07.03.1972
Neðri deild: 47. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt með því að þakka hv. fjhn. fyrir að hafa lokið störfum við athuganir á skattafrv., svo að það er nú hér til 2. umr. Enda þótt mörgum finnist, að sá tími hafi verið alllangur, sem fór til athugunar á því, þá liggja til þess nokkrar ástæður og m.a. sú, að það varð samkomulag á milli ríkisstj. og stjórnarandstöðunnar að fresta aðgerðum í þessum málum, meðan fundur Norðurlandaráðs átti sér stað. Þar er því að finna nokkra skýringu á því, að svo mikill tími hefur farið í þetta mál í hv. n. Hins vegar er svo það að segja, að báðar n. þd. hafa unnið saman, og hefur jafnhliða verið unnið að báðum þessum málum, frv. um tekju- og eignarskatt og frv. um tekjustofna sveitarfélaga. Og það er svo sem ekkert óeðlilegt við það, þótt það taki nokkurn tíma að vinna að svo veigamiklum atriðum í tekjuöflun, sem hér eru á ferð. Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, en endurtek þakkir mínar til nm. fyrir það mikla starf, sem þeir eru búnir að inna af hendi.

Það hefur komið inn í þessar umr. og hefur verið kannske meginmálið í umr. þeirra hv. þm., sem talað hafa hér sem frsm. stjórnarandstöðunnar, að ekki beri brýna nauðsyn til þess að afgreiða þetta mál nú á þessu þingi, og það sé eðlilegra að geyma sér það þar til síðar. Ég gerði grein fyrir því, þegar ég talaði fyrir þessu frv. um tekju- og eignarskatt hér í hv. d. fyrir jólin, hvaða meginástæður lægju til þess, að brýna nauðsyn bæri til þess að afgreiða þetta mál nú. Ég vil þó við þetta tækifæri rifja það upp, sem ég taldi grundvallaratriði í því og rök fyrir afgreiðslu á frv. nú.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram og kemur fram í nál. hv. 2. minni hl., 7. þm. Reykv., að eftir að búið var að gera þær breytingar á tryggingalöggjöfinni, sem gerðar voru s.l. vor og nú fyrir jólin í vetur, þá var óhugsandi að búa við gamla innheimtukerfið. Ég hef áður leitt að því rök, að það var ekki framkvæmanlegt að gera þessar breytingar, nema gera um leið breytingu á innheimtukerfinu. Þessi breyting á tryggingalöggjöfinni hefði leitt til þess, að á árinu 1972 hefði orðið að innheimta hjá hjónum 22 þús. kr. í persónuskatt til trygginganna og sjúkrasamlaga, og það hefði orðið að innheimta hjá einhleypum karlmanni 15 800 kr. og hjá konum tæp 14 þús. kr. Þetta þýðir t.d., að hjón með 2 börn í framhaldsskólum, sem ekki hefðu tekjur, hefðu orðið að greiða um 50 þús. kr. í þessa persónuskatta. Það var því óhugsandi að gera þessa breytingu á tryggingakerfinu án þess að gera einnig breytingu á innheimtukerfi trygginganna.

Í öðru lagi er svo það, að útgjöld trygginganna, sem vaxa á árinu 1972, mundu hafa aukið útgjöld sveitarfélaganna um 200 millj. kr. Þess vegna hefði þetta einnig komið fram í hækkuðum útsvörum á þeim vettvangi, ef engin breyting hefði verið gerð þar á.

Í þriðja lagi kemur svo það, að sjúkrasamlagsgjöldum var haldið niðri með verðstöðvunarlögunum, og þau hefðu því hækkað meira en ég hef tölur um nú í sambandi við þessar athuganir.

Það er því ekki hægt að færa rök að því, að það hefði verið hægt að fresta þessum breytingum, nema þá að fresta breytingum á tryggingalöggjöfinni. Og ég vil minna á það, að við afgreiðslu á því máli hér á hv. Alþ. skiptust hv. þm. ekki í flokka með eða á móti. Þeir voru yfirleitt með þeirri breytingu. Þetta er bein afleiðing af þeirri ákvörðun, og það er líka bein afleiðing af þessari ákvörðun, að það varð að gera þá kerfisbreytingu með þeim hætti að taka saman breytingar á tekju- og eignarskatti og tekjustofna sveitarfélaganna jafnhliða. Það var ekki hægt að komast fram hjá þessu vegna þeirra breytinga, sem búið var að gera á tryggingalöggjöfinni. Þess vegna er það svo, að þar sem hv. þm. sögðu a í sambandi við breytingu á tryggingalöggjöfinni, þá verða þeir einnig að segja b í sambandi við breytingu á skattalöggjöfinni og tekjustofnalögunum, sem nú er verið að vinna að, enda minnist ég þess, að þegar hv. 1. þm. Reykv., formaður Sjálfstfl. talaði hér í sambandi við frv. um tekju- og eignarskatt í hv. d. fyrir jólin, þá vildi hann leiða rök að því, að það hefði verið ofmælt hjá mér, að hér væri um nýja stefnu að ræða, því að meginatriðin í þessum frv. væri það, sem þeir viðreisnarmenn hefðu ætlað sér að gera, þótt það hefði ekki verið komið í framkvæmd.

