14.04.1972
Neðri deild: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í D-deild Alþingistíðinda. (4658)

208. mál, Tækniskóli Íslands á Akureyri

Sigurður Magnússon:

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að gera að umtalsefni þá þáltill., er hér liggur fyrir og gerir ráð fyrir því, að Alþ. álykti að lýsa yfir þeim vilja sínum, að Tækniskóli Íslands verði fluttur frá Reykjavík til Akureyrar o.s.frv., eins og segir í till. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessa þáltill., en ég vil, að það komi skýrt fram, að ég er í grundvallaratriðum andsnúinn þeirri hugmynd, sem þar er sett fram. Flm. og stuðningsmenn till. hafa rætt um það, að tækifærið væri einmitt nú til þess að flytja þennan skóla norður í land, vegna þess að hann væri ekki búinn að festa rætur í Reykjavík og ekki búinn að taka á sig fulla mynd. Það er rétt, að málefni Tækniskólans hafa á síðustu árum verið vanrækt og það hefur ekki verið staðið nægilega vel að því að byggja hann upp og tengja hann við aðra þætti menntakerfisins. Hugmyndir hafa komið fram, sem ég tel, að séu til farsældar, að færa meginhluta af verkefnum skólans yfir á háskólastig. Síðan yrðu stofnaðir aðrir skólar, svonefndir tæknaskólar, sem gerðu ráð fyrir styttri menntun og væru til að þjóna framhaldsmenntun fyrir iðnaðarmenn.

Ég vil einnig benda á það, að vandamálin við flutning skólans norður í land eru ekki bara þau tæknilegu, ekki bara þau, sem snúa að aðbúnaði hans með tilliti til tækja og kennslukrafta, eins og ég held, að hljóti þó að koma upp, heldur eru þarna fleiri vankantar. Ég vil benda á það máli mínu til stuðnings, að nú í dag eru u.þ.b. 200 nemendur í skólanum. 65–66% þeirra eru búsettir hér í Reykjavík eða á Reykjavíkursvæðinu, en einungis u.þ.b. 34% annars staðar að af landinu. Og þessi fjölmenni hópur Reykvíkinga, sem þarna yrði að fara norður í land, fullorðið fólk flest hvert, það gerði kröfu til þess, að það hefði þar viðunandi aðstöðu, það fengi þar híbýli til að búa í með sínar fjölskyldur og gæzluheimili fyrir börn sín svo að eitthvað sé nefnt. Slíka aðstöðu hefur það kannske hér fyrir sunnan, og má segja, að ýmis aðstaða af þessu tagi sé ekki til staðar norður í landi, enda hefur það komið fram hjá stuðningsmönnum till., að ef þessi ákvörðun yrði tekin, mundi það vafalaust tefja framkvæmd og eflingu skólans um nokkur ár. Það tæki vafalaust nokkur ár að búa svo um hnútana, að hægt væri að byggja upp öflugan tækniskóla norður á Akureyri. Þá má einnig benda á það, að í hópi nemenda skólans, — og ég held, að þegar við hér á Alþ. erum að fjalla um þessi mál, verðum við að hlusta á þær raddir, sem koma frá nemendum skólans, — að í þeirra hópi hefur farið fram könnun um þetta ákveðna atriði, hvort rétt væri að flytja skólann frá Reykjavík. Og í þeirri könnun hefur komið fram, að 72.6% nemenda skólans vilja, að hann verði staðsettur í Reykjavík, en einungis 21.7% að hann verði fluttur norður. Hins vegar eru óákveðnir í þessari könnun 5.7%. Þetta er slík afdráttarlaus yfirlýsing um vilja nemendanna sjálfra, að ég held, að við verðum að taka tillit til þeirra nú, þegar hér fara fram umræður um málið.

Ég ætla ekki að fara að halda lengri tölu og bera fram fleiri rök gegn þessari till. Þó mætti vafalaust tína fram ýmis önnur, en ég vil einungis fordæma það orðalag, sem fram kemur í bréfi því, sem hv. þm. Gísli Guðmundsson las upp hér áðan, þegar hann gerði grein fyrir till., þar sem segir, að þetta einstaka mál sé prófmál á það, hvort alþm. vilji efla byggðina úti á landi. Mér finnst það ósæmilegt að stilla alþm. á þennan hátt upp við vegg og segja, að samþykki þeir ekki till. sem þessa, þá séu þeir andsnúnir jafnvægi og eðlilegri byggðaþróun á Íslandi. Þessu hljóta alþm. að mótmæla. Og ég fyrir mína parta hef verið fylgjandi því, að staðið væri þannig að málum, að landsbyggðin væri efld og komið væri á heilbrigðu byggðajafnvægi á Íslandi, því að ég geri mér grein fyrir, að margt í þeirri þróun, sem átt hefur sér stað á síðustu árum í byggðarmálum, er mjög óheppilegt og getur leitt til ófarnaðar. En ég tek undir þær raddir, sem hér hafa komið fram hjá öðrum þm., síðasta hv. þm., að ég tel, að það séu margar stofnanir, sem betur færi á að staðsetja norður í landi, og það mál vildi ég skoða frekar.

Að lokum vil ég taka það fram, að ein grundvallarforsenda þess, að hægt sé að byggja upp öflugan tækniskóla og tæknimenntun á Íslandi, er, að fyrr sé búið að byggja upp fullkomna verknámsskóla fyrir iðnaðarmenn okkar. Ég held, að það sé heppilegt, að þeir, sem leggja út í tækninám, komi úr röðum iðnaðarmanna fyrst og fremst. Því er nú brýnna en flest annað að bæta menntunaraðstöðu þeirra, og ég vil minna þá þm., sem að þessari till. standa og hana styðja, á það, að nú eru u.þ.b. sex ár síðan hv. Alþ. samþykkti að koma upp verknámsskóla iðnaðarins á Akureyri og þegar hefur afskaplega lítið verið hafizt handa um að byggja þann skóla upp. Og ég held, að ég fari ekki með rangt mál, þegar ég segi, að það hafi ekki verið sköpuð nein veruleg verknámsaðstaða fyrir Iðnskólann á Akureyri, eins og þó ætti að vera búið að gera. Iðnskólinn þar mun að einhverju leyti hafa afnot af vélakosti vélskólastigs, sem þar hefur aðsetur. Þannig er nú búið að þessu námsstigi, og þeir ágætu Akureyringar og Norðlendingar, sem vilja efla byggðarlag sitt, og ég veit, að þeir vilja það heils hugar, ættu að taka höndum saman um að byggja upp veglegan, góðan verknámsskóla iðnaðarins á Akureyri, svo að sómi væri að. Það stæði þeim nær, eins og málum er nú háttað. Ég hef ekki fleiri orð um þetta.