06.04.1972
Sameinað þing: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í D-deild Alþingistíðinda. (4204)

46. mál, öryggismál Íslands

Sigurður Magnússon:

Herra forseti. Ég vil gera aðeins að umræðuefni ræðu hv. þm. Ellerts Schram hér fyrr í kvöld, en hann vék þar nokkuð að ummælum mínum í dag varðandi umr. um öryggismálin, og það var greinilegt, að honum sveið undan ýmsu í málflutningi mínum. Hann byrjaði á því að vandræðast út af tilvitnun minni í ákveðna blaðagrein í Morgunblaðinu 5. marz s. l., en þar segir greinarhöfundur, að það hafi gerzt, sem engan heilbrigt hugsandi mann hafi órað fyrir, að ný stjórnvöld skyldu setjast að völdum á Íslandi og það sé greinilegt, að hinn fávísi fjöldi, eins og hann kallar almenning í landinu, hafi með því að velja sér þessa ríkisstj. sýnt það, að hann kynni ekki að notfæra sér grundvallarreglur lýðræðislegs þjóðfélags. Ég er í sjálfu sér ekki hissa á því , þótt hv. þm. skammist sín fyrir málgagn sitt, þegar minnt er á þessa grein og vilji ekki gera mikið úr því, að hún sé stefna blaðstjórnarinnar og flokksins. En það er ekki heldur í fyrsta skipti, sem hv. þm. hefur þurft að skammast sín fyrir málgagn sitt, því að hann sagði hér í umr. áðan, að hann vildi standa við allt það, sem hann hefði sagt í ákveðinni grein, sem hann skrifaði í Stefni, málgagn ungra sjálfstæðismanna, fyrir ekki alllöngu, en þar segir hann m.a. um þetta ágæta málgagn Sjálfstfl., með leyfi hæstv. forseta:

„Blaðakostur sjálfstæðismanna og annarra afla meðal lýðræðissinna hefur haldið og heldur uppi skefjalausum áróðri fyrir ágæti bandarískra sjónarmiða og leggur blessun sína yfir sérhverja þá aðgerð, sem Bandaríkjamenn grípa til. Fylgismenn sömu blaða og flokka, hvort sem slíkt stafar af sefjun eða sannfæringu, bregðast við á sama hátt.“

Við þessi ummæli sín vill Ellert Schram hv. þm. standa enn þann dag í dag og er það vissulega ánægjulegt og heiðarlegt af honum. En ég hefði svo sannarlega í máli mínu í dag getað minnt á ýmsar aðrar skemmtilegar greinar í Morgunblaðinu. Þar er mikið úrval greina af þessu tagi og af ýmsu að taka. M.a. minnist ég þess, að í því ágæta blaði var grein í fyrra skrifuð af einum af aðalsérfræðingum Sjálfstfl. í utanríkismálum, þar sem því var haldið fram, að ef svo kynni að fara, að íslenzk stjórnvöld ákvæðu, að bandaríski herinn færi af landinu, þá vænti hann þess, að bandarísk stjórnvöld kæmu í veg fyrir slíka ákvörðun. Væntanlega skammast hv. þm. Ellert Schram sín einnig fyrir þessa grein Morgunblaðsins og mig undrar það ekki. Svolítið fannst mér hv. þm. vefjast tunga um tönn, þegar hann minntist á tilvitnanir mínar í þessa fyrrnefndu grein í Stefni og er það ekki undarlegt, nú eftir að hann er kominn inn í þingflokk Sjálfstfl., í þann ágæta hóp, að honum reynist erfitt að standa við sínar fyrri skoðanir. Hann reyndi þó ekki að mótmæla þeirri fullyrðingu minni og hún stendur því enn þá óhögguð, að langt inn í raðir ungra sjálfstæðismanna gæti nú nýrra viðhorfa í sjálfstæðismálum okkar Íslendinga. Og það er margt til vitnis um þetta og fleira en þessi grein Ellerts Schram. M.a. hafa undanfarnar vikur birzt í Morgunblaðinu greinar, sem ungir sjálfstæðismenn hafa skrifað undir hausnum „Einstaklingshyggjan og samtíminn“. Ein grein og sú síðasta af þessu tagi í bili, eins og segir í lok hennar, birtist í Morgunblaðinu síðast í gær og með leyfi forseta langar mig til þess að koma með örlitlar tilvitnanir í hana. Þar segir í upphafi:

„Undanfarnar vikur hafa birzt hér í blaðinu hugleiðingar nokkurra ungra manna um einstaklingshyggju og samtímann. Tilgangur pistlahöfunda hefur einkum verið sá að freista þess að skoða sjálfstæðisstefnuna í ljósi ýmissa viðfangsefna samtímans. Okkur dylst ekki sú staðreynd, að Sjálfstfl. hefur að nokkru leyti slitnað úr tengslum við unga fólkið.“

Síðar í greininni segir:

„Mér er engin launung á því, að sumir pistlar okkar hér undanfarnar vikur hafa af ýmsum sjálfstæðismönnum þótt vera vísbending um hættulega vinstri villu. Slík viðbrögð eru í sjálfu sér til þess eins fallin að staðfesta enn frekar þá nauðsyn, sem Sjálfstfl. er á því að laga stefnu sína jafnan að stund og stað“.

Þessari grein ungs sjálfstæðismanns í Morgunblaðinu í gær lýkur svo með því , að tilkynnt er, að skrifum þessum sé nú lokið að sinni. Það skyldi þó ekki vera, að þessar frjálslyndu greinar ungra sjálfstæðismanna í Morgunblaðinu síðustu vikurnar, sem gefa ótvírætt vísbendingu um hinar miklu og nýju hræringar, sem þar eiga sér stað og Ellert Schram hv. þm. þekkir manna bezt, að þessar greinar hafi ekki fallið í frjóa jörð á ritstjórnarskrifstofum blaðsins og þar sé nú ákveðið; að skrifum af þessu tagi skuli lokið.

