22.02.1972
Sameinað þing: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í D-deild Alþingistíðinda. (4975)

920. mál, ráðstöfun minningarsjóðs

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Í skipulagsskrá dags. 14. okt. 1914 var stofnaður minningarsjóður hjónanna Jóhanns Jóhannessonar og Sigurbjargar Guðnadóttur. Gert var ráð fyrir, að stofnfé þessa sjóðs gæti orðið um 100 þús. kr., sem var mikið fé í þá daga, en fjármunir þessir voru í fasteignum, sem ég ætla, að selja skyldi. Í 3. gr. skipulagsskrárinnar segir svo:

„Tilgangur sjóðsins er að veita fátækum, ellihrumum mönnum og konum eldri en 65 ára, sem ekki hafa notið sveitarstyrks frá fullnuðu þrítugasta aldursári til fullnaðs fimmtugasta og fimmta aldursárs, íslenzkum búsettum hér á landi lífsuppeldi til dauðadags, sjá þeim fyrir öllum nauðsynjum og loks kosta sæmilega útför þeirra.“ Og í 4. gr. segir: „Til þess að fullnægja framangreindum tilgangi sjóðsins skal kaupa fyrir fé hans jörð í sveit á heilnæmum stað, þar sem fagurt er og vistlegt til dvalar fyrir gamalmenni. Skal jörðin vera hæfilega stór til þess að gamalmenni þau, sem sjóðurinn tekur að sér, geti haft þar hæfilega líkamlega vinnu sér til afþreyingar. Á þessari jörð skal á kostnað sjóðsins byggja hús vel traust úr því efni, sem telst endingarbezt.“

Enn fremur segir í 5. gr.: „Sjóðurinn stendur undir stjórn Stjórnarráðs Íslands. Það ræður kaupum á jörð samkv. 4. gr. og áhöfn á hana og sér um byggingu húss þess, sem þar ræðir um.“

Nú er mér kunnugt um það, að grennslazt hefur verið eftir því í seinni tíð, hvort byggt mundi verða elliheimili í sveit fyrir fé þessa sjóðs og skipulagsskráin framkvæmd. Því mun hafa verið svarað til, að í skipulagsskránni séu ákvæði, sem geri hana í rauninni óframkvæmanlega, eins og nú er komið málum. Sé það svo, þá verður ekki náð tilgangi skipulagsskrárinnar nema með því að gera á henni einhverjar breytingar. Mér sýnist, að með einhverjum hætti þurfi að koma því í kring, að fé þessa sjóðs nýtist í samræmi við tilgang gefendanna. Enn fremur leikur mér forvitni á að vita, hvernig sjóðurinn hefur ávaxtazt á þeim 60 árum, sem liðin eru síðan hann var stofnaður. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. á þskj. 333 til ríkisstj.:

1. Hefur ríkisstj. í hyggju — og ef svo er, þá hvernig — að koma því í kring, að minningarsjóður hjónanna Jóhanns Jóhannessonar og Sigurbjargar Guðnadóttur, sem stofnaður var með skipulagsskrá 14. okt. 1914, nýtist til stofnunar elliheimilis í sveit nú á næstunni?

2. Hverjar eru eignir sjóðsins nú?