14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

1. mál, fjárlög 1972

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér tvær brtt. í sambandi við afgreiðslu þess fjárlagafrv., sem hér er til umr.

Fyrri till. er brtt. við brtt. hv. fjvn. á þskj. 174, um framlög til sumardvalarheimila, dagheimila og vistheimila fyrir börn úr bæjum og kauptúnum. í brtt. minni er gert ráð fyrir, að framlag til þessara mála hækki í 2.5 millj. kr. Ég vil taka það fram, að ég er sízt að vanþakka það, að hv. fjvn. hækkaði þennan lið upp í 1.5 millj. úr 900 þús., auk þess sem byggingarstyrkir dagheimila hækka um 200 þús. Þegar hugað er að allsherjar fjárþörf í þessum málum, má með sanni segja, að ég sé ekki stórtæk í kröfugerð. En eins og n. bendir réttilega á í nál. sínu og fram kom hér í ræðum þeirra beggja, hæstv. fjmrh. og hv. formanns fjvn., þá er áformað, að sett verði sérstök lög um stuðning ríkisins við rekstur og byggingu dagheimila. Nefnd til undirbúnings slíkri löggjöf mun fljótlega taka til starfa, og hefur Alþb. þegar tilnefnt fulltrúa sinn í þá nefnd. Það hljóta því að teljast eðlileg vinnubrögð, að tugmilljóna króna framlög haldist í hendur við uppbyggingu þessara mála frá grunni, og er ekki nema sanngjarnt að fallast á það sjónatmið fjvn., að önnur viðhorf gildi nú í ár en endranær, þegar veitt er fé til þessara mála. Samt er enn óbrúað stórt bil milli fjárþarfar og fjárveitingar á árinu 1972.

Mér er ljóst, að 2.5 millj. er ekki nema eins og dropi í hafið, þegar höfð er í huga fjárþörfin á höfuðborgarsvæðinu, en þegar ég leyfi mér að fara fram á þessa hækkun, þá hef ég einkum í huga dagheimili og leikskóla úti á landsbyggðinni, sem mundi muna verulega um aukna fjárhæð þangað til heildarskipulag er komið á. Ég nefni sem dæmi dagheimilið á Ísafirði, sem barnaverndarfélagið þar hefur rekið en varð að gefa upp á bátinn meðfram vegna fjárhagsörðugleika. Bærinn tók því við rekstrinum á s.l. hausti, og til að koma dagheimilinu þar í viðunandi horf, sem standist ströngustu kröfur nútímans, mun þurfa mun hærri fjárhæð en það heimili hefur fengið á undanförnum árum. Þar þarf aukið starfslið og aukin tæki. Sérfróðir menn hafa metið, að leikföngin ein muni kosta um 100 þús. kr. Til samanburðar má geta þess, að styrkur til þessa barnaheimilis var á árinu 1969 54 þús. kr. og á þessu ári 75 þús. kr.

Ég lít svo á, að hækkun um eina millj. kr. mundi gera mörgum slíkum dagheimilum úti á landi fært að halda starfsemi sinni áfram og bæta þar úr brýnustu þörf á því tímabili, sem hér um ræðir, þar til þessum málum hefur verið komið í skipulegt og víðunandi horf á vegum ríkisins. Ég vona fastlega, að hv. fjvn. taki till. þessa til athugunar, og í trausti þess tek ég hana aftur til 3. umr.

Herra forseti. Í öðru lagi hef ég leyft mér að flytja brtt. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1972 þess efnis, að ríkisstj. verði heimilt að innheimta ekki aðflutningsgjöld af tækjum til notkunar lyfja fyrir sykursjúka né af nauðsynlegum fæðutegundum fyrir slíka sjúklinga, og setji fjmrn. nánari ákvæði þar að lútandi. Sykursýkisjúklingar munu vera um 2600 hér í Reykjavík einni, og eru þá ótaldir þeir, sem annars staðar á landinu búa. Þá er það athyglisverð staðreynd, að sjúkdómstilfelli meðal barna og unglinga fara vaxandi, eftir því sem læknar upplýsa. Sykursýkisjúklingar eru nú í þann veginn að bindast samtökum til að hrinda í framkvæmd ýmsum hagsmunamálum sínum, en ég held, að óhætt sé að segja, að samfélagið í heild hafi ekki gefið sérþörfum þessara sjúklinga nægilegan gaum.