Ég vil líka færa rök að því, að ein höfuðástæðan til þess, að það varð ekki komizt hjá því að gera þessar breytingar nú þegar, var m.a., að þá hefðu komið til framkvæmda skattalögin, sem voru sett hér í fyrra. Ýmislegt í þeirri löggjöf var mjög í andstöðu við núv. ríkisstj., og það var ekki eðlilegt, að hún léti á sínu fyrsta stjórnarári fara að framkvæma þá löggjöf, sem almenningur hefði þá litið á sem hennar mál. Og það voru fleiri en við, sem nú erum stjórnarsinnar, sem voru andstæðir þessari löggjöf eða frv. á sinum tíma hér á hv. Alþ. Ég vil þar nefna mann eins og próf. Ólaf Björnsson, sem talaði mjög gegn frv. um tekju- og eignarskatt í Ed. í fyrra. Ólafur Björnsson var þá í fjhn. fyrir Sjálfstfl. í Ed., og hann er hagfræðiprófessor, og þess vegna er ástæða til að ætla, að hann hafi byggt skoðun sína á nokkuð mikilli reynslu. En það var ýmislegt, sem Ólafur benti á í sambandi við skattalögin, sem voru afgr. í fyrravor. M.a. benti hann á, að það er óhugsandi að setja slíka skattalöggjöf, nema áður sé breytt lögum um hlutafélög. Lögin um hlutafélög væru svo fjarri því, að hægt væri að hyggja skattalöggjöf fyrir hlutafélögin á þeim, eins og gert var í fyrra, að það væri óframkvæmanlegt að gera slíkt.

Eitt atriði, sem hér var mikil deila um á hv. Alþ. og t.d. Ólafur Björnsson var ekki hrifinn af, var það skattfrelsi, sem hluthafar áttu að hafa af hlutabréfum sínum. Um þetta varð veruleg deila og gekk svo langt, að Vinnuveitendasamband Íslands snerist gegn frv., eins og það kom fram í fyrra og dró úr þessum fríðindum. Það var því ekki ástæða til, að núv. valdhafar færu nú að framkvæma þessa löggjöf.

Í sambandi við það, sem próf. Ólafur Björnsson sagði um hlutafélögin, vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp úr ræðu hans þar um, en þar segir hann:

„Í annan stað er vert að benda á, að eins og löggjöf um hlutafélög er nú háttað, er nánast hægt að stofna hlutafélög um hvaða smáatvinnurekstur sem vera skal. Af þessu leiðir, að smáatvinnurekendur og jafnvel einyrkjar í hvaða atvinnugrein sem er gætu í reynd valið um skattlagningarform hlutafélags og einstaklings.“

Ólafur segir síðar, að þeir, sem hafa eins konar sjálfstæðan atvinnurekstur með höndum, mundu í stórum stíl fara þá leið að stofna hlutafélög með nánustu fjölskyldu sinni, sem þýðir það, að þeir fengju þar jafnvel nokkra tugi þús. kr. skattfrjálsa.

Það var engin ástæða til þess, að núv. ríkisstj. færi að láta þessi lög koma til framkvæmda. Það var fjarri öllu, ef hún hefði gert það, og þessar tvær höfuðástæður voru fyrir því, að brýna nauðsyn bar til að ganga í breytingar á skattakerfinu með verulegum hraða.

Hitt tók ég fram við 1. umr. hér í hv. d. og skal endurtaka það, að engum var ljósara en mér, að sá tími, sem var til umráða til þess að vinna þetta verk, var allt of skammur, og þess vegna mun verða haldið áfram við að vinna verkið.

Það hefur komið fram í ræðum hv. þm., frsm. minni hl., að málið væri illa unnið og allt það, sem er nú þetta venjulega tal þar um, sem skiptir ekki miklu máli, en m.a. það, að höfundar þess fyndust ekki og það hefðu ekki verið valdir til þessa verks menn, sem kynnu þar til verka. Nú vil ég taka það fram, eins og ég gerði við 1. umr. þessa frv., að á skattalagafrv. getur enginn borið ábyrgð nema sú ríkisstj., sem leggur frv. fram og stendur að því að láta vinna þau. Það tal, sem var hér á hv. Alþ. í fyrra um það, að embættismenn hefðu samið frv., sem þá voru lögð fram, og þau væru verk embættismanna, var ekki raunhæft. Það veit ég af eigin reynslu, að var ekki raunhæft, enda hlýtur svo að fara, að í slíku máli verður stefnan alltaf mörkuð af þeirri ríkisstj., sem ætlar að leggja málið fram. Þess vegna er það skollaleikur einn að ætla að koma sér á bak við þá, sem verkin vinna. Auðvitað er stefnan mörkuð af ríkisstj., sem lætur vinna verkin. En hverjir unnu að þessu verki? Það var ráðuneytisstjórinn í fjmrn., sem var formaður beggja nefndanna,.þeirrar, sem vann á vegum fyrrv. ríkisstj., og þeirrar, sem vann á vegum núv. ríkisstj. Það var Guðmundur Skaftason, löggiltur endurskoðandi, lögfræðingur og fyrrv. skattrannsóknastjóri. Segja menn svo, að sá maður kunni ekki til verka? Ég leyfi mér að mótmæla slíku. Það var Gunnar R. Magnússon endurskoðandi. Ég veit, að hann kann vel til verka í skattamálum og kann full skil á þeim. Það var Magni Guðmundsson hagfræðingur. Hann kann einnig til verka í skattamálum og kann full skil á þeim.

