06.04.1972
Sameinað þing: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í D-deild Alþingistíðinda. (4203)

46. mál, öryggismál Íslands

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Þetta er nú orðinn æðilangur málfundur og ég skal ekki lengja hann ýkjamikið úr því sem komið er. Það eru aðeins örfáar aths., sem mig langar að koma á framfæri.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson bar sig upp undan því, að ég hefði gagnrýnt framkomu hans á þingmannafundi Atlantshafsbandalagsins í haust. Ég tel, að framkoma þessa hv. þm. hafi verið á allan hátt ósæmileg. Hann mætti þar sem fulltrúi í sendinefnd Íslands og sendinefndir einstakra ríkja á slíkum þingum hafa yfirleitt þann vana að túlka sjónarmið ríkisstj. í landi sínu. Þessi hv. þm. fór fram hjá formanni íslenzku sendinefndarinnar með þá ræðu, sem hann flutti og hann bar sig upp við erlenda aðila út af ágreiningsmálum okkar hér. Ég held, að það sé okkur öllum hollt að minnast fornra orða; utanstefnur viljum við engar hafa.— Við verðum að vera menn til þess að meta þessi vandamál sem önnur af íslenzkum sjónarhól og nota okkar eigin dómgreind til þess að úrskurða, hvað er rétt og hvað er rangt. Við eigum að forðast það að gera erlenda aðila að þátttakendum í mikils verðum vandamálum, sem á okkur hvíla.

Þessi hv. þm. sagði einnig í ræðu sinni, að það væri vissulega að verða friðsamlegra í heiminum, en var um skeið og hann vildi þakka það samningum, sem nú væru uppi milli hernaðarbandalaganna. Hann hafði að þessu leyti mjög svipaða afstöðu og fram hefur komið hjá hv. þm. Benedikt Gröndal, að það séu hernaðarbandalögin og jafnvægið milli þeirra, sem sé trygging friðarins í heiminum. Og Benedikt Gröndal gekk svo langt, eins og hefur verið rifjað upp hér áður í umr., að telja það skiljanlegt, að Rússar réðust inn í Tékkóslóvakíu. Ég held, að þessi túlkun fái nú engan veginn staðizt. Það hafa sem betur fer verið að gerast aðrir atburðir einnig á undanförnum árum. Má ég minna á það, þegar Frakkar slitu öllu hernaðarsamstarfi við Atlantshafsbandalagið, ráku alla bandaríska heri úr landi sínu og viku burt sjálfum aðalstöðvum Atlantshafsbandalagsins úr Frakklandi. Samkvæmt kenningum hernaðarsérfræðinga hefði þetta átt að þýða feiknalega mikla röskun á hernaðarjafnvæginu í Evrópu, en ég held, að allir raunsæir menn séu sammála um það, að þetta hafi stuðlað mjög að friðsamlegri þróun og það er mikið ánægjuefni, að hliðstæður óróleiki hefur orðið innan Varsjárbandalagsins einnig. Það hefur ekki styrkt Varsjárbandalagið, heldur hefur það veikt það, að Rússar urðu að senda hersveitir inn í Tékkóslóvakíu og það er einmitt þessi ósk smáþjóðanna um sjálfstæði, um það að losna undan forsjá þessara kjarnorkuvæddu þursa, sem gefur vonir um friðsamlegri framtíð og ég held, að við íslendingar eigum að leggja okkar skerf fram til slíkrar þróunar. Það er sagt, að með því veikjum við Atlantshafsbandalagið og sízt af öllu harma ég það, en við erum líka að veikja Varsjárbandalagið með því. Frumkvæði okkar yrði öðrum þjóðum fordæmi.

Ég vék að því hér í fyrri ræðu minni í dag, að stjórnarandstaða Sjálfstfl. hefði mótazt á þessum vetri mjög af því, að hann hoppaði hér upp í ræðustól í hvert einasta skipti eða fulltrúar hans, þegar þeim fyndist, að Íslendingar brytu í bága við bandaríska utanríkisstefnu. Ég veit, að um þetta mál er mikill ágreiningur innan Sjálfstfl. Það kom m.a. mjög skýrt fram í þeirri ræðu, sem hv. þm. Ellert Schram hélt hér áðan. Sú ræða var einkennilegur kattarþvottur, en engu að síður lýsti þessi hv. þm. yfir því, að hann væri í „prinsippi“ á móti því að hafa her í landinu og ég veitti því athygli, að þessi hv. þm. er ekki einn af flm. þeirrar till., sem Sjálfstfl. lagði hér fram og ekki heldur hv. þm. Gunnar Thoroddsen og þetta er alveg tvímælalaust til marks um það, að innan Sjálfstfl. einnig eru mikil átök um þetta mál og að verulegur hluti af fylgismönnum Sjálfstfl. og ekki sízt unga fólkíð hefur fullkomna ótrú á forustu hv. þm. Jóhanns Hafstein, þessari forustu, sem ég hef verið að lýsa og sem fram kom í ræðu hans hér fyrr í dag.

Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hefur flutt hér tvær langar ræður í dag og þær hafa vakið mikla kátinu og hv. þm. hefur stundum hlegið með. Ég ímynda mér, að hv. þm. haldi, að menn hafi hlegið vegna þess, að hann sé svona fyndinn, en því miður er þessu ekki þannig farið. Þessi hv. þm. er smám saman orðinn að gamanatriði hér á Alþingi Íslendinga. Hann er orðinn eins konar þingtrúður og þetta stafar af því, að þau nær 30 ár, sem hann hefur verið hér á þingi, þá hefur hann staðið hér í þessum ræðustól og flutt allar hugsanlegar skoðanir á öllum hugsanlegum málum. Hann hefur staðið hér og haldið mjög ákveðnar ræður um það, að ekki mætti semja við Bandaríkin, hann hefur staðið hér og haldið mjög ákveðnar ræður um það, að Íslendingar mættu ekki ganga í Atlantshafsbandalagið. Það væri hægt að nota ræður hans sem uppistöðu í alfræðiorðabók um allar hugsanlegar skoðanir á öllum hugsanlegum málum og þetta stafar af því einu, að þessi hv. þm. hefur núna um langt, langt skeið lifað gervilífi í skjóli Sjálfstfl. og hann er ekki lengur tekinn alvarlega, ekki hér af þm. og ekki meðal þjóðarinnar, eins og hann reyndi sannarlega í kosningunum í fyrra. Það athyglisverðasta, sem mér fannst koma fram í ræðu hans, var lýsing hans á sambúðinni í vinstri stjórninni 1956—1958, þegar hann lýsti því, hvernig flokksbróðir hans, Guðmundur Í. Guðmundsson, hefði farið á bak við ráðh. Alþb. með öll utanríkismál. Óheilindi og ódrengskapur af þessu tagi eru sannarlega þess eðlis, að menn ættu ekki að standa hér í stól og hæla sér af því. Og það eru einmitt þessi óheilindi, sem þessi hv. þm. var að lýsa, sem valda því, að núv. ríkisstj. hefur ákveðið að hafa mjög nána samstöðu um framkvæmd allra þátta málefnasamningsins og einmitt þess vegna var sett upp sérstök samstarfsnefnd til þess að fjalla um fyrirheitin um brottför hersins, vegna þess að þeir flokkar, sem að þessari ríkisstj. standa, þeir eru ósammála um ýmsa þætti utanríkismála og þeir verða að reyna að finna samstöðu um það að framkvæma það, sem þeir hafa heitið, að hér verði ekki erlendur her eftir að þessu kjörtímabili lýkur. Þetta fyrirheit ætlar ríkisstj. sér að framkvæma, hún ætlar að vinna að þessu máli af fullum heilindum, hún ætlar ekki að fara neitt dult með ágreining, sem uppi er á milli stjórnarflokkann, og hún vill gjarnan, að mál séu útkljáð fyrir opnum tjöldum, en hún er staðráðin í því að framkvæma þetta fyrirheit.

Það getur verið matsatriði, hvort það mál, sem um hefur verið fjallað hér í þessum umræðum, fjárveitingar Bandaríkjamanna til að lengja flugbraut á Keflavíkurflugvelli, er smámál eða stórmál. Ég tel þetta vera alvarlegt mál og einmitt þess vegna gerðum við ráðh. Alþb. ágreining út af því. Hins vegar er þetta ekki mál, sem er þess eðlis, að það eigi að valda samvinnuslitum í ríkisstj., því fer mjög fjarri. Þetta mál er tengt þessu fyrirheiti, sem hér er til umr., að hernámssamningurinn verði tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar í þeim tilgangi, að herinn fari burt. Það fyrirheit stendur og á það verður að sjálfsögðu látið reyna í stjórnarsamstarfinu, hvort ekki tekst að finna sameiginlega lausn á þessu vandamáli og það er alveg öruggt og víst, að við ráðh. Alþb. höfum alveg fullan hug á því að láta á það reyna, hvort ekki tekst að koma þessu fyrirheiti fram. Ég er sannfærður um það, að mikill meiri hluti þjóðarinnar stendur á bak við okkur í þeirri von, að okkur takist að finna lausn á þessum vanda og að við getum að þremur árum liðnum fagnað því að vera einir og frjálsir í landi okkar og lausir við erlenda hersetu.