08.02.1972
Sameinað þing: 35. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í D-deild Alþingistíðinda. (4339)

157. mál, ferðamál

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Till. sú til þál. á þskj. 294, sem ég ásamt hv. 1. þm. Norðurl. e. hef leyft mér að flytja varðandi endurskoðun ferðamála með tilliti til stuðnings við æskilega þróun landsbyggðar, er þannig: Með leyfi forseta vil ég lesa hér tillögu orðin:

„Alþingi ályktar að beina því til ríkisstj. að láta fara fram gagngera athugun og endurskoðun á skipan og framkvæmd ferðamála með sérstöku tilliti til þess, að ferðaþjónusta geti orðið traustur atvinnuvegur sem víðast um byggðir landsins og þróun ferðamála verði til stuðnings við æskilega þróun landsbyggðar.“

Ég vil benda á, að það mun vera í gangi athugun á ákveðnum þáttum ferðamála, en ekki sérstaklega þeim atriðum, sem hér er bent á. Eins og menn vita, eykst ferðamannastraumur til landsins og fyrr en varir búum við í ferðamannalandi, hvað sem við höfumst að eða gerum í þeim málum. Spurningin er því þessi: Hvað gerum við í ferðamálunum og hvernig verður sá ferðaútvegur, sem við byggjum upp? Og hver verður þá hlutur landsbyggðarinnar og dreifbýlisins í þessum málum? Glöggur maður, sem skrifaði um ferðamál og sérstaklega um ferðamál landsbyggðar og dreifbýlis á s.l. ári, bendir á það, að eins og þessum málum er nú háttað, þá þarf ekki aukinn ferðamannastraumur að skilja eftir sig neitt sérstaklega í sveitunum. Hann kemst svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir, sem fara um sveitir Íslands á bíl, geta gert sig meira eða minna óháða fyrirgreiðslu þess fólks, sem verður á braut þeirra, með ýmsum útbúnaði, tjöldum, sem eru að verða eins og heil hús, viðleguútbúnaði og matarbirgðum. Það er því ekki neitt sjálfsagt og óhjákvæmilegt, að aukin ferðamennska færi með sér aukna atvinnu og tekjuskilyrði í sveitum landsins, heldur kann hún, ef ekki er á þessum málum tekið sérstaklega af hendi sveitafólksins, aðeins að færa með sér aukið ryk á vegum landsins og aukinn átroðning og landsspjöll.“

Ég held, að þessi orð séu athyglisverð, þó að hlutirnir séu kannski nokkuð stíft fram settir.

Það er eitt grundvallaratriði heilbrigðrar byggðastefnu, að landkostir, hverju nafni sem nefnast, séu nýttir af fólki viðkomandi byggða, að þeir, sem hafa fasta búsetu í hinum dreifðu byggðum og hafa gert það að lífsstarfi sínu að nýta gæði landsins, að breyta þeim í verðmæti fyrir alþjóð, þeir hafi forgang að því að nýta öll þau gæði, sem við þessi sömu svæði, þessar sömu byggðir eru bundin. Í þessum byggðum ríður mest á því að auka fjölbreytni atvinnutækifæranna. Það má segja það, að fólkið flýi ekki úr byggðunum, það sé dregið úr byggðunum, vegna þess að framleiðslu byggðarlögin gefa ekki tækifæri til nógu fjölbreyttrar atvinnu. Nú er það svo, að sumt af þessum hlutum þarf að draga saman í stórar einingar og það dregst saman í stórar einingar í stærstu þéttbýlisstöðunum og við þessu er ekki svo gott að sporna. En það verður að meta og vega hvern þátt út frá því, hvort hægt er að framkvæma hann þannig, að hann verði þessum dreifðu byggðum til stuðnings, hvort hægt er að reka hann í smærri einingum, hvort hægt er að framkvæma hann úti í byggðarlögunum. Og þetta verður að gera, eigi að fylgja svokallaðri landsbyggðarstefnu. Þannig verður að meta og vega hvern þátt út frá þessu sjónarmiði. Það er vegna þessarar miðsækni í öllum hlutum, að öll þjónusta, öll úrvinnslustörf og annað því um líkt dregst saman ósjálfrátt, ef ekki er sérstaklega unnið frá þessu sjónarmiði.

En hvað kemur þetta ferðamálum við? Jú, það kemur þeim við vegna þess, eins og ég hef bent á, að ferðamál eru ein tegund af nýtingu landkosta og þessa ferðaþjónustu er hægt að stunda bæði í stórum og smáum einingum.

