14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

1. mál, fjárlög 1972

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Umr. um fjárlagafrv. hefur nú staðið á áttundu klst. og í hverri ræðu, sem flutt er, kemur betur fram, að Alþ. stendur nú andspænis einhverju stórbrotnasta og erfiðasta vandamáli, sem það hefur fengið til úrlausnar. Spurningar reka hver aðra, óleyst vandamál birtast hvert á fætur öðru, en það er lítið um svör af hálfu hæstv. ráðh., það er lítið um úrræði til lausnar á vandamálum.

Ég mun þó ekki gera fjárlagafrv. sem heild að umræðuefni, en láta mér nægja að gera stuttlega grein fyrir nokkrum brtt., sem ég og tveir flokksbræður mínir flytjum og prentaðar eru á þskj. 194. Allt eru þetta tiltölulega lítil mál fjárhagslega og sum, sem snerta eitt ákveðið kjördæmi.

Fyrsta till. á þessu þskj. er á þá lund, að fjárveiting til almennrar ráðstöfunar eða til svo kallaðra annarra rekstrargjalda fyrir náttúruverndarráð verði hækkuð um helming, úr 765 þús. í 1.5 millj. Í þessu sambandi vil ég minna á, að Alþ. afgreiddi s.l. vetur ný og stórmerk lög um náttúruvernd. Með þessum lögum sýndi Alþ. skilning sinn á þeirri bylgju, sem gengið hefur yfir heiminn og okkar land líka, hvað snertir viðhorf mannsins til umhverfis og náttúru. Sá höfuðgalli var á þessum lögum, að þar var ekki gert ráð fyrir neinum sérstökum tekjustofni til náttúruverndar, heldur var það sett á vald Alþ., hversu miklu fé yrði til þessara mála varið. Það er ákaflega lítið, sem farið er fram á í þessari till., raunverulega aðeins brot af því, sem við ættum sóma okkar vegna og stærðar þessa máls að leggja fram, en þó mundi þessi aukning á fjárveitingu gefa náttúruverndarráði örlítið svigrúm til margvíslegrar byrjunarstarfsemi, t.d. kynningarstarfsemi, sem þarf að verða fyrsti þátturinn í starfi þess eftir endurskipulagninguna. Í þessu sambandi vil ég benda á, að kostnaður við þjóðgarðinn í Skaftafelli er færður upp sem sérstakur liður í fjárlagafrv., en samkv. hinum nýju náttúruverndarlögum á náttúruverndarráð að fara með stjórn þjóðgarða. Það hefði því verið eðlilegra, að þjóðgarðurinn kæmi undir fjárveitingu ráðsins.

Önnur till. á þessu þskj. er á þá lund, að fjárveiting til Neytendasamtakanna verði aukin til muna. Hún á að verða 125 þús., en það er lagt til, að hún fari upp í 1 millj. Allar ríkisstj. og allir flokkar á Íslandi keppast um að lýsa áhuga sínum á að halda verðbólgu í skefjum og bæta hag almennings. Við vitum, að einn af nauðsynlegustu þáttum til að slík starfsemi geti náð tilgangi sínum eru öflug neytendasamtök, sem vinna að því að upplýsa neytendur og gera þeim kleift að hagnýta kaupgetu sína sem bezt. Í þessum efnum höfum við verið langt á eftir nágrannalöndum okkar. Þó eru hér þróttmikil neytendasamtök, sem hafa látið allmikið til sin heyra síðustu ár, og er rík ástæða til að veita þessum samtökum miklu meiri styrk en hingað til hefur verið talað um og hygg ég, að það mundi fljótlega skila sér til neytenda í landinu. Alþfl.-menn hafa lagt fram fyrirspurn um neytendamál fyrr á þessu þingi og hafa komið fram upplýsingar um, að samin hafi verið ný lög um neytendamál að frumkvæði fyrrv. viðskrh. Þess er því að vænta, að hæstv. ríkisstj. taki það frv. föstum tökum og komi neytendamálum á fastari grundvöll en verið hefur. Eitt af því, sem gera þarf í þeim tilgangi, er að efla núverandi neytendasamtök og gera þeim kleift að auka starfsemi sína.

Þriðji liðurinn á þessu þskj. er till. um, að rekstrarstyrkur sjómannaheimila verði hækkaður úr 150 þús. í 800 þús. Yfirleitt er það svo, þegar rætt er um fjárveitingar úr ríkissjóði, að viðkomandi aðilar eru reiðubúnir að taka við fénu og nota það. Ég er ekki alveg viss um það, að sjómannaheimilin, sem eru litlar og veikar stofnanir um allt land, eigi von á miklum fjárveitingum, en ég tei. að í þessu tilfelli ætti að koma til frumkvæði frá ríkisstj. með því að veita meira fé en gert hefur verið. Ætti ríkisstj. að snúa sér til þeirra, sem stjórna sjómannaheimilunum, fá þeim þetta fé og biðja þá um að auka starfsemi sína og gera betur en hingað til. Það er vissulega rík þörf á því, að sjómenn hafi þessi heimili til að snúa sér að, þegar um landlegu hjá þeim er að ræða fjarri heimilum. Ég geri mér vonir um allgóðan stuðning við þessa till., vegna þess að upphæðin er samhljóða till., sem hæstv. sjútvrh. flutti um þetta sama efni á síðasta þingi. Vona ég, að áhugi hans á velferð sjómanna hafi ekki minnkað síðan þá.

