. hið sífellda tal fulltrúa Sjálfstfl. um, að þeir séu hinir einu sönnu lýðræðisvinir. Það hefur löngum verið venja þeirra að skipa sér í öndvegi hvað þetta snertir. Á sama hátt skipa þeir Atlantshafsbandalaginu í öndvegi lýðræðis meðal þjóða heimsins. NATO skal vera útvörður þess meðal hinna vestrænu þjóða að þeirra sögn. En það er eins með lýðræðisást Atlantshafsbandalagsins og hinna öfga fyllstu meðal sjálfstæðismanna, að hún endar þar sem við tekur áhugaleysi og afneitun almennings á skoðunum þeirra. Þannig má NATO fótumtroða lýðræðið í Grikklandi og nýlendum Portúgala, úr því að almenningur þar afbiður sér heimsvaldastefnu þess. Hafni þessar þjóðir íhlutun NATO og herforingjanna, þá skal þessu sama NATO—lýðræði þröngvað upp á þær. Eins gerist nú hér heima. Nú skal neyta allra bragða til að knésetja réttkjörin stjórnvöld. Á Alþ. skal meina einum ríkisstjórnarflokki að fjalla um veigamikinn þátt stjórnmálanna, utanríkismálin. Seinni partur ferskeytlu byrjar svona: „Ást er fædd og alin blind.“ Hvað sem er satt í þessari hendingu ferskeytlunnar, er víst, að NATO—ást ýmissa sjálfstæðismanna hefur blindað þá í þessu máli.

En eins og ég hef sagt hér að framan, kemur afstaða foringja Sjálfstfl. ekki á óvart hér í umr. Þannig hefur það ekki farið fram hjá neinum, sem lesið hafa Morgunblaðið eftir ríkisstjórnarmyndun vinstri flokkanna, að vaxandi ótti er við, að endir verði bundinn á hina löngu undirgefni okkar við bandaríska utanríkisstefnu. Eina slíka grein las ég ekki alls fyrir löngu í Morgunblaðinu, en hún endurspeglar einmitt vel skoðanir blaðsins og lýðræðisást höfunda þess. Í þessari grein, sem birtist 5. marz s. l., segir m.a. , með leyfi forseta:

„Þær ótrúlegu aðstæður, sem nú hafa skapazt á Íslandi og enginn heilbrigt hugsandi maður hefði trúað, að gætu skapazt hér, eru alveg í samræmi við það, sem gerist, þegar fávís fjöldinn skilur ekki frelsi lýðræðisins.“

Þetta er orðrétt upp úr Morgunblaðinu 5. marz s.l. Hér sannast það, sem ég sagði áðan um lýðræðisást sjálfstæðismanna. Hún endar þar sem almenningur,

fávis fjöldinn, eins og þeir kalla hann, hafnar stefnu þeirra. Þær hvatir, sem liggja til grundvallar þeim skoðunum. sem þarna er bryddað á, eru þær sömu og fram koma í þeirri till. 10 hv. þm. Sjálfstfl., sem hér liggur frammi til umr. Ég tel, að Alþ. geti bezt haldið virðingu sinni með því að vísa henni frá, enda væri það í anda þeirra þúsunda Íslendinga, sem í sannleika vilja styrkja lýðræðislega stjórnarhætti og frelsi íslenzku þjóðarinnar.

Að endingu vil ég aðeins minna á, að það er ekki sízt fyrir liðveizlu hins mikla fjölda æskufólks, sem skapazt hafa ný viðhorf í íslenzkum stjórnmálum. Það er hin róttæka þjóðfélagsvakning meðal þessa fólks, sem fyrst og fremst hefur gert núverandi stjórnarmyndun vinstri flokkanna mögulega. Og eins og ég hef áður sagt, kemur stjórnmálaafstaða þessa unga fólks skýrast fram í afstöðu þess til sjálfstæðismála þjóðarinnar. Þetta unga fólk treystir núv. ríkisstj. til að endurheimta virðingu Íslands á alþjóðavettvangi, til að veita hinum ófrjálsu, fátæku þjóðum heimsins lið. Það treystir því, að herinn fari á brott á kjörtímabilinu.