17.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í D-deild Alþingistíðinda. (4650)

69. mál, niðurfelling fasteignaskatts af íbúðum aldraðra

Bjarnfríður Leósdóttir:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig lengur um að taka örlítinn þátt í þessum umr. Það er búið að ræða hér mikið um velferð aldraðra, og margt hefur borið á góma. Það, sem er efni þessarar till., að taka undan útgjöld aldraðra af húsnæði sínu til þess að gera þeim kleift að búa lengur sjálfstætt, er að mínu mati gott, svo langt sem það nær. En þegar við hugsum um það, að þetta er tekjustofn sveitarfélaga, verðum við um leið að athuga það, hverjum við erum að hygla, þeim, sem þurfa mest á því að halda, eða öðrum, sem hafa meiri ráð á að greiða til bæjarins. Ég veit, að núna verður mörgum það ofarlega í huga, sem búa í litlu húsnæði og eru orðnir aldraðir, þegar þessi nýi fasteignaskattur tekur gildi, hvernig þeir geti haldið áfram að búa í sínu húsnæði, og er það skiljanlegt. En það eru fleiri borgarar en þeir og eru líka aldraðir. Það eru þeir, sem eiga ekki húsnæði. Það eru þeir, sem búa í leiguhúsnæði. Hvernig eigum við þá að jafna bilið þar á milli? Eigum við að verðlauna það fólk, sem býr í eigin húsnæði, en hegna hinu, sem ekki hefur getað eignazt sitt eigið húsnæði? Ég held, að um leið og á að létta af öldruðum fasteignaskatti, verðum við að hugleiða það, á hvern hátt við getum hugsað um hina, sem ekkert eiga, því að ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki aðeins dugnaður og það að hafa sparað, sem ræður því, að fólk eignast eigið hús. Það er margt annað, og fólk getur hugsað sér mismuninn á því að hafa lifað með stóra fjölskyldu á verkamannalaunum eða að vera embættismaður. Síðan, þegar hann er orðinn aldraður embættismaður, er hann með lífeyri, verðtryggðan lífeyri, sem getur verið mörgum sinnum meiri en laun verkamannsins.

Ég held, að við verðum að athuga þessa till. nánar, áður en við samþykkjum hana, og hafa þá í huga velferð aldraðra, fleiri en þeirra, sem búa í sínu eigin húsnæði.