(Gripið fram í.) Ja, Magni Guðmundsson hætti störfum, en það var m.a. af því að hann ætlaði af landi burt og tók það fram, að hann yrði ekki í nefndinni nema til áramóta, þegar hann fór í hana. Það var Björn Jónsson, forseti Alþýðusambands Íslands, hv. alþm. Halda menn svo, að sé hægt ... (Gripið fram í.) Hann var í skattanefndinni, já. Vilja svo hv. þm. halda því fram, að þessir menn kunni ekki til verka í skattamálum? Þeir séu ekki fullframbærilegir við þá aðra, sem þarna hafa unnið að? Ég segi ekki, að það séu ekki fleiri menn til á landinu, sem kunni til verka í skattamálum. Því held ég ekki fram, en ég mótmæli því, að þessir menn kunni ekki fullkomlega til verka. Hitt veit ég ósköp vel, að þeir höfðu of lítinn tíma til að vinna þetta verk, og það hef ég margtekið fram, en þarna var til staðar fullkomin þekking. En ábyrgðina af þessu verki hlýtur ríkisstj. að bera, og ég bið mig ekki undan því frekar en ég gerði við 1. umr. þessa máls, enda væri slíkt fjarri öllu lagi, því að ég veit, að á það var bent af þessum mönnum, að þetta væri of lítill tími til að vinna þetta verk.

Hitt verð ég að segja, að þrátt fyrir það að þessi ríkisstj. hefði ekki eins marga mánuði til þess að vinna að þessu verki og fyrrv. ríkisstj. hafði áður, þá hefur þó verið mörkuð skýrari stefna í skattamálum á þessum mánuðum en á árunum hjá Viðreisn. Og svo koma hv. þm. Sjálfstfl. eins og hv. 2. þm. Vestf., sem naut þeirra kosta, sem hann hefur og mér þykir vænt um og hef gaman af. Hann passaði sig að nota hæfileika sína í gamanseminni meira en röksemdirnar í sambandi við málið. Það var rétt af honum og skal vel metið. Þegar hann fór að tala um það, hvað fyrrv. ríkisstj. hefði gert mikið í því að gera skattakerfið einfaldara og koma á staðgreiðslukerfi skatta, þá fannst mér húmorinn ná sér fyrst á strik. Hvað er það, sem fyrrv. ríkisstj. er búin að gera til þess að gera skattakerfið einfaldara eða koma á staðgreiðslukerfi skatta? Hún er búin að láta nefnd eftir nefnd vinna að málinu, en allar hafa þær strandað á því, að það er ekki hægt að koma á staðgreiðslukerfi skatta nema með því að gera skattkerfið sjálft eintaldara, og það var ekki hægt nema með því að fækka sköttunum, fækka stigunum og fara inn á þá braut, sem nú er verið að fara. Á þessu hefur allt strandað. Það er ekki af því, að menn hafi ekki heyrt þetta og séð þetta, heldur það, að þeir lögðu ekki í það að fara í sjálft skattakerfið til þess að ná þessum árangri. Það er vonlaust að vinna að því að koma á staðgreiðslukerfinu nema út frá þeirri einföldun, sem nú er verið að gera og sem betur þarf að færa út. Þá er hægt að koma á staðgreiðslukerfi skattanna, og það þarf að gera. Í þeirri framhaldsvinnu, sem verður unnin að þessum málum, er þetta einn þátturinn, sem þarf að vinna að og verður unnið að.

Það er heldur ekkert nýtt, sem kemur fram í nál. 2. minni hl., Alþfl.-mannanna, að það þurfi að skoða virðisaukaskattinn í sambandi við tekjuöflun ríkissjóðs. Þegar ég lagði þetta frv. fram hér í vetur og talaði fyrir því, þá tók ég það einmitt fram, að áfram yrði unnið að því að endurskoða tekjukerfi ríkisins og þá yrði virðisaukaskatturinn sérstaklega skoðaður. Það eru mörg atriði, sem þá verður unnið að, sem ekki var hægt að vinna að á þeim skamma tíma, sem nú var til umráða. M.a. kemur þá til athugunar mál, sem hefur líka borið hér á góma í þessum umr., en það er skattlagning hjóna.

