18.04.1972
Sameinað þing: 57. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í D-deild Alþingistíðinda. (5047)

926. mál, lausn Laxárdeilunnar

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er nú langt síðan þessi fsp. var til umr., og hv. fyrirspyrjandi hefur vikið af þingi, hv. 6. landsk. þm., hv. varaþm. Stefán Jónsson. Það var vegna ummæla hans, að ég kvaddi mér hljóðs, vegna þeirra orða, sem hann viðhafði. Það mátti skilja það á ummælum hans, að fyrrv. ríkisstj. ætti sök á þeirri deilu, sem hefur orðið vegna virkjunar við Laxá.

Það liggur alveg skýrt fyrir, að fyrr. ríkisstj. gaf leyfi til virkjunar innan þeirra marka, sem löglegt var, og á þess vegna enga sök á því, að þarna hófst deila. Deilan hefur verið og er á milli landeigenda og Laxárvirkjunarstjórnar. Leyfisbréfið var gefið út 23. sept. 1969 og heimilaði að virkja 7 mw., en samkv. Laxárvirkjunarlögum er heimilt að veita leyfi til að reisa allt að 12 þús. kw. eða 12 mw. virkjun. Sumarið 1969 óskuðu menn úr Laxárvirkjunarstjórn eftir heimild til þess að mega virkja meira en hér er um að ræða. Ég tók skýrt fram, að ég væri ófáanlegur til þess að flytja frv. til l. um heimild til stærri virkjunar en gildandi heimild miðaðist við. Í áðurnefndu bréfi var fram tekið, að ef Laxárvirkjunarstjórn legði í aukakostnað við 1. áfanga umfram það, sem þyrfti til þeirrar virkjunar, sem leyfð var, þá gerði hún það að öllu leyti á sina ábyrgð. Rn. tók fram í nefndu bréfi, að engin fyrirheit væru gefin um stærri virkjanir en framangreind lög gera ráð fyrir, þ.e. 12 mw. virkjun. Það er þess vegna vitað mál, að ef Laxárvirkjunarstjórn hefði ekki farið út fyrir þennan ramma og ekki lagt grundvöll að stærri virkjun en leyfð var, þá hefði engin Laxárdeila risið, þá hefði engin Miðkvíslardeila orðið og engin deila yfirleitt út af þessum málum. Hermóður Guðmundsson tekur það skýrt fram í grein, sem hann skrifaði í Morgunblaðið í fyrra mánuði, að ef Laxárvirkjunarstjórn hefði haldið sig víð rn: leyfið, og vitnar hann þá í áðurnefnt bréf, hefði engin Laxárdeila átt sér stað.

Bjartmar Guðmundsson fyrrv. alþm. skrifaði hógværa og rökfasta grein í Morgunblaðið hinn 27. febr. 1971. Í þessari grein segir Bjartmar m.a.:

„Hin svokallaða Laxárdeila upphófst með furðulegum tiltektum ráðamanna Laxárvirkjunar og móðgunum í garð héraðsbúa í Þingeyjarsýslu fyrir utan ráðagerðir um mikla eyðileggingu sérstæðra náttúrufyrirbæra og fjárhagslegan óskunda í héraðinu.“

Bjartmar Guðmundsson er hógvær og rökfastur og gat ekki orða bundizt, en hann veitir Suður-Þingeyingum eigi að síður hirtingu á öðrum stað í greininni vegna óbilgirni í þessari deilu.

Um áramótin 1969–1970 tóku gildi ný lög um Stjórnarráð Íslands, og varð þá ný verkaskipting í rn., sem miðaði að því, að skyldir málaflokkar væru sameinaðir í eitt og sama rn. Orkumálin voru því flutt í iðnrn. Jóhann Hafstein varð iðnrh. og tók við orkumálunum 1. jan. 1970. Flestir munu vera sammála um, að Jóhann Hafstein iðnrh. hafi gert allt, sem í hans valdi stóð, til þess að fá sættir í Laxárdeilunni. Efaðist enginn um vilja hans til þess að koma málinu í farsæla höfn. En því miður hefur það ekki tekizt enn. Núv. ríkisstj. hefur áreiðanlega fullan vilja á að finna heppilega lausn í þessu máli. Það efast enginn um það. Fullyrðingar Stefáns Jónssonar, hv. 6. landsk. þm., mun ég ekki blanda mér inn í eða leggja dóm á þær. En það eru allir hv. alþm. sammála um, að sætta þurfi þessi ólíku sjónarmið, sem eru ráðandi í Laxárdeilunni, annars vegar Laxárvirkjunarstjórnar og hins vegar landeigenda í Þingeyjarsýslu á Laxársvæðinu. Ég efast ekkert um, að núv. hæstv. iðnrh. gerir það, sem í hans valdi stendur, til þess að heppileg lausn fáist.