Þá vil ég benda á það, að nær öll okkar ferðaþjónusta og ferðastarfsemi hefur til þessa haft sínar höfuðstöðvar í Reykjavík og verið rekin að mestu í stórum einingum. Hér eru flugfélög, hér eru hótel, hér eru ferðaskrifstofur, hér hefur farið fram öll fjárfesting á þessu sviði og hingað er dreginn allur arður af þessari starfsemi. Fróðir menn, sem fylgjast með þessum málum úti um byggðirnar, segja, að þetta komi glöggt fram í ýmsu smáu eða mörgu smáu, t.d. afgreiðslu ferðamannaskipa, sem láta svo lítið að koma við í höfnum kringum landið. Þá bíða þar bifreiðar, kannske komnar sunnan frá Reykjavík frá aðilum, sem hér reka sína þjónustu. Það eru ferðaskrifstofurnar, sem reka þetta eftir eðli málsins frá sínum bæjardyrum og þess er ekki gætt, að byggðirnar njóti þarna nokkurs.

Hvað er hægt að gera á þessu sviði? Það er hægt að svara því þannig að það sé ákaflega margt. Þetta eru svo margslungin mál. Þetta er í ótal smáum og stórum atriðum. Benda má á það, að skólana, sem er verið að byggja um landið, er bæði hægt að gera þannig, að höfð sé hliðsjón af þessum málum, en svo er líka hægt að beita aðferðum, sem koma í veg fyrir það, að þeir nýtist til ferðaþjónustu. Ég hef heyrt það, að ákveðnar reglur, sem settar eru af hálfu viðkomandi yfirvalda um byggingu og gerð skólahúsnæðis, vinni jafnvel beint á móti því, að skólar séu nýttir í þessum tilgangi. Þeir þurfa að vera við þetta miðaðir og jafnvel er eðlilegt að velja þeim stað með þetta fyrir augum. Nú er víða verið að byggja skóla einmitt á fögrum og eftirsóttum stöðum og þarna eru tækifærin.

Þetta er eitt, en það er ákaflega margt, sem má benda á. Veiðiskapur nýtur vaxandi eftirspurnar, bæði laxveiði og silungsveiði. Þetta er hægt að byggja upp með það fyrir augum. að það styrki viðkomandi byggðir. Það má benda á fuglaveiði, gæsaveiði og rjúpnaveiði. Og það má benda á sjóstangaveiði, það má benda á hestamennsku og útreiðar, hestaleigu, skíðaskála o.fl. o.fl. En vegna þess, að við vitum, að þarna mun eiga sér stað vöxtur og að það er jafnvel mikið fjármagn lagt í þetta, þá tel ég það ákaflega brýnt, að sjónarmið það, sem ég kalla heilbrigða byggðastefnu, sé ávallt viðhaft við uppbyggingu ferðaþjónustunnar.

Það má benda á, að á milli byggðamála og ferðaútvegs eru gagnkvæm áhrif, vegna þess að það hefur sýnt sig í þeim löndum. þar sem þessi starfsemi stendur á gömlum merg, að það er ekki síður eftirsóknarvert frá sjónarmiði ferðaþjónustunnar með það fyrir augum. að aðdráttarafl landanna haldist, að byggðin haldist við. Þetta kemur ákaflega greinilega fram í þeirri ákveðnu baráttu Svisslendinga fyrir því að halda við öllum sínum fjallabyggðum, ekki vegna hreins búskaparlegs gildis, heldur vegna þess, að eyðist byggðin, þá hverfur það aðdráttarafl, sem byggðirnar hafa sem ferðamannabyggðir. Sama er að segja um Norðmenn, sem kannske eru lengst komnir í því að byggja upp það, sem mætti kalla ferðaútveg sveitanna. Þeir leggja ákaflega mikla áherzlu á að halda við byggð og að þetta falli saman. Sama er að segja um Svía. Ég átti þess kost að ferðast nokkuð um skerjagarðinn út frá Stokkhólmi á s.l. sumri og þá var okkur sýnd þessi barátta Svíanna. Það er stór félagsskapur í Stokkhólmi, sem hefur verið myndaður eingöngu til þess að sjá um og berjast fyrir því, að byggð haldist við í sænska skerjagarðinum. Maður gæti ætlað, að Stokkhólmsbúar vildu leggja þetta undir sig og leggja eyjarnar í eyði, en svo er ekki. Þeir finna, að til þess að þeir njóti þessa og þetta er þeirra útivistarsvæði, þá þurfa þeir að halda við byggðinni. Þetta eru bara ein rök í þessu margslungna máli.

Ég vil líka benda á, að það hefur verið að aukast áhugi fyrir þessum málum. Ferðamálafélög hafa verið stofnuð í sumum héruðum og markmið þeirra er að auka ferðaþjónustu og ferðamenningu. Búnaðarfélag Íslands hefur tekið þetta mál upp á sína arma og var gerð um það ályktun á síðasta Búnaðarþingi.

Herra forseti. Ég legg til að umr. um málið verði frestað og því vísað til allshn.