Það er mál, sem þarf að athuga betur en gert hefur verið til þessa, hvernig við eigum að komast út úr þeim vanda, sem við erum komnir í í sambandi við skattlagningu hjóna. Við erum þar að fást við vissan vanda. Það er rétt, sem þær konur halda fram, sem eru einstæðar, ekki sízt einstæðar mæður, að ef konur missa manninn sinn, þá fara þær að greiða af öllum sínum tekjum. Ef þær aftur eru giftar, þá fá þær helminginn frádreginn. Það verður ekki hægt að komast út úr þessu kerfí nema með því að taka þetta mál í heild til sérstakrar athugunar, og að líkindum verður niðurstaðan sú, að hjón verða skattlögð sitt í hvoru lagi. Það er svo annað mái. hvort þetta á að leiða til þess, að gera bæði skattfrjáls, eins og mér finnst nú ætlað í till. Alþfl. Það er ekki mín hugsun, að svo eigi að verða.

Það eru fleiri atriði, sem á að athuga í framhaldsathugun á skattamálunum, eins og t.d. eigin húsnæði. Nú var mjög gagnrýnd af hv. 5. landsk. þm., Stefáni Gunnlaugssyni, sú ákvörðun, sem ég tók sem fjmrh., eftir að skattyfirvöld höfðu lagt það fyrir mig, að gera viðhaldskostnað á eigin íbúð fastan lið í mati hennar. Ástæðan til þess, að skattyfirvöld lögðu mjög ríkt á um þetta, var, að kringum viðhaldskostnaðinn hefur verið alveg geysileg vinna og afskaplega mikið þráttað um það, hvað væri viðhald og hvað væru endurbætur. Þess vegna fannst þeim réttmætt, nú þegar nýja fasteignamatið tók gildi, að þetta væri tekið upp, og þessi ákvörðun er ekkert í tengslum við þetta skattalagafrv., því að hún er tekin án tillits til þess og hefði verið hægt að taka hana, þó að gömlu lögin hefðu gilt. Hún er fyrst og fremst í beinu sambandi við breytinguna á matinu. Hins vegar finnst mér eðlilegt, og það var nokkuð til umr. í skattalaganefndinni í haust, að reyna að koma eigin íbúð sem mest út úr tekjum og gjöldum einstaklinganna, og eins og nú er komið, þar sem horfið er að því, að tekjur af eigin íbúð eru ekki skattlagðar til útsvars, þá hlýtur það að leiða til þess, að reyna að koma eigin íbúð sem mest út úr framtalinu. En í sambandi við það þarf einnig að hafa hliðsjón af þeim vaxtafrádrætti, sem einstaklingarnir hafa m.a. í sambandi við eigin íbúð. En þetta er mál, sem verður mjög til athugunar í sambandi við framhaldsathugun á skattamálunum, og ég álít, að það beri brýna nauðsyn til þess að reyna með þessum hætti að gera þessi mál einfaldari en áður hefur verið.

Eitt af því, sem núv. stjórnarandstæðingar gera mikið veður út af, er það, hve þetta mál er seint á ferðinni. Nú hef ég í sjálfu sér ekkert við það að athuga og kannske ekki nema gott um það að segja, að gerðar séu meiri kröfur til núv. ríkisstj. en þeirra ríkisstj., sem áður hafa setið, og það kemur nú á daginn, eins og oft vill verða, að menn eru fljótir að gleyma því liðna og minnast þess vegna ekki afgreiðslu skattalaga frá fyrri árum.

Í sambandi við þessar umr. hef ég látið athuga fyrir mig afgreiðslu á skattalagafrv. á Alþ. í síðastliðin 40 ár, og það er dálítið merkilegt að lesa það. (Gripið fram í.) Það fylgir fjmrh., skattalögin gera það. (Gripið fram í.) Það munum við, ef við förum yfir þetta, en það, sem ég hafði upp úr lestrinum, var það, að ég hefði verið svo snemma á ferð, að það hefði verið hægt að afgreiða frv. fyrir áramót, en þá hefði ég verið kominn úr takti fyrirrennara minna, því að þeir eru yfirleitt ekki svo snemma með sínar breytingar.

