28.02.1972
Neðri deild: 44. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

132. mál, Jarðeignasjóður

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Í lögum um Jarðeignasjóð ríkisins, sem eru nr. 54 frá 27. apríl 1967, segir í 1. gr., að sjóðnum sé heimilt að kaupa jarðir, svo sem hér segir:

1. Jörð, sem ekki selst með eðlilegum hætti, ef eigandi hennar verður að hætta búskap vegna aldurs eða vanheilsu.

2. Jörð, sem hefur óhagstæð búskaparskilyrði.

3. Jörð, sem ekki nýtur framlaga og lána, sem veitt eru til umbóta á lögbýlum, sbr. IV. kafla jarðræktarlaga nr. 22 frá 1965.

4. Jörð, sem er afskekkt og liggur illa við samgöngum. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er bætt við 5. tölul., þar sem stendur í 1. gr.:

„Jörð, sem eigandi hefur ekki tök á að sitja lengur vegna áhvílandi skulda, enda sé tryggt, að jörðin byggist samkv. lögum nr. 102 21. des. 1962, um ættaróðul og erfðaábúð.“

Það munu hafa verið svipuð ákvæði í lögum um Kreppulánasjóð, sem var, að ég held, starfandi á árunum 1933 og 1934, og er eflaust hugmyndin um þá lagabreytingu, sem hér er til afgreiðslu, úr þeim lögum komin.

Að undanförnu hefur nefnd starfað að því að rannsaka efnahag þeirra bænda, sem ekki gátu fengið fyrirgreiðslu í sambandi við breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, samkv. lögum um lausaskuldir bænda frá 25. apríl 1969. Það hefur komið í ljós við þá athugun, að skuldir nokkurra bænda eru svo háar, að óhugsandi er fyrir þá að ætla sér að búa áfram, nema því aðeins að þeir fái meiri fyrirgreiðslu en lög um breytingar á lausaskuldunum í föst lán fólu í sér.

Frv. þetta fjallar um það að heimila Jarðeignasjóði að kaupa jarðir, ef eigandi getur ekki búið vegna skulda, og skal þá leigja honum jörðina samkv. lögum um ættaróðul og erfðafestu. Kaupverð þessara jarða fer eftir samkomulagi, en náist það ekki, þá fer mat fram samkv. 8. gr. laga um Jarðeignasjóð. En samkv. þeirri gr. eru það þrír menn, sem eru tilnefndir til þess að meta jarðir, einn frá fjmrn., annar frá Stéttarsambandi bænda, og sá þriðji er tilnefndur af Hæstarétti.

Eftir því, sem mér er tjáð, hafa 24 bændur sótt um, að Jarðeignasjóður kaupi jarðir þeirra vegna fjárhagsörðugleika. En tæplega mun efnahagur þessara bænda vera svo, að þeir teljist allir þurfa að fá þá fyrirgreiðslu.

En horfur eru á, að u.þ.b. 20 bændur þurfi slíka fyrirgreiðslu, þegar allar umsóknirnar eru komnar. Það eru nú hátt á þriðja hundrað bændur, sem hafa óskað eftir að fá opinbera fyrirgreiðslu á skuldamálum sínum, auk þeirrar fyrirgreiðslu, sem þetta frv. felur í sér, þ.e. aukin lausaskuldalán, frestun á 5 ára afborgun lána hjá stofnlánadeild og veðdeild Búnaðarbankans og í þriðja lagi lækkun á skuldavöxtum. en til þess voru veittar 10 millj. kr. á fjárlögum yfirstandandi árs, eins og hv. þm. er kunnugt.

Eins og fram kemur á þskj. 360, mælir landbn. Nd. einróma með því, að þetta frv. verði samþ., eins og það kom frá Ed.