28.02.1972
Neðri deild: 44. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

132. mál, Jarðeignasjóður

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Landbn. hefur mælt einróma með þessu frv., eins og fram kom í ræðu frsm. n. Ég vil þó láta hér koma fram, að ég lít svo á, að hér sé um bráðabirgðaráðstöfun að ræða fremur en framtíðarstefnu, hvað lagasetningu snertir. Eins og frsm. vék að, er nefnd starfandi til þess að endurskoða lög um Jarðeignasjóð ríkisins, lög um ábúð, ábúðarlög, lög um ættaróðul og erfðafestu og fleiri lög, sem skyld eru. Það má ætla, að þau ákvæði, sem hér er um rætt í þessu frv., verði endurskoðuð til samræmis við þá heildarendurskoðun,sem þar fer fram.

Ef um framtíðarstefnu væri að ræða, sem fram kemur í þessu frv., þ.e. að heimila Jarðeignasjóði að kaupa jarðir af bændum, sem vegna fjárhagsörðugleika eru í greiðsluþrotum, þá væri farið inn á varasama braut, ef ekki yrði um leið tryggt til þess sérstakt fjármagn, því að þar með væri verið að gera Jarðeignasjóð að eins konar skuldaskilasjóði, og það er gagnstætt því hlutverki, sem honum var í upphafi ætlað. Það er aðallega þetta, sem ég vildi láta koma hér fram, að verði framhald á þessu ákvæði í lögunum, þá þarf að ætla til þessa alveg sérstakt fjármagn. Til þess að Jarðeignasjóður geti sinnt því hlutverki, sem honum var í upphafi ætlað, en það er, eins og hv. alþm. er kunnugt, að kaupa jarðir og í sumum tilvikum lána sveitarfélögum til að kaupa jarðir af bændum, sem verða að yfirgefa þær, en geta ekki komið þeim í verð með öðrum hætti, þarf hann á sínu fjármagni að halda. Og það hlutverk er mjög þýðingarmikið.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram. Ég vil þó aðeins segja það líka, að ef ætti að tíðka þetta í mjög ríkum mæli, fæli það í sér, að margar jarðir bænda kæmust í ríkiseign, og það út af fyrir sig er óheillavænleg þróun að mínu mati fyrir landbúnaðinn. Hins vegar er það talið og kom fram bæði í landbn. og viðræðum við þá menn, sem staðið hafa að því að semja þetta frv., að það sé brýnt úrlausnarefni fyrir fáa bændur í landinu að fá þetta frv. afgreitt nú. Því var það mín afstaða að mæla með samþykkt þess og taka þessi mál á seinni stigum til nánari athugunar, þegar þessi lög koma í heild fyrir Alþ. eftir þá endurskoðun, sem yfir stendur.