Ég gríp hér niður í fyrsta málið, sem er lög nr. 79 frá 23. júní 1932, um heimild fyrir ríkisstj. að leggja á tekju- og eignarskattsauka. Samkv. lögum þessum skyldi ríkisstj. heimilt að innheimta 25% álag á tekju- og eignarskatt álagðan 1932 á tekjur ársins 1931. Innheimta skyldi þó ekki hefjast fyrr en eftir 1. okt. 1932. Og ef ég man rétt úr þingsögunni, þá mundi ég halda, að fyrrv. forseti Íslands, herra Ásgeir Ásgeirsson, hefði verið fjmrh. þetta ár. Hinn 24. okt. 1934, — þá mun hv. 1. þm. Austf. hafa verið fjmrh., — voru afgreidd lög nr. 55, um tekju- og eignarskattsauka. Samkv. lögum þessum skyldi ríkisstj. heimilt að innheimta 40% álag á tekju- og eignarskatt álagðan 1934 á tekjur ársins 1933. (Gripið fram í.) Ég vil vera í takt við þá flesta, því að þeir eru eitthvað breyzkir, blessáðir. Þá kem ég næst að 1941. Það voru lög nr. 9 frá 5. maí, um breytingu á lögum nr. 6/ 1935 um tekju- og eignarskatt. Lög þessi felldu niður sérstök lög um skattgreiðslu íslenzkra útgerðarfyrirtækja nr. 49/ 1940 og lög nr. 57/ 1935, um hlunnindi fyrir ný iðnfyrirtæki og skyldu gilda við skattálagningu 1941, sjá fylgiskjal síðar. Þessi lög eru þó ekki sett fyrr en í maí og áttu að gilda vegna ársins 1940. Hinn 5. maí 1941 eru sett lög um stríðsgróðaskatt. Lög þessi skyldu koma til framkvæmda við álagningu skatts á árinu 1941, miðað við tekjur 1940. Skattur þessi var lagður á tekjur 50 þús. kr. og þar yfir, stighækkandi frá 4% til 35% af tekjum yfir 200 þús. kr. (Gripið fram í.) Þá mun fjmrh. hafa verið Jakob Möller, ef ég man rétt. Ég tel mig muna, að hann hafi þá verið fjmrh. Hinn 9. júlí eru sett lög nr. 98, um heimild til tekjuöflunar til ríkissjóðs o.fl. Samkv. þessum lögum var heimilað að innheimta á árinu 1941 10% viðauka á tekjuskatt og eignarskatt álagðan 1941 af tekjum 1940. Svo er hér breyting næst frá 20. maí 1942, og þá mun Jakob hafa verið áfram ráðh., ef ég man rétt. Það er um tekju- og eignarskatt, en hún átti að gilda vegna teknanna, sem var aflað 1941.

Nú skal ég ekki þreyta ykkur allt of mikið með þessu, en hverfa aftur til síðari tíma. Þá koma hér lög nr. 18 frá 12. apríl 1960, um tekju- og eignarskatt og niðurfellingu skattfrelsis, ef um eftir- og helgidagavinnu var að ræða, það voru lög nr. 40 frá 1959, tölul. 24 hér að framan. Þessi lög áttu að gilda við álagninguna 1960 og vegna ársins á undan. Þá koma næst lög nr. 70 frá 28. apríl 1962, um tekju- og eignarskatt. Lög þessi voru ný heildarlög, sem gilda áttu við álagningu 1962 vegna skattársins 1961, og eru svo ýmis atriði, sem þar eru nýmæli um. Þessi lög voru þó ekki sett fyrr en 28. apríi. og það var á viðreisnarárunum. Svo kemur, að samkv. lögum nr. 19 frá 10. maí 1965 skyldi miða eignarskatt álagðan 1965 við þrefalt fasteignamat. Hið sama skyldi gilda við álagningu útsvara á árinu 1965, lög nr. 67 21. maí 1965, og síðar var þetta nú enn meir margfaldað, og þessi lög voru þó ekki sett fyrr en 10. maí og áttu að gilda vegna ársins 1964, sama árið og þau voru lögð á.

Þetta sýnir það, sem ég var að segja hér í upphafi í þessum kafla mínum, að maður hefði orðið illa úr takt við fyrirrennarana, ef lögin hefðu verið afgreidd fyrir áramót.

Svo koma hér síðar lög um tekjustofna sveitarfélaga. Það eru lög nr. 69 frá 28. apríl 1962, en þá voru tveir nýir skattar innleiddir, landsútsvar og aðstöðugjald. Hið síðarnefnda skyldi í fyrsta skipti álagt 1962 á gjaldstofn, sem myndaðist á árinu 1961. Landsútsvarið var hins vegar aðeins lagt á olíufélög það ár og tekið í fulla notkun aftur ári seinna. Þessi lög voru þó ekki sett fyrr en 28. apríl og giltu vegna teknanna ársins á undan.