Efni þessarar till. minnar stefnir í þá átt að létta útgjöldum af sykursýkisjúklingum og heimilum þeirra, en sum þessara útgjalda eru þeim beinlínis lífsnauðsyn. Svo sem kunnugt er geta sykursýkisjúklingar lífað eðlilegu lífi í öllum þýðingarmestu atriðum, ef þeir gæta sérstaks mataræðis mjög nákvæmlega og gera aðrar nauðsynlegar varúðarráðstafanir. Meðal þessara nauðsynlegu varúðarráðstafana eru daglegar insúlínsprautur. Sprautur, sem sjúklingarnir nota, verða þeir að greiða fullu verði í lyfjabúðum. Sprauturnar eru til af ýmsum gerðum og á ýmsu verði, en öllum er það sameiginlegt, að ríkið innheimtir af þeim 35% toll. Hér er um útgjöld að ræða, sem eru í fyrsta lagi nauðsynleg til að halda lífi í sjúklingnum, og í öðru lagi útgjöld, sem þeir verða að þola alla ævina, því að insúlínsprautur munu ómissandi, þegar veikin kemur fram snemma, eða þegar á bernsku- eða unglingsárum.

Þegar þetta er haft í huga, virðist augljóst réttlætismál, að ríkið létti nokkuð þessa útgjaldabyrði með því að afnema þessi aðflutningsgjöld, og komi þannig til móts við sérþarfir þessara sjúklinga.

Ég vænti þess, að hv. þm. séu mér sammála um, að það sé engan veginn eðlilegt, að ríkið hagnist beinlínis á þessum brýnustu þörfum sykursýkisjúklinga.

Í öðru lagi hef ég gert að till. minni, að ríkisstj. sé heimilað að afnema aðflutningsgjöld af ýmsum matvælum, sem ætluð eru sykursýkisjúklingum. Fyrir sykursýkisjúklinga er það mjög mikilvægt, að fæðið sé svipað að magni og gæðum frá degi til dags og hlutföllin á milli kolvetnis, eggjahvítu og fitu séu rétt. Enda þótt læknar geri sitt ítrasta til þess að útbúa þessum sjúklingum þann matarskammt, sem gefi tilefni til mestrar mögulegrar fjölbreytni, er það samt sem áður svo, að fæði þeirra hlýtur óhjákvæmilega að vera einhæft og þeim margt meinað, sem venjulegt fólk telur sjálfsagða fæðu.

Á markaðnum eru ýmsar vörur, sem eru sérstaklega framleiddar í því skyni að auka fjölbreytni í mataræði og gera þessum sjúklingum kleift að neyta ýmissar fæðu, sem áður var óhugsandi. En sá hængur er á, að þessar vörur eru mjög miklu dýrari en samsvarandi vörur, sem innihalda venjulegan sykur. Tilfinnanlegust útgjöld eru kaup á gervisykri, en gervisykur kostar 350 kr. kg, venjulegur strásykur 28–29 kr. kg. Dósaávextir, hrökkbrauð og kex fyrir sykursjúklinga er um helmingi dýrara en samsvarandi vörur venjulegar. Þessar sérstöku vörur munu dýrari í framleiðslu og innkaupi en aðrar, og þegar aðflutningsgjöld og önnur gjöld eru á lögð, er ógjörningur fyrir sykursjúka að leyfa sér þessa fjölbreytni í fæðu án verulegra aukaútgjalda.

Foreldrar, sem eiga sykursjúkt barn, vilja gjarnan veita því dósaávexti og kex, ekki síður en börnum sínum heilbrigðum. En slíkt lítilræði hefur svo mikil aukaútgjöld í för með sér, að mörg heimili ráða ekki við það. Það er einkum sú hlið, sem að börnunum snýr, sem ég vil leggja áherzlu á. Að vísu eru ekki allar þessar matvælategundir nauðsynlegar frá læknisfræðilegu sjónarmiði, en hin félagslega hlið málsins má heldur ekki gleymast. Meðan þessar vörur eru svo dýrar í innkaupi sem raun er á, verður afleiðingin sú, að hinir efnameiri geta leyft sér að kaupa þær, hinir efnaminni neyðast til að neita sér um þær. Það er sannfæring mín, að þjóðfélagið gæti gert þessum sykursjúku börnum og þessu fólki öllu lífið bærilegra, ef svo væri um hnúta búíð, að þeir þyrftu a.m.k. ekki að borga meira fyrir mat sinn en þeir, sem heilbrigðir eru. Því hef ég leyft mér að flytja þessa till.

Æskilegast væri, að afnám þessara gjalda væri gert með breytingu á tollskrárlögum. En ég hef kosið að fara þessa leið í þeirri von, að breytingin gæti komizt í framkvæmd sem allra fyrst.

Í trausti þess, að hv. fjvn. muni taka þessa till. mína til athugunar, tek ég hana aftur til 3. umr.