Með því að Ellert viðurkenndi, að hann skyldi enn í dag standa við öll meginatriði greinar sinnar í tímaritinu Stefni, sem ég hef áður vitnað hér í, þá væntanlega stendur hann enn þá við orð sín, þar sem segir: „Því er alls ekki hægt að neita, að okkar litla eyríki stafar viss hætta frá stórveldinu í vestri, sú hætta er fyrst og fremst andlegs eðlis, hætta, sem steðjar að menningu, hugsunarhætti og lifnaðarháttum íslenzku þjóðarinnar.“ Það er ánægjulegt, að Ellert Schram hv. þm. skuli hafa hugrekki til þess að standa við þessar skoðanir sínar í greinilegu trássi við forustumenn flokksins, ef mið er tekið af þeim ummælum, sem þeir hafa haft hér í umr. og ég vænti þess, að þegar á reynir, muni þessi sami þm. vera jafnstaðfastur.

Ég ætla ekki að gera að umræðuefni þann þátt í þessari fyrrnefndu Stefnisgrein, sem snýr að afstöðunni til Kínamálsins, hæstv. utanrrh. hefur sérstaklega vikið að því hér fyrr í kvöld, en þar gerði Ellert Schram eina undantekningu, þar höfðu skoðanir hans breytzt. Þjóðinni er þegar kunnugt um þær skoðanir, sem hv. þm. hefur á þessu máli og ég er ekki í vafa um, að margir af fylgjendum Sjálfstfl., sérstaklega í röðum yngra fólks, munu harma þessa afstöðu hins unga þm. Þó má vera, að það verði til þess að opna augu þessa fólks fyrir því, að innan vébanda Sjálfstfl. er ekki að vænta þeirrar stefnubreytingar, sem nægir til þess að reisa á þá utanríkisstefnu, sem Íslendingum er sómi að. (Gripið fram í.) Ellert Schram hv. þm. er nú búinn að lýsa því svo oft yfir hér í kvöld, að hann skilji alls ekki ræður annarra, sem fluttar eru hér í þingsalnum, að ég held, að ég verði að óska eftir því , að hv. þm. setjist niður og hugleiði mál sitt og fari í gegnum málflutning okkar, áður en hann lýsir oftar yfir fáfræði sinni.

Að lokum vil ég svo víkja að því í málflutningi hans, þar sem hann sagði, að þegar við Alþb.–menn töluðum um hernaðarbandalögin, þá töluðum við einatt um hernaðarbandalagið í vestri, en gleymdum að minnast á Varsjárhandalagið. Ég vil enn einu sinni minna á það, að Alþb. hefur hvað harðast gagnrýnt stefnu Varsjárhandalagsins í Austur-Evrópu og málefnum þjóðanna þar og stefnu sovézkra valdamanna í því sambandi. Allar dylgjur um það, að skoðanir okkar Alþb.–manna á tilveru Varsjárbandalagsins séu aðrar, en á tilveru Atlantshafsbandalagsins, eru fásinna ein. Hins vegar gerum við okkur fulla grein fyrir því, að við Íslendingar hljótum fyrst og fremst að beina geiri okkar að því bandalagi, sem við erum aðilar að, Atlantshafsbandalaginu og við lítum á það sem lið í þeirri baráttu að leggja bæði hernaðarbandalögin niður. En mér er hins vegar engin launung á um það, að heiminum stafi mest hætta af þeirri hernaðarstefnu, sem Atlantshafsbandalagið og efnahagsbandalag auðvaldsríkja í Vestur–Evrópu hafa rekið og þar á ég við stefnu þeirra gagnvart hinum fátæka heimshluta, en ég undanskil Varsjárbandalagið í þessu efni. Þeirri staðreynd verður heldur ekki mótmælt, að Bandaríkjamenn, sem telja í kringum 6% af íbúum jarðarinnar, ráða yfir meira en 60% af auðlindum heimsins og þetta eitt út af fyrir sig segir okkur betur en margt annað, hversu yfirgripsmikil heimsvaldastefna Bandaríkjamanna og NATO er.

Ég vil svo að lokum undirstrika enn einu sinni þær skoðanir, sem ég setti hér fram í dag, að víðtæk hreyfing væri sprottin upp í íslenzku þjóðlífi, einkum meðal æskufólks, hreyfing, sem vildi bandaríska herinn af íslenzku landi. Ég hélt því fram og því hefur ekki verið mótmælt og þeim rökum hefur ekki verið hnekkt, að þessi hreyfing hefði brotið af sér allar flokksviðjar. Langt inn í raðir stjórnarandstöðuflokkanna má finna fólk, sem er jafneinarðlegt í þessari afstöðu sinni og við, það unga fólk, sem styður ríkisstj. Í þessu sambandi er gleggst að vitna til samþykktar ungra Alþfl.—manna og síðast en ekki sízt ýmissa ummæla og greina ungra sjálfstæðismanna og nú síðast í dag til þeirrar staðreyndar, að Ellert Schram, yngsti þm. Sjálfstfl., treystir sér enn þá til að standa við ummæli sín, sem ég hef gert þinginu grein fyrir. Þetta finnst mér benda til þess, að við getum vænzt þess, að þessi stefna ríkisstj. nái fram að ganga og ég treysti því , að hv. þm. Ellert Schram sé verðugur trausts þeirra ungu sjálfstæðismanna, er vilja ný viðhorf í málefnum sjálfstæðisstefnunnar og hann standi með ríkisstj. í því að framkvæma ákvörðun hennar um brottför hersins.