Svo eru menn að tala um það, að þetta sé seint á ferðinni og annað því um líkt, og mikið talað um, að það sé hugsanlegt, að hinn og þessi fari í mál út af þessari löggjöf. Þá er gert ráð fyrir því, að þeir, sem eru nú í stjórnarandstöðu, hagi sér öðruvísi en fyrrv. stjórnarandstöður, því að yfirleitt hafa ekki orðið málaferli út af því, þótt skattalögin hafi verið svona seint á ferðinni. (Gripið fram í.) Já, hv. 1. þm. Reykn. vitnar í tvær undantekningar þar um, en um aðalmálið, stærra málið, varð þó ágreiningur í Hæstarétti, og það varð út af sérstöku atriði í skattalögunum. Þess vegna held ég, að ef skattþegnarnir hefðu yfirleitt ætlað sér að fara í mál út af slíkum breytingum, þá hefðu flestar eða allar ríkisstj. lent í því, því að yfirleitt hafa skattalagabreytingar verið svo seint á ferðinni, að þær hafa ekki verið tilbúnar, þegar skattaárið byrjar, og t.d. vil ég minna á það í sambandi við breytinguna 1960 um sérstök skattfríðindi, sem fólk átti að fá fyrir eftirvinnu og helgidagavinnu, að það atriði komi aldrei til framkvæmda. Árið 1960 var það numið úr gildi án þess að hafa nokkurn tímann til framkvæmda komið. Það er hliðstætt því, sem nú er verið að gera, og ætti að vera hægt að vitna í það í því sambandi.

Þá koma hv. þm. að skattvísitölunni. Þar kom nú að því, að skattvísitalan var orðin góð og gild og hagkvæmt að nota hana. Ekki var talið, að hún ætti að fylgja framfærsluvísitölu hér áður fyrr, en nú er ekki nóg með það, að hún eigi að fylgja framfærsluvísitölu, heldur á hún að taka einnig til grunnkaupshækkana og tekjuhækkana, vegna þess að vinna hafi verið meiri og annað því um líkt. Það er ekki einungis, að vísitalan eigi að breytast, vegna þess að verð hafi breytzt, heldur á hún að gera það, ef orðíð hafa kauphækkanir, ef menn hafa fengið meiri tekjur, en þá eiga þeir ekki að greiða meiri skatt, því að þá er það skattþynging, segja þeir. Ósköp er þetta nú skrýtið. Mikið var nú eiginlega slæmt, að aumingja Viðreisn skyldi ekki lifa lengur, fyrst hún átti allt það bezta eftir. Það var sorglegt, að hún skyldi liggja á kostunum í 12 ár, en eiga þá alla ónotaða, þegar hún fór úr ráðherrastólunum. Ætli hefði nú ekki gleymzt eitthvað af þessu ágæti, ef hún hefði setið áfram? T.d. er það svo, að á árunum 1960–1963, í 4 ár, er frádráttur hjá skattþegnunum algjörlega óbreyttur, alveg án tillits til þess, þótt breytingar hafi átt sér stað. Sama er að segja árið 1964 og 1965 og 1966. Þá verða hins vegar breytingar, en þær eru ekki neitt í samræmi við þær breytingar, sem urðu á vísitölunni. Þær eru miklu lægri en það, og voru þetta þó góð ár. Svo kemur algjört hlé 1967, 1968 og 1969. Þá er það allt óbreytt. Á því tímabili urðu tvær stórfelldustu gengislækkanir, sem hér hafa átt sér stað. Það var ekki talin ástæða til að hækka persónufrádrátt fólksins vegna þess. Svo varð nokkur hækkun í fyrra fyrir kosningarnar. Þá var það talið nauðsynlegt vegna kosninganna, og þá var vísitalan sett 100, og nú þykir þetta óeðlilegt.

Ef á svo að fylgja þeirri vísitölu, sem þá var sett, 100, og taka þær breytingar, sem síðar hafa orðið miðað við dýrtíðina í landinu, og það hefur verið gerður sérstakur útreikningur á samanburði á núv. sköttum, sem eiga að taka gildi, og gamla kerfinu, eftir að þessi vísitala, 121.5, er reiknuð sem grundvöllur í þessu. Það gerist hið sama, að vísitalan breytir ekki afstöðunni á milli kerfanna. Það sem hún gerir, er það eitt, að skattarnir í heild lækka, ekkert annað. Það er ekkert annað, sem þessir hv. alþm. hafa áhuga á, en að draga úr tekjum ríkissjóðs gegnum skattakerfið, og hefði nú verið tími til að nota þessa leið, áður en þeir væru orðnir valdalausir.

Ef gerður er þessi samanburður, kemur það í ljós, að þetta breytir engu. Hlutfallið á milli þess arna eftir þessum útreikningi er ekki nýja kerfinu í óhag, og hvað segir svo þetta tal um skattahækkunina og allt það? Ef málið er hugsað þannig, að hærri tekjur eigi ekki að gefa neitt hærri skatta, þá er auðvitað öllum ljóst, að það eru fleiri krónur í skatta á næsta ári, á árinu 1972 en áður, en ef gerður er samanburður á milli kerfanna og hliðstæðra tekna, — það er hið eina, sem er raunhæft í þessu, — þá kemur nýja kerfið út með lægri tekjur. Það er þetta, sem skiptir máli, og hvar er þetta, sem lægri tekjurnar eru? Á tekjubilinu frá engum tekjum upp í 300 þús. kr. lækka skattarnir eftir nýja kerfinu frá því gamla um 321 millj. kr. í heild. Á tekjubilinu frá 301 þús. kr. í 425 þús. kr. lækkar þetta um 82 millj. kr. Á tekjubilinu frá 426 upp í 520 þús. kr. lækka skattarnir um 51 millj. kr. Samtals er þetta á milli 400 og 500 millj. kr., sem lækkar á þessu fólki, sem hefur þessar tekjur, og þetta er mikill meiri hl. af skattþegnunum í landinu. Þegar kemur svo á bilið frá 551 upp í 730 þús. kr., þá er hækkun um 25 millj. kr. í heild, og þegar þar kemur yfir, þá er enn nokkur hækkun. En í heild er lækkunin um 360 millj. kr., þegar tekið er tillit til allra skattanna, tekju- og eignarskatts, fasteignaskatts, útsvara og persónuskatta, þegar allt er borið saman í heild.