Næstu fimm till. á þessu þskj. eru um kjördæmismál á Vesturlandi, á Akranesi og í Borgarnesi. Fyrsta till. er um íþróttahús á Akranesi, að fjárveiting verði hækkuð úr 1.5 í 2 millj. kr., en það er sú upphæð, sem bæjaryfirvöld á Akranesi telja sig geta komizt af með lægsta. Íþróttir skipa veglegan sess í bæjarlífi á Akranesi, og af þeim sökum hafa Akurnesingar lagt í að byggja mjög myndarlegt íþróttahús. Árangurinn hefur því miður orðið sá, að fjárskortur hefur dregið úr framkvæmdum og húsið hefur staðið hálfsmíðað, án þess að því miðaði eins vel og æskilegt er. Ég tel því ástæðu til að láta þessa og aðrar framkvæmdir ekki ganga svo hægt, að unnt sé að tala um mjög óhagkvæm not á fjármunum, og væri því rík ástæða til þess að auka þessa fjárveitingu. 1 Borgarnesi er verið að undirbúa og hyrja á nýju íþróttahúsi af sama tagl. Sú fjárveiting, sem gert er ráð fyrir, er allmiklu lægri en Borgnesingar höfðu búizt við og þurfa að fá, og er till. um að hækka hana upp í 3 millj.

Sjúkrahúsið á Akranesi er eitt af stærri sjúkrahúsum á landinu, og þar hafa undanfarin ár staðið yfir stórfelldar byggingarframkvæmdir til þess að auka það og bæta. Bæjaryfirvöld telja sig þurfa að fá minnst 10.6 millj., sem er till. mín, en í núv. till. fjvn. er allmiklu lægri upphæð.

Hafnarmannvirki á Akranesi eru þar eins og víðar mikilvæg, og er nú undirbúið að vinna framkvæmdir, sem að eðlilegum ástæðum hefði átt að vinna fyrir 10–15 árum, lengingu á aðalgarðinum. Til þessara framkvæmda höfðu Akurnesingar óskað eftir 13 millj. kr., en framlag til þeirra er verulegra lægra samkv. till. fjvn.

Síðasta till. á þessu þskj. er á þá lund, að ríkisstj. verði heimilt að gera ráðstafanir til þess, að andvirði söluskatts af bókum renni til rithöfunda og höfunda fræðirita sem viðbótarritlaun. Undanfarin ár hafa íslenzkir rithöfundar hert mjög á baráttu sinni fyrir bættum kjörum. Þeir hafa á ýmsum sviðum náð nokkrum árangri, en eiga þó langt í land til þess, að hægt verði að segja að Íslendingar búi að þeim á þann hátt, að það beri vott um þann bóka- og fræðaáhuga, sem við höfum gjarnan þótzt hafa. Ein þeirra hugmynda, sem rithöfundar hafa borið fram, er, að söluskattur af bókum verði notaður til að bæta kjör þeirra, sem bækurnar skrifa. Er auðvelt að sýna fram á, að frumhöfundar þessara verka fái tiltölulega minnst af þeim fjármunum, sem varið er til að koma bókunum á almennan markað. Á hinn bóginn verður að telja það óeðlilegt, að ríkið noti þessa starfsemi sér til tekjuauka upp á e.t.v. 2–3 tugi millj., en aðstoð ríkisins við bókmenntastarfsemi og fræðistarfsemi sé aðeins brot af því fé. Fyrir nokkrum dögum fluttu þrír hv. alþm. þáltill. um þetta mál. Samkv. henni á Alþ. að álykta að skora á ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess, að andvirði söluskatts af bókum renni til rithöfunda og höfunda fræðirita sem viðbótarritlaun.

Ég vil sýna stuðning minn við þessa till. og hugmyndina með því að flytja hana efnislega orðrétta inn í fjárlög, því að það vill svo til, að þessi till. fellur ágætlega inn í 6. gr., og er að öllu leyti sama eðlis og allmikið af málum, sem þar eru leyst. Ég hef allgóða von um, að stjórnarandstæðingar muni upp til hópa verða vinsamlegir þessari till. og með þremur flm. þáltill. ætti málið að vera svo gott sem komið í höfn. Mundu þá íslenzkir rithöfundar vinna allmikinn og glæsilegan sigur í kjarabaráttu sinni.