01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í D-deild Alþingistíðinda. (4855)

143. mál, söluskattur á raforku til húshitunar

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það er nú venja í sambandi við fsp. að byrja ekki með stóru hnútukasti, þó að þær hafi stundum leitt til þess, að hnútur hafi flogið á milli manna. Ég mun því ekki láta sið þann, sem hv. fyrirspyrjandi, 5. þm. Norðurl. e., tók upp, þegar hann gerði grein fyrir fsp. sinni, setja mig út af lagi í sambandi við ræðu hans og hnútuköst, heldur gefst nú tækifæri til þess að ræða þau seinna, en vildi aðeins minna þennan hv. þm. á það, fyrst hann vissi það ekki, að ég hef engan nýjan skatt lagt á þá Akureyringa sérstaklega. Það er þá við annan að sakast, ef á þá hefur verið lagður sérstakur skattur. En út af fsp. á þskj. 253 um sölu á raforku til húsahitunar vil ég gefa eftirfarandi svar:

Ástæðan fyrir fsp. er sú ákvörðun ríkisstj. að fella niður söluskatt af hitaveitugjöldum og olíu til húsakyndingar frá 1. sept. s.l. Það var hugsunin, þegar sú ákvörðun var upphaflega tekin, að fella einnig niður söluskatt af raforku til húsahitunar. En í ljós kom við nánari athugun, að ýmsir vankantar voru á framkvæmd þessa, vegna þess að það var ekki um að ræða nema að litlu leyti, að sú raforka væri sérstaklega mæld.

Vandkvæðin, sem gerðu það að verkum, að þessi liður lá eftir, eru í fyrsta lagi þau að engin leið var að fella niður söluskatt á raforku til húsahitunar nema að því marki, sem hún var sérstaklega mæld og þannig aðgreind frá sölu á annarri raforku, sem er söluskattsskyld. Mátti draga í efa, hvort ráðh. væri samkv. gildandi lögum heimilt að fella niður söluskatt á tiltekna þjónustu til þessara tilteknu þarfa og þá eftir því, hvort hún var sérmæld eða ekki. Jafnvel þó að niðurfelling söluskatts á raforku í samræmi við það, sem að framan segir, teldist framkvæmanleg, er vert að hafa auga á því, að sú aðferð felur einnig í sér misrétti milli þeirra, sem kaupa raforku til húsahitunar sérmælda, og hinna, sem nota raforku til húsahitunar jöfnum höndum með öðrum notum, án þess að sú orka sé sérmæld. Dæmi um þetta eru mjög algeng í sveitum, þar sem bóndi kaupir ákveðinn fjölda kw á ári og tengir rafhitunartæki á þeim tíma sólarhringsins, þegar hann notar ekki raforkuna til annarra þarfa. Með niðurfellingu söluskatts á sérmældri raforku til húsahitunar mundi slíkur notandi greiða söluskatt af sinni húsahitun, en ekki sá notandi, sem fær raforkuna til húsahitunar sérmælda, svo að það leysti þess vegna ekki málið, þó að stefnt væri að því að reyna að leysa það með þeim hætti. Mál þetta hefur og verið til sérstakrar athugunar í fjmrn., og hefur niðurstaða ekki enn verið fundin eða ákvörðun tekin um, hvernig skuli leysa það, en það er unnið að því að reyna að finna lausnina, svo að allir aðilar sitji við sama borð í þessu máli.