Það þarf engan að undra, sem kom fram í ræðu hv. 5. landsk., Stefáns Gunnlaugssonar, þegar hann talaði um, að tekjuskatturinn hækkaði þetta í samanburði frá árinu áður og nú, en hv. þm. gleymdi því, að þá er búið að lækka útsvörin, og svo á að fella niður persónuskattana, sem voru í fyrra um 500–600 millj. kr. og hefðu nú orðið um 1 200 millj. kr. Þegar svona reikningskúnstum er beitt, þá kemur ekki rétt út úr heilanum, þá er hann rangt mataður. Það er hægt með þessum kúnstum að gera slíka hluti, en þetta er ekki það, sem sýnir hið raunhæfa. Ef menn vilja halda sig við staðreyndir, þá eiga þeir ekki að nota svona kúnstir. Það er ekki hægt að sleppa frá þessu dæmi, og það er ekki hægt að gera þennan samanburð nema taka þetta saman í eina heild, og þannig hefur heilinn verið mataður, og þannig sýnir hann réttar tölur, því að það þarf enginn að efa, að það sé sæmilega rétt, sem út úr honum kemur, ef rétt er matað, og það hefur verið gert í þessum tilfellum með þessum samanburði, enda hafa margir um þetta fjallað og fengið þá raunverulegu niðurstöðu, þegar rétt hefur verið að staðið.

Það er svo annað mál, hversu tekjuöflun ríkissjóðs og bæjarfélaga á að vera mikil í formi beinna skatta. Um það má deila. En það er ekkert að gerast hér nú, sem bendir til þess, að núv. ríkisstj. sé að auka þetta. Þetta er mjög misjafnt, og ég hef ekki tölur um þetta frá nágrannalöndunum, sem eru yngri en frá 1969. En þá er Bretland með um 441/2% af ríkistekjunum í beinum sköttum, Noregur og Danmörk með 47 til 48%, Svíþjóð yfir 60%, en Ísland er með innan við 25%, og við þær breytingar, sem nú eru gerðar, verður ekki breyting á þessu í þá átt, að beinu skattarnir verði virkari í ríkistekjunum en áður hefur verið. Þeir gera ekki betur en að halda hlutfallinu.

Ég felli mig ekki almennilega við, þegar verið er að tala um það, að með skattálagningu sé verið að draga úr áhuga fólksins til að afla tekna. Nú finnst mér, að það eigi ekki að hafa þau áhrif á þegnana í landinu. Mér finnst það eigi að vera ánægjuefni hverjum þjóðfélagsþegni að geta lagt mikið til síns byggðarlags og síns ríkis í uppbyggingunni. Ekki skortir okkur yfirleitt vilja til að sækja til hins opinbera ýmsa hluti, sem við þurfum til þess að bæta lífið og bæta byggðarlag og bæta þjóðfélagið. En við getum ekki gert þetta, nema einhvers staðar komi tekjur til þess að koma í framkvæmd því, sem betur má fara, bæði á sviði félagslegra umbóta og framkvæmda.

Ég verð að segja það, að þegar fyrrv. ríkisstj. sat hér að völdum, þá komst heildarskattprósentan upp í 57% af tekjum manna, og þá áttu þeir eftir að greiða persónuskattana, og þá áttu þeir líka eftir að greiða þá fasteignaskatta, sem þeir hlutu. Þetta komst samt upp í 57%. Það var ekki komið í háar tekjur, þegar komið var í hámark, bæði í tekjuútsvarinu og tekjuskattinum. Með þessu frv. hér er þó ekki gert ráð fyrir að fara lengra en í 54%, og þá er persónuskatturinn kominn inn í dæmið, svo að það sýnir nú ekki neina sérstaka viðleitni til að ganga lengra í þessa átt en áður hefur verið.

