16.03.1972
Efri deild: 57. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara út í almennar umr., þó að ræða hv. 5. þm. Vestf. gæfi tilefni til þess, og skal hvorki fara að verja eða sækja á fyrrv. ríkisstj. út af skattálagningu, sem hann gaf þó tilefni til. En ég vil í því sambandi benda á, að það var eins hjá þeirri ríkisstj. og núv., að inn í fjárlagadæmið voru teknir skattar eða útgjöld, sem áður höfðu verið annars staðar, eins og t.d. eru á þessum fjárlögum teknar inn í útgjaldahlið fjárlaga tæpar 1 300 millj. kr., sem áður voru á útgjaldahlið sveitarstjórna. Að mínu mati er í hvorugu tilfellinu um ný útgjöld að ræða, þótt slík tilfærsla eigi sér stað. Ég skal ekki heldur fara út í að ræða um það, sem ég hef áður gert grein fyrir, ákvarðanir fyrrv. ríkisstj. um útgjaldahlið fjárlaga, því að það breytir ekki mati okkar hv. þm. á því, þótt ég endurtaki það einu sinni enn þá, því að ég hef áður gert honum svo ljósa grein fyrir því, að hann hefði gjarnan mátt átta sig á því. En ég er alveg sannfærður um, að það mun engan árangur bera, þótt ég bæti þar um nú. Ég skal því halda mig eingöngu við það, sem hann spurði um sérstaklega.

Í fyrsta lagi spurði hann um það, hvort það væri ætlun ríkisstj. að auka samneyzluna á kostnað einkaneyzlunnar. því er til að svara, að verkefni ríkisins, sem við erum nú oft sammála um, að nauðsynleg séu, geta gengið á einkaneyzluna, en það mun ekki verða nein sérstök stefna um það að öðru leyti en því, að þær nauðsynlegustu framkvæmdir á vegum ríkisins eins og í uppbyggingu skólakerfis, samgangna o.fl. verða að hafa forgang, ef þessar tvær megingreinar rekast á.

Í öðru lagi vil ég svo endurtaka það í sambandi við fsp. hans um stefnu ríkisstj. um beina skatta og óbeina. að það er greinilegt, — enda ber mér og fyrrv. fjmrh. saman um það. — hver hlutur beinu skattanna hefur verið í þjóðartekjum og í ríkistekjunum á undanförnum árum, og þar er ekki nein tilfinnanleg breyting á. Ég skal ekki segja, hvort það er í eða 2% til eða frá, en ég hygg þó eftir þær breytingar, sem búið er að gera á frv. um tekju- og eignarskatt hér í meðferð hv. Alþ., að þá sé þetta orðin mjög svipuð prósenta í ríkistekjunum og áður var. Ég vil því taka það fram, að í þessum frv. felst engin stefnubreyting þar um og ákvörðun um það, hversu mikill hluti beinu skattarnir eiga að vera í tekjuöflun ríkissjóðs, tengist framhaldsatriðum málsins, og ég vil endurtaka það, að þeir verða að vera beinir skattar og verða að vera að nokkru leyti jöfnunartæki, nema öðrum þáttum sé breytt eins og tryggingakerfinu, og virðisaukaskatturinn gæti á einhvern hátt komið inn í það mál, en eins og það er nú, eru tekjuskattarnir einu skattarnir, sem eru raunverulegir jöfnunarskattar í þjóðfélaginu. Tryggingakerfið er það ekki, og það verður að breyta því, til þess að það geti orðið það, og í því augnamiði er hægt að meta deilur um skattana. En það er ekki um neina stefnubreytingu hér að ræða frá því, sem áður hefur verið, en ég tei. að ef ekki verður fundin önnur leið til jöfnunar. verði að halda tekjusköttunum í því horfi, sem nú er. En ég loka hins vegar ekki þeirri leið, að tryggingar og aðrir þættir geti leyst tekjuskattinn sem jöfnunartæki af hólmi.

Í þriðja lagi vil ég svo segja það, að það er ekki mín skoðun, — og tel ég mig hafa þar nokkra þekkingu á, — að með því að færa þau útgjöld frá sveitarfélögunum. sem eru framlag í tryggingarnar, löggæzlukostnaðinn og sjúkrasamlögin, sé verið að skerða sjálfstæði þeirra, enda hefði Ég á engan hátt, nema síður sé, löngun til þess. Ég tel, að það sé atriði, sem eigi að koma inn í framhaldsathugun á þessum málum. þegar nægur tími vinnst til að vinna þetta, eins og nú verður, hvaða verkefni það eru, sem ríkið og sveitarfélögin gætu skipzt á um. Það má ganga að minni hyggju lengra í því að láta sveitarfélögin fá verkefni, sem ríkið hefur að hluta nú, og ef ég mætti gera að eigin vilja í þeim efnum og það væri framkvæmanlegt, teldi ég bezt að hafa sem minnst af verkefnum, sem væru sameiginleg, heldur að skipta þessu sem mest þannig, að hvor aðilinn réði fyrir sig. Það, sem ég hef haft út á það að setja, að sveitarfélögin yrðu að greiða til trygginga, löggæzlu og sjúkrasamlaga, er það, sem ég hef gert grein fyrir í umr. um þessi mál, að sveitarfélögin ráða að minnstu eða kannske í sumum tilfellum að engu leyti um raunveruleg útgjöld þessara útgjaldaliða. Þess vegna finnst mér, að það sé eðlilegt að aðilinn, sem ræður um útgjöldin, annist þau einnig, og það er ríkið. Ég vil því segja það. að frá minni hendi er sú hugsun sterk, að sjálfstæði sveitarfélaganna eigi að efla. en ekki að skerða. og ég tel, að þeir þættir, sem hér hafa verið lagðir fram í frv.-formi, gangi ekki í þá áfl. en með framhaldsathugun á málunum verði hægt að vinna þessa þætti betur út en tími vannst til nú.