01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í D-deild Alþingistíðinda. (4863)

148. mál, sala á kartöflum

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði hér síðast, vil ég nú segja það, að ég hef alltaf ánægju af að ræða við hann, hvort sem það er um kartöflur eða annað, og mun geta gert það og látið hann fylgjast með því, sem þar kann að verða gert. Og svo er um aðra þm. Sunnl., sem ég veit að hafa áhuga á þessu máli, vegna þess að það mál er meira brennandi spursmál á Suðurlandi en annars staðar.

Hitt er svo annað mál, að það er rétt, að lausnin hefur ekki verið fundin, eins og ég skýrði frá áðan, og var ég ekki að gefa neinar falskar vonir þar um. Eins og þessi hv. þm. veit, er ekki um það að ræða, að skylt sé að greiða 10% af heildarframleiðslu landbúnaðar í útflutningsbætur, heldur er það heimilt, og lengra má ekki fara í því. Og áætlun sú, sem nú er í fjárlögum, er byggð á áætlun frá framleiðsluráði landbúnaðarins um horfur þar um, og sama er að segja um tölur þær, sem ég gaf hér upp um hugsanlegt magn kartaflna, sem ekki yrði selt.

Út af því, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði um útflutninginn, þá er þar til að svara, að ástæðan til þess, að ekki var út í það farið, var verðið. Það verð, sem hefði fengizt fyrir þessar kartöflur í Færeyjum, sem var þó bundið við sérstaka tegund, sem var hér mjög litið af, var ekki nema 3.80 kr. á kg. Þess vegna hefðu útflutningsuppbæturnar orðið að vera 13.50 kr. á hvert kg, ef það hefði átt að ná fullu verði, og söluverðið hefði því aðeins verið 21% af innanlandsverðinu. Það má hver lá mér sem vill, en ég held, að ég hafi ekki verið einn um að álíta, því að forustumenn bændasamtakanna horfðu einnig á þetta, að hér væri um mjög óhagstæð viðskipti að ræða, og þess vegna var nú horfið frá þessu ráði, af því að það gaf svo litið. Allir vita það, að miklum fjármunum er varið úr ríkissjóði til niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta, svo að það þarf engan að undra, þó að menn reyni að nýta þessa hluti sem allra bezt.

Eins og áðan sagði, hélt ég fund í haust með formanni Stéttarsambands bænda og framkvæmdastjóra framleiðsluráðs og Grænmetisverzlunarinnar, og átti einnig um þetta mál viðræður við nokkra bændur, og í framhaldi af þessum fundi var svo fundur með framleiðendum, sem Grænmetisverzlunin hélt. Þetta mál er enn þá til athugunar, og engum væri það meira virði en mér, nema þó reyndar framleiðendunum sjálfum, ef hv. 1. þm. Sunnl. hefði þar „patent“, sem hann gæti kennt okkur til þess að koma þessu í gott verð. Og skal ég með gleði taka á móti þeirri lausn, sem hann hefði þar á að benda. Hitt er annað mál, að ég lít á þetta eins og vandamál. sem skapaðist við það, að framleiðslan fór mikið fram úr því, sem reiknað var með. En ég tek undir það með honum, að auðvitað höldum við áfram að rækta kartöflur og reynum allir að búa okkur undir það, að eitt og eitt ár eða kannske fleiri geti orðið um offramleiðslu að ræða, og auðvitað er það miklu hagkvæmara en þegar framleiðslan gengur illa, því að það gefur að sjálfsögðu miklu meiri tekjur, jafnvel þó að ekki sé hægt að koma öllu í verð. Og ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar til þess að koma kartöflunum í góða geymslu nú, eiga að gera það að verkum, að innanlandssalan verður meiri en venja hefur verið, og mætti það verða til þess að bæta úr þessu. En ég endurtek það, að landbrn. er í samstarfi við Stéttarsamband bænda og framleiðsluráð um að reyna að leita að hagkvæmustu lausn þessa máls.