Ég vil líka segja það í sambandi við atvinnureksturinn, að með þessum skattafrv. er ekki verið að þrengja kjör hans, nema þar sem farið var út í það að gera þau óeðlileg, eins og gert var með flýtifyrningunni, þar sem hægt var á einu ári að slátra stórfelldum tekjum fyrirtækis og gera það skattlaust. Það er óeðlilegt. Hitt er eðlileg stefna, að fyrirtæki geti haft möguleika til afskrifta vegna verðbólgunnar með sæmilegu aðhaldi. Það er nauðsynlegt. En það bætir ekki úr að gera eins og þarna var gert, enda var það svo, að fyrirhyggjulausir atvinnurekendur hefðu getað bara í heilu góðæri slátrað þessum möguleika sínum með því að gera síg skattlausa á einu eða tveimur árum. Nei, eðlilegast er, að hægt sé að taka slíkar afskriftir vegna verðbólgunnar, en það verður að gerast með fullkominni hófsemi.

Ég verð líka að segja, að þegar ég heyri hv. stjórnarandstæðinga tala nú um fasteignaskattana, þá finnst mér það stundum með öðrum blæ en hefur komið úr þeim herbúðum. Ég tek undir það, að það verður að gæta hófs í þeim, og það á ekki að ganga, nema siður sé, of langt í að leggja á fasteignir, því að þetta eru eignir, sem stundum gefa ekki tekjur. Hins vegar er verulegur kostnaður hjá byggðarlögunum vegna þess, að eignirnar verða þar til, en ég hef hér hjá mér 5. hefti af Sveitarstjórnartíðindum frá 1971. Hér er mynd af nefnd, sem vann að því að athuga m.a. fasteignaskattana sem tekjustofn fyrir sveitarfélögin. Einn af hv. þm., 11. landsk., sat í þeirri nefnd, eins og myndin sýnir, en hvað lagði þessi nefnd til? (Gripið fram í: Er þetta ekki góð mynd?) Jú, myndin er ágæt, þar skortir ekkert á. Ég er búinn að sýna hana víða. — En hvað lagði nefndin til? Hún lagði það til að fá fasteignaskatt. Hefðu sveitarstjórnirnar heimild til þess að leggja á jafnháan skatt, ef þær legðu götu eða annað því um líkt, legðu í sameiginlegar framkvæmdir, þá gætu þær tvöfaldað þessa skatta. Er þetta í samræmi við málflutning hv. sjálfstæðismanna nú? Hæstv. ríkisstj. vildi ekki leyfa, að þetta væri í frv. Henni fannst það of langt gengið, og það gæti verið hættulegt að ganga að fasteignaskattinum með þessum hætti. Þess vegna er það nú svo, að ýmislegt, sem í þessu hefur heyrzt, kemur ókunnuglega fyrir, og ég tek enn undir það, að ég er fylgismaður þess að nota fasteignaskattinn sem tekjustofn, en það verður líka að vera í hófi, svo sem er um aðra skatta og hér er beitt.

Ég skal nú ekki lengja mál mitt í sambandi við þessa umr., því að ég hef nú gert grein fyrir aðalatriðum, sem fram koma í nál. minni hl., og því sem fram hefur komið í ræðum þeirra hér í dag. Ég hef sýnt fram á það með ljósum rökum, að nauðsyn ber til að afgreiða þessi skattafrv., og ef ekki hefði átt að gera það á þessu þingi, þá hefði orðið að fresta breytingum á tryggingakerfinu og fleira, sem við þegar erum búnir að gera.

Ég er líka sannfærður um, að sú stefna, sem mörkuð er nú með þessum frv., er rétt. Hún miðast fyrst og fremst við það að leggja á tekjur, þar sem tekjur eru, og leggja á eignir, þar sem eignir eru. Ekkert í þessum frv. gengur út í þær öfgar, að það sé hægt með nokkrum rétti að halda því fram, að það fæli menn frá tekjuöflun eða á neinn hátt sé verið að þrengja kosti gjaldendanna. Það, sem hér er verið að gera, er ekkert annað en eðlileg tekjuöflun, sem verður að eiga sér stað. Á meðan við notum ekki aðra leið til þess að jafna á milli þegnanna, þeirra, sem hafa miklar tekjur, og hinna, þá er þetta formið, sem við verðum að nota. Mér er fullkomlega ljóst, að það er hægt að nota aðrar leiðir til þess. Ég tek það hins vegar fram, að ég er fylgismaður þess, að leiðir séu notaðar til þess að jafna á milli þeirra, sem hafa lágar tekjur, og hinna, sem hafa háar. Það er hægt að gera þetta í gegnum tryggingakerfið og fleira, en eins og við notum tryggingakerfið nú, þá er enginn jöfnuður í því. Þess vegna verður tekjuskatturinn að vera jöfnunartæki á milli þegnanna.

Ég er líka sannfærður um, að það muni sýna sig, að þessi breyting, sem gerð er á tekju- og eignarskatti og tekjustofnum sveitarfélaga, og afnám persónuskatta er sú stefna, sem fær fylgi. Bæði hv. alþm. og fólkið í landinu mun fylgja henni. Ég er líka sannfærður um, að með framhaldsvinnu í þessum málum tekst hæstv. ríkisstj. að ná því marki, sem hún stefnir að. Hér er byrjun hafin, og það er búið að vinna hér mikið og gott verk, þótt margt sé óunnið enn þá.