02.11.1971
Sameinað þing: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í D-deild Alþingistíðinda. (4694)

903. mál, þjóðvegir í kaupstöðum og kauptúnum

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka samgrh. skýr og greinargóð svör við án efa ófullkominni fsp. minni, en ég vil undirstrika það sérstaklega, að ákvæðin um þéttbýlisvegaféð eru þannig, að þau leysa allan vanda jafnt miðað við fólksfjölda, eins og einmitt var tekið fram, en engan veginn sérstaklega miðað við þá almennu þjóðvegaumferð, sem er á hverjum stað. Og vegna þess er það glöggt, að þeir staðir, sem taka við mestri slíkri umferð, verða að fá frekari fyrirgreiðslu en aðrir. Og ég treysti því fullkomlega, að hæstv. ráðh. og samverkamenn hans muni vinna hér að, svo að þar fáist á nokkur bót.